135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

skipting fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu.

364. mál
[15:06]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það sem skiptir öllu máli varðandi þær umræður sem hér fara fram og þær breytingar sem menn ætla sér að gera á heilbrigðiskerfinu er að það sé algjörlega tryggt og í gadda slegið að sjúklingar eða þeir sem þurfa á kerfinu að halda fái þá þjónustu óháð efnahag. Þar er grundvallarreglan og ég held að við séum öll sammála því.

Ég vísa svo til þess sem Deng Xiao Ping sagði einu sinni: Það skiptir ekki máli hvernig kötturinn er á litinn bara ef hann veiðir mýs. Ég er þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sem t.d. hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gerði hér að umræðuefni sé mjög til fyrirmyndar og hafi gengið mjög vel. Ég er algjörlega sammála henni um það að þar er ekki um einkavæðingu að ræða. Þetta eru grundvallaratriði sem ég held að við séum sammála um og ég og hæstv. heilbrigðisráðherra höfum rætt í þessum sölum.

Ég vil því taka það skýrt fram að ég lít svo á að t.d. það rekstrarform sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir (Forseti hringir.) var að ræða um það er ekki einkavæðing.