135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi hina undarlegu ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndal um aðstoðarmenn mína þá get ég sýnt þingheimi ræðu mína frá því áðan. Ég hef tileinkað mér sæmilega vel efni þessa frumvarps, sett mig inn í málið í starfi nefndarinnar og hef gert það mörg undanfarin ár. Mér finnst hér á ferðinni mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir öryrkja og aldraða sem ég tel eiga að vera í brennidepli hjá félagslega sinnuðum stjórnmálaflokki.

Varðandi þær skýrslur sem hv. þingmaður vísaði í að hafi verið unnar fyrir mig þá vísaði ég til álitsgerðar sem félagsmálanefnd fékk í hendur og ég fékk um leið og hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hún liggur í möppu hans ef hann gefur sér einhverjar mínútur til að líta í þá greinargerð, sem er ágætlega unnin.

Það er rétt að einstakling sem hefur litlar tekjur munar um 8 þús. kr. Þann einstakling munar hins vegar meira um 25 þús. kr. ef hægt væri að auka framlagið. Ég held að við eigum að fara svolítið varlega í að binda okkur einvörðungu í hugmyndafræðilega nálgun við uppbyggingu kerfisins. Það þarf þó vissulega að gera það. Það þarf að horfa á þessi mál til framtíðar, hvernig samspilið á að vera milli launatekna, milli greiðslna úr lífeyrissjóðum og síðan almannatrygginga. Ég ætla ekki að gera lítið úr því.

En ég vil engu að síður vekja athygli á því að enn sem komið er erum við almennt, fyrir þorra launafólks, að tala um lágar tekjur. Við erum að tala um (Forseti hringir.) lágar tekjur sem fólk hefur til framfærslu og engan veginn nægar. (Forseti hringir.) Þess vegna er ekki kominn tími til að setja skurðpunktinn þar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vill setja hann.