135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

skipting fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu.

364. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er athyglisverð fyrir ýmsar sakir og sérstaklega þykir mér athyglisverð viðkvæmni vinstri grænna. Þetta er greinilega mál sem fer fyrir brjóstið á þeim og það hlýtur að vera erfitt fyrir þá að hlusta á umræðuna í dag þar sem er verið að sýna fram á að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er að aukast.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar og það fer ekki hnífurinn á milli stjórnarflokkanna í þeim efnum, þetta stendur í stjórnarsáttmálanum og það er fullur stuðningur á báða bóga varðandi þessa stefnu. OECD hvetur okkur til þess að fara áfram þessa leið.

En jafnframt held ég að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir hv. þingmenn vinstri grænna að kannanir sem gerðar hafa verið sýna fram á það að gæði þjónustunnar eru ekki síðri (Gripið fram í.) og hagkvæmnin er ef eitthvað er betri. Það var m.a. staðfest af fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Það er alveg klárt að þetta er erfitt fyrir vinstri græna og ég tek undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að málið snýst um það að veita sem besta þjónustu. Málið snýst um það að fara vel með skattfé og málið snýst um það að jafnræði sé í aðgengi að þjónustunni. Um þetta snýst málið og það skiptir ekki máli hvort það eru einkaaðilar, sjálfseignarstofnanir eða ríkisstarfsmenn sem veita þjónustuna. (ÖJ: Jú, það skiptir máli.) (Gripið fram í.) Það skiptir nefnilega engu máli og meira að segja eru kannanir sem sýna það að ef eitthvað er þá geta einkaaðilar í ákveðnum tilvikum gert betur.

Aðalatriðið er líka það, því má bæta við, að það verði samkeppni um gæði milli stofnana þannig að einstaklingar, sjúklingar hafi ákveðið val og geti leitað til þeirra einstaklinga eða einkaaðila (Gripið fram í.) eða ríkis, (Forseti hringir.) þess sem veitir bestu þjónustuna.