135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:54]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Niðurstaða umræddrar skýrslu sýnir að vænt arðsemi eiginfjár er 13,4% í stað þess sem upphaflega var gert ráð fyrir, sem var 11,9%. Það er mjög góð niðurstaða og miklu betri en menn áttu von á, sem helgast fyrst og fremst af því að álverð hefur hækkað umtalsvert og mikið meira en menn gerðu ráð fyrir. Gert var ráð fyrir því í upphaflegum forsendum að álverð mundi lækka frá þeim 1.500 dollurum sem það var í á þeim tíma, sem var náttúrlega dálítið undarleg forsenda þar sem álverð hlýtur að fylgja orkuverði og orkuverð hlýtur að hækka þar sem menn gera sífellt meiri kröfur um minni koldíoxíðlosun. Ég get ekki séð annað en að orkuverð muni halda áfram að hækka Íslendingum til hagsbóta á þessu sviði. Arðsemi þessarar framkvæmdar er því mjög mikil.

Svo má ekki gleyma því sem kom fram í svari hæstv. umhverfisráðherra, að þessi virkjun sparar mannkyninu svo mikla koldíoxíðlosun að það svarar til sexfalds útblásturs af allri umferð á Íslandi. Sexfalds útblástur af allri umferð á Íslandi sem sparast með einni virkjun. Umræðan hér á hinu háa Alþingi um arðsemi og annað slíkt væri ekki til staðar ef fyrirtækið yrði einkavætt. Ég held að menn ættu að stefna að því til þess að losna við öll þau vandræði sem menn glíma þar við.

Svo má ekki gleyma því, sem mér heyrist vinstri grænir gera, að það er verið að stofna nýtt álver sem mun spara mannkyninu meiri útblástur á koldíoxíði. En á meðan ræða vinstri grænir um heilbrigðisþjónustu og kræklingarækt.