135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands.

370. mál
[14:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem og hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að taka þátt í þessari umræðu um málefni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það er vissulega rétt sem hér hefur komið fram að það er þörf á því að efla þessa starfsemi hvort heldur er sunnan eða norðan heiða.

Ástæða þess að ég spurði sérstaklega um Akureyrarsetrið hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er sú að í dag starfa þarna átta manns sem hringla, ég orða það þannig, í stóru húsnæði þar sem auðveldlega gætu unnið 14 manns. Ef við lítum þannig á málið er í raun og veru verið að sóa ákveðnum verðmætum því að þarna er verið að leigja þó nokkuð dýrt húsnæði eins og við þingmenn þekkjum samkvæmt umræðunni hér í gegnum árin. Ég vil setja þetta í samhengi við það erfiða ástand sem við er að glíma á mörgum stöðum við að efla atvinnulífið á landsbyggðinni og kannski sérstaklega í þessu tilviki á Akureyri, og í samhengi við það að stjórnmálamenn hafa lofað að fjölga opinberum störfum sérstaklega á landsbyggðinni og að við vitum að á undanförnum árum hefur langmesta fjölgunin orðið á suðvesturhorni landsins í þeim málaflokki.

Ég fagna því sérstaklega sem hæstv. ráðherra upplýsti áðan að fram undan sé undirritun samstarfssamnings milli Háskólans á Akureyri og Náttúrufræðistofnunar Íslands um stöðugildi við stofnunina fyrir norðan. Það mun án efa efla Háskólann á Akureyri sem og Náttúrufræðistofnun. En ég vil sjá að betur sé gert vegna þess að því miður höfum við fengið fréttir af því á undanförnum mánuðum að Lýðheilsustöð sé búin að segja upp samstarfssamningi við Háskólann á Akureyri og allir þekkja þá umdeildu ákvörðun sem tekin var þegar staða forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar var í raun og veru lögð niður eða sameinuð öðru og verður því starfi nú gegnt af höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli sýna það hér (Forseti hringir.) að hún vilji fjölga störfum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri og styð hana eindregið og hvet hana til dáða í þeim efnum.