135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

skipting fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu.

364. mál
[15:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mér kemur nokkuð á óvart þessi viðkvæmni gagnvart því að samflokksmenn eða hv. þingmenn sem eru saman í ríkisstjórn spyrji ráðherra. Eru menn í fullri alvöru að fara fram á það að þingmenn stjórnarliðsins megi ekki spyrja hæstv. ráðherra? Er það það sem menn eru í fullri alvöru að tala um? (ÖJ: Við vorum að tala um leikhús.) Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur áhuga á leikhúsi og það er bara vel. Það er gott að menn séu áhugamenn um menningu en það kemur þessari umræðu nákvæmlega ekkert við. En hv. þingmann langar í ræðustól.

Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, það skiptir afskaplega miklu máli að vanda til verka. Þess vegna er verið að styrkja kaupendahlutverk hins opinbera. Það er stefna ríkisstjórnarinnar. Það er til lítils að vera að karpa um þessa hluti ef staðreyndirnar liggja ekki fyrir. Öll þessi vinna um kostnaðargreiningu og aðra slíka þætti gengur út á það að kaupandinn sem er að kaupa fyrir hinn þriðja aðila — þ.e. fyrir þjóðina þannig að hún geti gengið að þessari þjónustu óháð efnahag — geti tekið sem bestar ákvarðanir um hvernig og hvað er valið. Svo einfalt er það og það er það sem öll þessi vinna gengur út á.

Það þýðir ekkert, virðulegi forseti, að pirra sig yfir því að þær stofnanir sem hafa veitt þjónustu svo áratugum skiptir flokkist undir einkarekstur. Það þýðir ekkert að pirra sig yfir því. Það þýðir ekkert að pirra sig yfir því að Grund og Hrafnista séu flokkaðar undir einkarekstur. Það bara þýðir nákvæmlega ekki neitt. (ÁI: Það verður að gera greinarmun á Grund og Hrafnistu.) Það er nákvæmlega eins og þegar verið er að tala um einkaskóla, vísa í einkaskóla úti í heimi, (Gripið fram í.) flestir þessir skólar, virðulegi forseti, eru sjálfseignarstofnanir.

Aðalatriðið er þetta: Við höfum alltaf takmarkaða fjármuni til umráða og við þurfum að sjá til þess að fólk fái eins góða þjónustu og mögulegt er. Það er markmiðið með allri okkar vinnu.