135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

gjaldtaka tannlækna.

419. mál
[15:31]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Að mínu mati er löngu tímabært að ganga til samninga við tannlækna. Heildarsamningur hefur ekki verið í gildi við þá í um það bil 10 ár og mismunurinn á milli gjaldskrár ráðherra og gjaldskrár tannlækna hefur aukist á síðustu árum. Hann var 25% 2004 en er nú orðinn 43% að meðaltali og fólk greiðir æ stærri hluta af tannlæknareikningum sínum. Rannsóknir hafa sýnt að tekjulægsta fólkið dregur það að fara til tannlæknis sem þýðir að tannheilsa barna sem eiga foreldra í tekjulægstu hópunum er verri en ella.

Milli áranna 1990–1998 lækkuðu framlög hins opinbera til tannlæknaþjónustu á föstu verðlagi um u.þ.b. 50%. Frá 1998–2006 stóðu framlög ríkisins til tannlæknaþjónustu í stað á föstu verðlagi, voru um 1.300 millj. kr. árið 2006 og voru það sama 1998 framreiknuð á föstu verðlagi ársins 2006.

Ég endurtek að ég tel mjög brýnt að ganga til samninga við tannlækna. Það er svigrúm til þess og ég tel að virða verði vísbendingar um verri tannheilsu.