135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[11:03]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. Bjarni Harðarson ræði um byggðamál og flutning starfa út á land. Það er afar brýnt mál sem við þurfum að ræða í þinginu og fylgja vel eftir. Ég þekki ekki til mála varðandi Vatnajökulsþjóðgarð, hvort starfið verði staðsett í Reykjavík. Ég ætla að vona að svo sé ekki. (Gripið fram í: Það er staðfest.) Við fáum þá væntanlega nánari upplýsingar um það. Ég hafði aftur á móti hugsað mér að ræða Fasteignamat ríkisins og fleira. Ég tel fulla ástæðu til að ræða það við ríkisstjórnina að tekin verði upp vöktun á opinberar stofnanir hvað varðar staðsetningu starfa. Það þurfi bara sérheimild … (Gripið fram í: ... ráðherra.) Já, ég er að tala um það. Ég er að tala um að vakta stjórnina og stofnanir þannig að sérstakar heimildir þurfi til að færa störf inn á höfuðborgarsvæðið.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að við stöndum vaktina ekki nógu vel, það skapast alltaf tvö störf á höfuðborgarsvæðinu á móti hverju einu. (Gripið fram í.) Við höfum búið við þessa þróun í mörg ár, hvaða flokkar sem eru í ríkisstjórn. Ef við skoðum lagarammann varðandi stóriðjuna þá höfum við verið að reyna að ná vopnum okkar og ná einhverjum tökum á þeim málum. Hver skildi við þau mál eins og þau eru?

Það er kominn tími til að Framsókn fari að horfast í augu við hvernig málin voru í staðinn fyrir að lesa endalaust samfylkingarstefnuyfirlýsingarnar sem eru þó mjög góðar. (Gripið fram í.) Við skulum passa þær. Farið þið og passið ykkar stefnu sem skilið var við og skoðið þið lagarammann varðandi Helguvík og skoðið yfirlýsingar Samfylkingarinnar hvaða forgangsröðun við hefðum viljað sjá og hvaða lögum við getum beitt. Við verðum að stöðva það með lagaboði og með tilheyrandi skaðabótum ef við ætlum að gera það. (Gripið fram í: … sögðuð fyrir kosningar.) Við sögðum nákvæmlega það að við mundum ekki ganga gegn því sem samþykkt hefði verið.

Við höfum haldið þann trúnað við stofnanir, þar á meðal Framsóknarflokkinn, að vera ekki að henda samþykktum þeirra þegar við komum í ríkisstjórn þó að margar þeirra hafi verið arfavitlausar.