135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

skipting fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu.

364. mál
[15:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er rætt um samspil einkareksturs og opinbers reksturs í heilbrigðiskerfinu. Það er hv. sjálfstæðismaður formaður heilbrigðisnefndar, Ásta Möller, sem hefur málið og til svara er sjálfstæðismaðurinn hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson.

Þetta minnir pínulítið á leikrit sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa sett hér á fjalirnar og fyrsti þáttur hófst í upphafi þingfundar í dag þegar fulltrúi Samfylkingarinnar spurði hvað góða ríkisstjórnin ætlaði að gera fyrir öryrkja og aldraða og hæstv. forsætisráðherra sagði að það stæði ekki til að brjóta lög á þeim hópum.

Ég segi að þetta sé leikrit vegna þess að áhuginn hefur fyrst og fremst beinst að stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum og talsvert hefur verið um útúrsnúninga og rangtúlkanir að ræða af hálfu beggja þeirra sem hér hafa verið nefndir. Nú spyr ég hæstv. ráðherra hvenær hann vilji taka umræðu sem ég hef óskað eftir um útboð á heilli öldrunardeild (Forseti hringir.) á Landakoti. Það er væntanlega einkavæðing (Forseti hringir.) eða er það einkarekstur? Ég hef óskað eftir (Forseti hringir.) svörum frá hæstv. ráðherra og ég geri það bara hér með úr pontunni.