135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

skipting fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu.

364. mál
[14:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem hér er lögð fyrir tengist þeirri sem rædd var hér á undan. Hún kemur inn á það að hve miklu leyti heilbrigðisþjónusta er veitt af öðrum en opinberum aðilum í hinum ýmsu greinum heilbrigðisþjónustunnar.

Í spurningu minni óska ég eftir sundurliðun um helstu greinar heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu að meðtöldum heimilislækningum og heimahjúkrun, endurhæfingu, sjúkrahúsþjónustu, öldrunarþjónustu og tannlækningar.

Sambærileg spurning var lögð fyrir þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra á árinu 2001 af félaga okkar þingmanninum Árna Ragnari Árnasyni sem nú er látinn. Upplýsingarnar miðuðust við skiptingu fjármagns til heilbrigðis- og tryggingamála miðað við fjárlög 2002 og þær vöktu nokkra athygli. Þar kom m.a. fram að um 21% af því sem varið var til heilbrigðis- og tryggingamála var beint til annarra en ríkis og sveitarfélaga. Þar kom einnig fram að hlutur einkaaðila var mismunandi eftir málaflokkum. Hann var t.d. 94% í rekstri endurhæfingar- og meðferðarstofnana, um 60% í rekstri öldrunarstofnana, um 11% í rekstri heilsugæslu í landinu en 0% í rekstri sjúkrahúsa.

Endurhæfingar- og meðferðarstofnanir sem hér er vísað til eru t.d. SÁÁ, Reykjalundur, Sjálfsbjargarheimilin í Reykjavík og Akureyri og heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði. Öldrunarstofnanir sem um er rætt eru stofnanir sem fá rekstrarframlög frá ríkinu og eru í eigu einkaaðila eða félagasamtaka og eru þær stærstu Hrafnistuheimilin í Reykjavík og Hafnarfirði, Grund, Sóltún, Skógarbær, hjúkrunarheimilin Skjól og Eir, Sunnuhlíð í Kópavogi og Ás í Hveragerði.

Hlutur einkaaðila í heilsugæslu var 11% á árinu 2002 eins og fyrr sagði en þar er um að ræða Heilsugæsluna Lágmúla og Læknavaktina en umfang þess rekstrar hefur vaxið verulega á síðustu árum.

Í öðru lagi óska ég eftir að fá upplýsingar um hvernig þetta hlutfall hefur breyst frá árinu 2001 frá því að upplýsingar komu fram í fyrirspurn sem þá var rædd og ég vísaði í hér að framan. Í þriðja lagi óska ég eftir upplýsingum um hvernig sambærilegri skiptingu er varið á Norðurlöndum og á Bretlandi.

Í nýrri skýrslu OECD um íslensk heilbrigðismál, sem kynnt var nýverið, er hvatt til aukins einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu. Það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún kemur fram í stefnuyfirlýsingu frá því í maí á síðasta ári.

Fyrirspurn sú sem hér er lögð fram ásamt þeirri sem rædd var hér á undan er til þess fallin að gera stöðumat á þessum málum hér á landi og er innlegg í frekari umræðu um þessi mál.