135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kostnaðarþátttaka ríkis vegna fæðinga.

391. mál
[15:18]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það má segja að orðið hafi öfugþróun hvað varðar möguleika kvenna til að fæða í heimabyggð eða nærliggjandi sjúkrahúsum, eins og verið hefur í gegnum langan tíma. Mæðraeftirlit þarf að vera mjög gott til að geta lesið alla þá áhættuþætti sem geta komið upp á við fæðingu. Tvær til þrjár ljósmæður þurfa að vera búsettar og í vinnu á viðkomandi stað til að geta sinnt fæðingum svo að sé hægt sé að hafa bakvaktir og vaktir þannig að þær kikni ekki undan álagi. Læknar eru orðnir nokkuð óvanir að taka á móti börnum við aðstæður eins og eru úti á landi.

Þessari þróun þarf að snúa við mjög skipulega með því að mennta fleiri ljósmæður og lækna til þess að sinna þessu hlutverki þar til það getur orðið. Það verður að sinna fjölskyldunum betur og koma til móts við þann mikla dvalarkostnað sem hlýst af dvöl, ekki bara móður heldur oft (Forseti hringir.) fjölskyldu, fjarri lögheimili.