135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kostnaðarþátttaka ríkis vegna fæðinga.

391. mál
[15:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör um hvað áætla megi að margar mæður hafi þurft að nálgast fæðingarþjónustu utan sveitarfélags síns. Það segir okkur, hafi ég lesið rétt út úr þessum svörum, að um 400 fjölskyldur hafa þurft að sækja þjónustu utan heimabyggðar. Ef við tökum þessar tölur, að þetta séu 500 fjölskyldur og 85 af þeim með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu sem gátu þar af leiðandi sótt þjónustuna þangað, er um að ræða um 400 fjölskyldur sem hafa þurft að sækja fæðingarþjónustu utan sveitarfélags síns.

Það má leiða að því líkur að verulegur kostnaður skapist aukalega hjá nokkuð hundruð fjölskyldum á Íslandi í dag sem aðrar fjölskyldur þurfa ekki að bera vegna þess að fæðingardeildum er lokað, oft og tíðum af mjög eðlilegum ástæðum. Svör ráðherra valda mér því ákveðnum vonbrigðum, að hann hyggist ekki að svo komnu máli taka það upp að bæta kjör þeirra fjölskyldna sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu út fyrir sveitarfélag sitt og dvelja þar, hugsanlega allt að mánuði, fjarri heimaslóðum með tilheyrandi kostnaði.

Hér er um réttlætismál að ræða, um hvar fólk velur að búa. Að sjálfsögðu kemur heilbrigðisþjónusta þar inn í og sá kostnaður sem felst í að ná sér í fæðingarhjálp og þjónustu. Mér finnst miður ef hæstv. ráðherra vill ekki beita sér fyrir því að komið verði til móts við 300–400 fjölskyldur sem sannarlega þurfa að bera mikinn kostnað af því að sækja þjónustu fjarri heimabyggð. Það eru ekki góð tíðindi fyrir þau (Forseti hringir.) byggðarlög sem hafa ekki upp á fæðingarþjónustu að bjóða (Forseti hringir.) því fólk horfir að sjálfsögðu til þessa kostnaðar eins og annars þegar það velur sér búsetu.