135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:40]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég sem formaður heilbrigðisnefndar áskil mér fullan rétt og sama rétt og aðrir þingmenn til að ræða við heilbrigðisráðherra á hinu háa Alþingi. Ég hef ekki gefið það frá mér með því að taka að mér að vera formaður heilbrigðisnefndar þannig að ég mun gera það hér eftir sem hingað til.

Annað sem ég vildi nefna er að heilbrigðisráðherra mælir fyrir þremur málum hér í dag. Þar að auki verða tvö mál til viðbótar sem verið er að afgreiða úr nefnd frá heilbrigðisráðherra. Annars vegar varðandi geislavarnir og hins vegar stofnfrumurannsóknir þannig að það er ekki hægt að tala um verkefnaleysi innan heilbrigðisnefndar

Varðandi Landakot vil ég segja að stjórnendur Landspítala standa frammi fyrir því að loka þurfi 20 rýmum vegna manneklu og þeir lokuðu nú í dag. Á sama tíma eru milli 50 og 70 aldraðir einstaklingar inniliggjandi á sjúkrahúsinu í bið eftir að komast á hjúkrunarheimili. Það þýðir að spítalinn getur ekki tekið inn bráðasjúklinga með sama hætti og þeir gætu annars. Með því að leita útboða í rekstur 20 rúma deildar á Landakoti er verið að auka þjónustuna og koma til móts við þarfir aldraðra, bæði sem eru á sjúkrahúsinu og úti í bæ og bíða eftir að komast í hjúkrunarrými. Jafnframt er verið að bæta aðgengi að bráðaþjónustu spítalans. (Gripið fram í.) Það vill til að samkvæmt upplýsingum mínum er sá aðili sem var með lægsta útboðið hjúkrunarheimilið Grund. Hann hefur svigrúm núna. Hann er að fækka rýmum hjá sér vegna tímabundinna breytinga hjá stofnuninni þannig að það er laust starfsfólk hjá þeim. (Gripið fram í.) Ég vil biðja hv. þingmenn Vinstri grænna um að láta ekki fordóma varðandi rekstrarform koma í veg fyrir að aldraðir einstaklingar úti í bæ og innan spítalans fái þá þjónustu sem þeir þurfa. (Gripið fram í.)