135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

Reykjavíkurflugvöllur.

[13:50]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég segi eins og hæstv. ráðherra, mér finnst þetta alveg óþolandi ástand og tel að þarna verði að vinna af miklum krafti í málunum svo við finnum einhverja niðurstöðu. Manni sýnist helst að niðurstaðan verði sú að horft verði til skemmri tíma og byggð einhver bráðabirgðastöð, því að þetta ástand, að bjóða upp á þessa skúra fyrir farþega í innanlandsflugi, er ekki boðlegt.

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra að því hvort hann sé ekki tilbúinn að setja einhverja milljónatugi í þetta eða beita sér fyrir því að Alþingi samþykki það að einhverjir fjármunir fari í að byggja þarna þó að það mætti kallast bráðabirgðahúsnæði. Auðvitað vonast ég til þess að það verði húsnæði til framtíðar af því að ég tel mikilvægt að við höfum flugvöll fyrir innanlandsflugið í Reykjavík og þá er ég ekki að tala um uppi á Hólmsheiði (Forseti hringir.) sem var nú bara að koma í ljós á síðustu dögum og vikum að er alls ekki æskilegur staður fyrir flugvöll.