135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

gjaldtaka tannlækna.

419. mál
[15:28]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. alþingismaður Árni Johnsen hefur beint til mín eftirfarandi spurningum:

1. Hvernig er háttað gjaldtöku tannlækna fyrir þjónustu sem Tryggingastofnun tekur þátt í og hvað er um miklar fjárhæðir að ræða á ári.

Því er til að svara, virðulegi forseti, að gjaldskrá tannlækna er frjáls. Heilbrigðisráðherra setur viðmiðunargjaldskrá vegna endurgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins til tryggðra sjúklinga. Sé gjaldskrá tiltekins tannlæknis hærri en gjaldskrá ráðherra greiðir einstaklingurinn mismuninn. Tryggingastofnun ríkisins endurgreiddi samtals 1.249 millj. kr. vegna tannlæknakostnaðar árið 2006. Samkvæmt þeim reikningum sem komnir eru inn fyrir árið 2007 greiddi Tryggingastofnun ríkisins 1.273 millj. árið 2007 vegna tannlæknakostnaðar.

2. Er allt að 140% munur á gjaldskrá tannlækna samkvæmt reikningum til Tryggingastofnunar?

Samkvæmt samanburðarverðlagningu tannlækninga og gjaldskrár ráðherra sem Tryggingastofnun ríkisins gerði árið 2006 var gjaldskrá almennra tannlækna að meðaltali rúm 43% yfir gjaldskrá ráðherra. Tvö tilvik fundust þar sem fram kom að gjaldskrá tannlæknis var meira en 100% yfir ráðherragjaldskrá. Þeir tveir tannlæknar sem efstir voru í samanburðinum árið 2006 voru 138,5% og 121,8% yfir gjaldskrá ráðherra árið 2007, samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins. Að meðaltali var verð almennra tannlækna 43% hærra en gjaldskrá ráðherra samkvæmt greiddum reikningum árið 2007.

3. Er unnið að því að fá þessa þjónustu á samningsverði fyrir Tryggingastofnun?

Því er til að svara, virðulegi forseti, að á þessari stundu eru engar formlegar samningaviðræður í gangi. Allir hlutaðeigandi aðilar eru meðvitaðir um mikilvægi þess að ná samningum. En eins og hv. þingmaður veit þá er það oft hægara sagt en gert. Það þarf eðli málsins samkvæmt báða aðila til að ljúka samningum svo vel fari.

4. Telur ráðherra eðlilegt að fólk þurfi að leita tilboða hjá tannlæknum vegna mikils munar á gjaldskrám þeirra?

Samkvæmt úrskurði Samkeppnisstofnunar á verðlagning tannlækna að vera frjáls og lýtur hún því öllum þeim lögmálum markaðarins sem við eiga. Samkvæmt tilmælum Samkeppnisstofnunar á gjaldskrá tannlækna að vera sýnileg til að auðvelda samanburð. Tannlæknum er skylt að gefa kostnaðaráætlun ef áætlað er að kostnaður muni fara yfir 100 þús. kr. Tannlæknar gefa einnig kostnaðaráætlun ef um það er beðið þó upphæðin sé minni.

Neytendasamtökin hafa gert könnun á verðlagningu tannlækninga og er hægt að gera samanburð á heimasíðu samtakanna. Í könnun þeirra kom fram að verulegur verðmunur er á milli tannlækna, þ.e. allt að þrefaldur verðmunur á einstaka aðgerðarliðum. Það er því ljóst að það er neytendum í hag að gera verðsamanburð á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessi svör veiti þær upplýsingar sem eftir var leitað.