135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hinn 26. febrúar sl. birtist auglýsing í Morgunblaðinu á bls. 32 um útvistun á rekstri hjúkrunardeildar Landspítala. Heil deild á Landspítalanum skyldi boðin út. Ekki var gefinn langur frestur, aðeins til 11. mars, rúmur hálfur mánuður. Sjónvarpið hafði samband við mig daginn eftir spurði mig álits á þessu en auglýsingin hafði farið fram hjá mér. Ég gagnrýndi þessa ráðstöfun. Þau ummæli voru borin undir hæstv. heilbrigðisráðherra sem sagði að ég væri að reyna að gera hluti tortryggilega þegar ég talaði um að hér væri um einkavæðingu að ræða á mikilvægri starfsemi innan heilbrigðisþjónustunnar.

Ég óskaði eftir umræðu utan dagskrár um þetta mikilvæga mál. Ég ítrekaði þá ósk gagnvart hæstv. heilbrigðisráðherra í tölvuskeyti 3. mars sl. Hæstv. forseti. Ekki hefur staðið á stjórn þingsins að veita heimild fyrir þessari umræðu en í gær, á næstsíðasta degi þingsins áður en það gerir hlé á störfum sínum fyrir páska, óskaði ég eftir því formlega við hæstv. heilbrigðisráðherra að við tækjum þessa umræðu nú og ekki síst með það í huga að hæstv. ráðherra verður á þinginu í dag. Því neitaði hæstv. ráðherra. Ég spyr: Hvað veldur því að hæstv. ráðherra neitar því að taka þessa umræðu? Treystir hann sér ekki til þess? Eigum við þess í stað aðeins að hlusta á sjónarspil eins og við urðum vitni að í gær þegar formaður heilbrigðisnefndar, (Forseti hringir.) sjálfstæðismaður, átti viðræður við hæstv. heilbrigðisráðherra um ágæti einkavæðingar þar sem þeir dásömuðu slíkt? Hvers vegna þorir ríkisstjórnin ekki að taka umræðu um þessi mikilvægu mál?