135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

embætti umboðsmanns aldraðra.

396. mál
[14:26]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp. Ég tel að málefni aldraðra og lífeyrisþega almennt sé einn mikilvægasti málaflokkur sem stjórnvöld hafa til umfjöllunar og aldrei sé of oft fjallað um þetta mál í sölum þingsins.

Ég er þeirrar skoðunar að upplýsingagjöf sé eitt af því sem bæta þarf verulega að því er varðar málefni aldraðra, bæði hvað varðar þjónustu við lífeyrisþega og aldraða almennt hvernig sem aðstæður þeirra kunna að vera. Ég hef hug að á efla upplýsingaþjónustu við aldraða og mun m.a. annars óska eftir samvinnu við hagsmunasamtök eldri borgara í því efni en ég tel að við eigum að skoða allar hugsanlegar leiðir í því sambandi.

Ég geri mér grein fyrir að það hefur verið nokkuð umdeilt, bæði meðal stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi og annarra, hvort setja eigi á fót embætti um afmarkaða málaflokka eða styrkja embætti umboðsmanns Alþingis enn frekar. Meðal annars hefur verið rætt um embætti umboðsmanns sjúklinga, umboðsmanns aldraðra, auk umboðsmanns barna sem nú er komin ágætisreynsla á.

Umboðsmannsembætti um heim allan eru nokkuð mismunandi enda þótt flest þeirra séu byggð á sama grunni. Ég hef kynnt mér þróun þessara embætta í öðrum löndum og tel m.a. athyglisvert embætti umboðsmanns gagnvart jafnréttismálum og hvers kyns mismunun sem sett hefur verið á fót í Noregi. Það embætti er að vissu leyti hliðstætt Jafnréttisstofu hér á landi en þó með víðtækari skírskotun. Í Svíþjóð hefur jafnframt verið sett á fót sérstakt embætti umboðsmanns gegn mismunun, svo sem gagnvart innflytjendum, og þar er umboðsmaður jafnréttismála og umboðsmaður neytenda. Í mörgum öðrum löndum, svo sem í Bretlandi, eru fjölmargar skrifstofur umboðsmanna gagnvart mismunandi sviðum, svo sem sveitarfélögum, samgöngumálum, neytendamálum, lífeyrismálum og fleiri sviðum.

Varðandi spurningu hv. þingmanns þá vil ég halda því til haga að ég stóð að því með samflokksmönnum mínum í Samfylkingunni að setja það fram sem eina af fjölmörgum tillögum í stefnumörkun í þágu aldraðra að stofnað yrði embætti umboðsmanns aldraðra. En stofnun umboðsmanns aldraðra er ekki í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og því þarf að ræða það á milli stjórnarflokkanna ef stofna á embætti umboðsmanns aldraðra.

Ég tel líka mikilvægt að við förum heildstætt yfir þessi mál hér á landi og hvernig þeim sé best fyrir komið í stjórnskipulagi okkar og samfélagi. Við eigum að tryggja að staðinn sé vörður um jafnræði ólíkra þjóðfélagshópa og skoða af fullri alvöru hvort stofnun umboðsmanns aldraðra stuðli að því og að því mun ég huga. Ég tel eðlilegt að farið verði yfir reynslu annarra þjóða af embættum sem fjalla um afmörkuð svið eins og t.d. um lífeyrismál. Þau mál eru afar flókin og umfangsmikil og við verðum að tryggja að kerfið sé skiljanlegt og aðgengilegt og byggt á jafnræðissjónarmiðum.