135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:58]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Málið sem ég vil vekja aðeins til umræðu er sú greinilega stefna ríkisstjórnarinnar að flytja helst öll opinber störf á suðvesturhornið, nú síðast að gengið hefur verið frá ráðningu á framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs. Vatnajökulsþjóðgarður er mikilsvert framtak sem þjóðin hefur bundið miklar vonir við og getur haft mikið gildi fyrir uppbyggingu byggðar á svæði þar sem hagvöxtur í landinu er hvað minnstur. Sveitarfélögin þar í kring hafa lagt gríðarlega mikið til þessarar uppbyggingar. Þess vegna er komið aftan að byggðasjónarmiðum og í raun þingheimi öllum, þeim vilja sem komið hefur fram í fjárveitingum til þessa brýna verkefnis, þegar höfuðstöðvar þess eru settar niður í Reykjavík.

Það er svo sem eftir öðru hjá ríkisstjórninni að undanförnu. Við höfum frétt að störf eru flutt skipulega frá Borgarnesi, Akureyri og Egilsstöðum á suðvesturhornið meðan loforð hæstv. byggðamálaráðherra um tilflutning starfa á Vestfirði rykfalla. Ekkert hefur frést af þeim síðan hann gaf um það yfirlýsingar. Það er ekki einu sinni hægt að lesa um það lengur á næturblogginu hans.

Hið raunalega við þetta er að þetta er á skjön við afskaplega gott hugtak sem Samfylkingin varpaði fram. Ég kalla eftir því hvort einhver hafi áhuga á því lengur að verja þá hugmynd sem kom fram hjá Samfylkingunni á síðasta kjörtímabili að búa til störf án staðsetningar. Störf án staðsetningar áttu að gefa möguleika á að flytja störf út á land frá stofnunum. En það er greinilegt að þetta hugtak verður notað og er þegar notað. Þetta er fyrsta starfið sem stofnað er til út frá þessu hugtaki og það er beinlínis notað til að flytja starf sem á heima á landsbyggðinni á Reykjavíkursvæðið.

Eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir benti á í þingræðu er með auglýsingunni, sem birt var núna í haust, (Forseti hringir.) gengið þvert á loforð sem gefin voru í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um málið.