135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

gjaldtaka tannlækna.

419. mál
[15:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka svör hæstv. heilbrigðisráðherra og þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það skiptir miklu máli að hafa stefnu á markið og keyra á það. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að bæta úr varðandi forvarnir í tannheilsu með auknum niðurgreiðslum vegna barna og annarra í þjóðfélaginu og einnig gjaldfrjálsu eftirliti sem er frí tannþjónusta fyrir ákveðna aðila, börn, eldri borgara og öryrkja. Þessu þarf að fylgja eftir, það skiptir miklu máli.

Aukinn munur er á gjaldskrá ráðherra og tannlækna. Auknar álögur eru á almenning með því móti. Efnaminna fólk leitar minna til tannlækna en gerst hefur og það þýðir versnandi tannheilsu þjóðarinnar. Við því þarf að bregðast og þess vegna er mjög æskilegt að heyra álit hæstv. heilbrigðisráðherra á banni við því að tannlæknar auglýsi þjónustu sína. Meðan ekki nást samningar við tannlækna — það hlýtur að vera meginkappsmál að ná sanngjörnum og skynsamlegum samningum við þá — hlýtur að vera nauðsynlegt og eðlilegt að tannlæknar með mismunandi gjaldskrá geti kynnt fyrir fólki þá möguleika sem það hefur til að nýta þjónustuna á sem hagkvæmastan hátt fyrir sig og sína. Það er því mikilvægt, eins og hér hefur komið fram, að menn leggi mat á þetta og taki stefnuna út frá því. Ég vil hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að taka á í þessum málum og skila árangri.