135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

skipting fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu.

364. mál
[14:58]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er kominn í ágætisþjálfun í að svara þessari fyrirspurn í það minnsta byrjuninni á henni. Ég hef nú lesturinn hér aftur. Hv. 7. þm. Reykv. s. hefur beint til mín eftirfarandi spurningum.

„1. Hve stórum hluta heilbrigðisþjónustunnar er sinnt af öðrum en opinberum aðilum, miðað við fjárveitingar í fjárlögum, að meðtöldum fjárveitingum til sjúkratrygginga? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um helstu greinar heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu að meðtöldum heimilislækningum og heimahjúkrun, endurhæfingu, sjúkrahúsþjónustu, öldrunarþjónustu og tannlækningar.“

Þeir sem veita heilbrigðisþjónustu á Íslandi aðrir en opinberir aðilar eru félagasamtök, sjálfseignarstofnanir, einkafyrirtæki og sjálfstætt starfandi sérfræðingar, hér eftir nefndir einkaaðilar til aðgreiningar frá opinberum aðilum. Í svarinu er eingöngu miðað við kostnað við að veita heilbrigðisþjónustu og er kostnaður við stjórnsýslu- og eftirlitsstofnanir ekki meðtalinn.

Samkvæmt tölum fjárlaga fyrir árið 2008 er hlutdeild einkaaðila 31% af kostnaði við að veita heilbrigðisþjónustu og opinberra aðila 69%. Hlutdeild aðila er þó mismunandi eftir tegundum þjónustu eins og fram kemur síðar.

Sjúkrahúsþjónusta, sem er dýrasti þáttur heilbrigðisþjónustunnar, er að öllu leyti ríkisrekin í dag en þó ber þess að geta að löng hefð er fyrir einkarekstri á því sviði á Íslandi.

Opinber heilsugæsla er veitt á heilsugæslustöðvum og heilsugæslusviðum heilbrigðisstofnana. Heilsugæslu einkaaðila er sinnt af einkareknum heilsugæslustöðvum, hópi sjálfstætt starfandi heilsugæslulækna, Læknavaktinni og hjúkrunarfræðingum sem sinna heimahjúkrun samkvæmt samningi í umsjón Tryggingastofnunar. Í krónum talið sinna opinberir aðilar um 90% af heilsugæslu en einkaaðilar um 10%. Þannig er heilsugæsla að stærstum hluta á höndum opinberra aðila.

Kostnaður við heimahjúkrun er ekki aðgreindur í bókhaldi margra stofnana. Því liggur ekki fyrir hver kostnaður við þennan þátt er í heild. Til að gefa mynd af stöðunni má nefna að hjúkrun í heimahúsum, sem Tryggingastofnun greiðir til sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga, nemur um 20% af kostnaði við heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Opinberir aðilar veita öldrunarþjónustu á öldrunardeildum stærri sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum heilbrigðisstofnana. Hjúkrunarheimili og dagvistarstofnanir fyrir aldraða eru eingöngu rekin af einkaaðilum. Kostnaður vegna starfsemi einkaaðila á sviði öldrunarþjónustu er yfir 70% af kostnaði við þennan málaflokk og vega hjúkrunarheimilin þar þyngst. Aldraðir njóta einnig mikillar þjónustu annars staðar í heilbrigðiskerfinu sem ekki er talin hér.

Miðað við kostnað við rekstur endurhæfingardeilda á stærstu sjúkrahúsunum, einkareknar stofnanir sem sérhæfa sig í endurhæfingu og kostnaði við þjálfun sem Tryggingastofnun greiðir, er hlutdeild einkarekstrar um 63% af kostnaði við að veita endurhæfingu. Á heilbrigðisstofnunum fer fram endurhæfing og ekki liggja fyrir kostnaðartölur vegna þeirrar starfsemi en ljóst er að í krónum talið er meira en helmingur endurhæfingar veittur af einkaaðilum.

Tannlækningar eru eingöngu í höndum sjálfstætt starfandi tannlækna hér á landi.

„2. Hvernig hefur þetta hlutfall breyst frá árinu 2001?“

Hlutfall einkaaðila við að veita þjónustu var 28% árið 2001 og hefur hlutur einkaaðila við að veita þjónustu því aukist nokkuð frá þeim tíma.

„3. Hvernig er skiptingin annars staðar á Norðurlöndum og á Bretlandi?“

Ekki liggja fyrir skýrar upplýsingar um þennan þátt. Í þessum löndum er heilbrigðisþjónusta að stærstum hluta veitt af opinberum aðilum. Einkaaðilar hafa þó ákveðið en misstórt hlutverk í öllum löndunum. Virðist sem þáttur einkaaðila fari vaxandi, m.a. vegna reglna um frjálst val á þjónustu eftir ákveðnum hámarksbiðtíma t.d. í Danmörku. Dæmi er um stórt hlutverk sjálfseignarstofnana í Noregi. Þá eru sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn mikilvægur þáttur í heilbrigðiskerfi Norðurlandanna. Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja má draga þá ályktun að hlutur einkaaðila sé stór hér á landi miðað við samanburðarlönd þó að þær upplýsingar sem fyrir liggja nægi ekki til að leggja þar á samræmt tölulegt mat.

Virðulegi forseti. Ég vona að mér hafi tekist að svara á fullnægjandi hátt spurningum hv. þingmanns.