135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:42]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Valdataka Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisráðuneytinu í umboði Samfylkingarinnar er auðvitað grafalvarlegt mál vegna þess hvernig hæstv. ráðherra fer með vald sitt. (Gripið fram í.) Það skiptir verulegu máli (Gripið fram í.) að fá að ræða þessa hluti við hæstv. ráðherra á Alþingi Íslendinga. Hins vegar vil ég benda hæstv. forseta á að það er ekki á forsendum ráðherranna sem þessar umræður utan dagskrár eru hugsaðar. Þær eru hugsaðar á forsendum þingmanna og það eru þingmenn sem ákveða hvort þeir vilji fara í umræðu við ráðherrana en ekki ráðherrarnir hvort þeir vilji koma hér og svara. Það er þannig í 50. gr. þingskapalaga sem ég tel ástæðu til að lesa upp fyrir þingheim og hæstv. forseta sem segir að í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma geti þingmenn tekið fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveimur klukkustundum áður en þingfundur hefst. Í upphafi þingfundar skal forseti svo tilkynna hvaða mál fyrirhugað er að taka til umræðu utan dagskrár.

Það er algerlega dagljóst af orðanna hljóðan að forseta er gert það í þessum þingsköpum að koma umræðum utan dagskrár samstundis á dagskrá, sama dag og óskin um þær er lögð fram. Þær, átta talsins eins og hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins getur um hér, eiga ekki að velta sér á einhverjum listum, jafnvel mánuðum saman. Það á ekki að vera með þessum hætti sem þinginu er stjórnað. Þingmenn hafa rétt á því samkvæmt lögum að fá tekin fyrir þau mál sem þeir vilja ræða þegar þeir vilja ræða þau en ekki þegar ráðherrunum þóknast að láta svo lítið sem að koma hingað.