135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

tæknifrjóvganir.

433. mál
[15:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs með fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um tæknifrjóvganir en það hefur verið gefið út og stendur á heimasíðu ráðuneytisins að til standi að endurskoða reglugerð um tæknifrjóvgun og meðal þess sem á að endurskoða eða meta er það hvort heimila eigi einhleypum konum þann möguleika að gangast undir tæknifrjóvgun.

Hæstv. ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson hefur sagt frá því að ráðuneytinu hafi borist tilmæli frá ýmsum aðilum um að einhleypum konum verði þetta kleift, en eins og fólki er kunnugt um er málum þannig háttað eða fyrir komið núna að einungis konur í hjúskap, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð hafa tök á því að sækja um að gangast undir tæknifrjóvgun samkvæmt núgildandi reglum. Hæstv. ráðherra hefur líka sagt frá því að hann hafi skipað nefnd til að fara yfir lögin og hann hefur sagt frá því í umræðum á Alþingi að það sé vilji hans að einhleypum konum eigi að vera heimilt að fara í tæknifrjóvgun. Sömuleiðis hefur heilbrigðisnefnd Alþingis lýst yfir vilja til þess að það verði skoðað hvort ekki eigi að rýmka reglurnar á þann hátt að einhleypum konum verði gert þetta kleift.

Það kemur fram í fjölmiðlum í umfjöllun um þessi málað einhleypar konur hafi farið í einhverjum mæli til útlanda til að fá tæknifrjóvgun, til að gangast undir þessa aðgerð sem heimil er a.m.k. í einhverjum nágrannalanda okkar. Þannig mun vera t.d. háttað í Danmörku að dönsku lögin heimila einhleypum konum tæknifrjóvganir. Raunar munu einhver takmörk vera á því á öðrum Norðurlöndum eins og t.d. í Noregi. Þeir aðilar sem sjá um tæknifrjóvganir hér á landi og tóku við hinni einkavæddu deild Landspítala – háskólasjúkrahúss sem annaðist tæknifrjóvganir, þ.e. Art Medica, hafa sagt frá því í fjölmiðlum að fjöldi einhleypra kvenna leiti til þeirra á hverju ári og þetta sé vandamál í hópi þessara kvenna þar sem konur hafa kannski beðið í mörg ár og einhverjar þeirra að nálgast þann aldur að ekki verði hægt að gera þessa aðgerð. (Gripið fram í.) Þess vegna finnum við fyrir því að það er þrýst mjög á um niðurstöðu í þessu máli.

Ég hef því lagt þá fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra, hvað líði störfum þeirrar nefndar sem hann skipaði í október og fól að endurskoða reglugerð um tæknifrjóvganir og sömuleiðis hvað líði undirbúningi þess að heimila einhleypum konum að gangast undir tæknifrjóvgun.