135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:35]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég las að sjálfsögðu umsögn BSRB. Mér skildist á hv. þingmanni að þetta væri sérstök skýrsla um þessi mál en þá hef ég misskilið það í ræðu hv. þingmanns.

Varðandi 25 þús. kr. þá verður að hafa í huga að við höfum ekki endalaust peninga. Það er vitað. Það sem er kannski verra er að við þurfum að gæta að því að framtíðin þarf ekki endilega að vera björt og með eins miklu góðæri og verið hefur. Þá þurfa menn að vera undir það búnir að eiga fyrir þeim útgjöldum sem menn eru að leggja á þjóðina. Þessar 25 þús. kr. eftir skerðingar eru tiltölulega ódýr aðgerð en koma mjög mörgum til góða.

Samkvæmt könnun eða útkeyrslu sem ég fékk frá skattstjóra þá voru um 10 þúsund manns á aldrinum 70 og upp úr með minna en 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Þar af voru fimm þúsund ekki með neitt úr lífeyrissjóði. Þetta var árið 2005 og hefur örugglega breyst síðan. Því er umtalsverður hópur fólks sem munar mikið um þessar 8 þús. kr. sem menn fá að lágmarki. Hjón fá meira. Þau fá 12 þús. kr. og það munar dálítið um það.

En ég held að það sé mjög brýnt að menn horfi líka á þennan hóp sem verst er settur. Því miður hefur hann þurft að bíða eftir því að lausn verði fundin milli ráðuneyta og hjá fjármálaráðuneytinu til að hann fái úrlausn sinna mála. En ég vænti þess að það gerist sem allra fyrst.