135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:48]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar við 2. umr. eftir að málið hefur fengið ágæta umfjöllun í félags- og tryggingamálanefnd. Hér er verið að kveða á um tekjubætur eða auknar tekjur til handa öldruðum og öryrkjum sem er vel, enda var það svo í aðdraganda síðustu kosninga að það var sama hvaða stefnuskrá var lesin hjá hvaða stjórnmálaflokki sem var að málefni aldraðra og öryrkja voru þar mjög framarlega á forgangslistanum líkt og hjá okkur framsóknarmönnum.

Það var mjög athyglisverð umræða sem fór fram áðan á milli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og þingmanna Sjálfstæðisflokksins um málefni aldraðra og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það er alveg rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á að útgjaldaþenslan í utanríkisþjónustunni er náttúrlega með ólíkindum á milli ára, 20–25%, á meðan hlutfallslega minni fjárhæðir fara til annarra málaflokka og er það á skjön við málflutning Samfylkingarinnar í aðdraganda síðustu kosninga. En við erum að ræða hér um kjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum sem ég fagna sérstaklega enda er ég einn af þeim sem skrifa án fyrirvara undir nefndarálit um það frumvarp sem við ræðum hér.

Helstu efnisbreytingar á frumvarpinu eru þær að skerðing tryggingabóta vegna tekna maka verður afnumin frá og með 1. apríl árið 2008. Ég held að hér sé um að ræða mál sem muni koma mörgum fjölskyldum vel, þ.e. sambúðarfólki, því að það verður að viðurkennast að í raun og veru hafa skerðingarmörkin verið allt of brött og margt sambúðarfólk hefur lent illilega í þeim skerðingum. Síðan má deila um hvort einhver takmörk eigi að vera á því en ég skrifa undir þetta frumvarp og styð það að þessar tekjutengingar á milli maka verði afnumdar.

Ég fagna því líka að sérstaklega verði gripið til aðgerða til að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta frá og með 1. apríl næstkomandi og að 90 þúsund kr. frítekjumark verði sett á fjármagnstekjur þannig að aldraðir sem eiga eitthvert örlítið sparifé lendi ekki í því að lífeyrir þeirra sé skertur sem raun ber vitni. Við stjórnmálamenn höfum auðvitað fundið fyrir því á umliðnum árum að kröfur sem Tryggingastofnun ríkisins hefur verið að koma með eftir á vegna vanreiknaðra tekna hafa komið illþyrmilega í bakið á mörgum öldruðum og ég fagna því sérstaklega að þeim málum verði kippt í liðinn með þessum hætti, enda var þetta eins og ég sagði áðan eitt af stefnumiðum allra stjórnmálaflokka í aðdraganda síðustu kosninga og allir flokkarnir standa einhuga að þessum breytingum þó að að sjálfsögðu megi alltaf gera betur. Mun ég fara aðeins betur yfir það á eftir hvað ég hefði viljað sjá öðruvísi í þessum málaflokki.

Fram kemur að vasapeningar vistmanna á stofnunum verði hækkaðir um tæp 30% frá og með 1. apríl næstkomandi. Mig langar að ræða aðeins um hugtakið vistmaður sem mér finnst ekki orðið eiga við því að margt af því fólki sem leggst til langdvalar inn á hjúkrunarheimili er í raun og veru ekki vistmenn heldur íbúar þar og dvelur þar jafnvel það sem eftir er ævinnar. Ég tel að breyta þurfi orðalaginu í lögunum í dag því að velflestir sem leggjast inn á hjúkrunarheimili eru þar í dágóðan tíma. Það er líka annað sem mér finnst þurfa að ræða hér og það eru réttindi þess fólks sem leggst til langdvalar inn á hjúkrunarheimili en nær allar lífeyristekjur viðkomandi aðila eru teknar af þeim. Ég held að þetta samræmist ekki alveg því andrúmi sem ríkir í dag og ég hef heyrt í mörgum sem kalla eftir því að við hugum að breytingum hvað þessi mál áhrærir, að allur lífeyrir þessa hóps skuli vera tekinn af honum en síðan er honum rétt einhver lítil upphæð sem nefnist vasapeningar. Við þurfum að taka þessi mál til endurskoðunar því að þetta á að heyra fortíðinni til og af því að ég átti í samræðum við hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra í gær um umboðsmann aldraðra hefði ég haldið að þetta væri eitt af þeim málum sem umboðsmaður aldraðra gæti beitt sér harkalega fyrir. Ég held að hér sé um virkilega mikið réttindamál að ræða fyrir einstaklinga sem eru inni á þessum stofnunum og maður finnur að mörgum svíður það verulega hvernig komið er fram við þennan hóp og ég held að finna megi fólk í öllum stjórnmálaflokkum sem er sammála því að breyta þurfi því fyrirkomulagi sem er í dag sem ég tel að tilheyri fortíðinni.

Síðan er rætt um að skerðingarhlutfall ellilífeyris verði lækkað úr 30 í 25% frá og með næstu mánaðamótum. Í raun og veru er þá búið að telja upp þær breytingar sem munu eiga sér stað um næstu mánaðamót. Þetta á að taka gildi í áföngum, þann 1. júlí nk. á frítekjumark atvinnutekna lífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára að hækka í 100 þús. kr. á mánuði.

Þá erum við komin að þeirri umræðu sem við háðum á síðasta sumarþingi, af hverju í ósköpunum er verið að skipta öldruðum í tvo hópa, annars vegar 67–70 ára sem mega vinna fyrir tekjum upp að ákveðnu marki áður en lífeyristekjur þeirra skerðast og hins vegar 70 ára og eldri sem mega vinna út í hið óendanlega? Hver eru rökin á bak við þessa hugmyndafræði? Af því að mér segir svo hugur um, í ljósi þess að það verður meiri hvati fyrir fólk á aldrinum 67–70 ára til að hætta að vinna, að hið opinbera verði að verulegu leyti af gríðarlega miklum skatttekjum, tekjum í ríkissjóð, með því að þetta fólk hverfi af vinnumarkaðnum. Við skulum líka hafa það í huga að eldra fólk í dag, 67 ára gamalt fólk, er í raun og veru kannski ekki svo gamalt fólk. Margir eru við mjög góða heilsu og mér finnst mikilvægt að við nýtum krafta þessara einstaklinga án þess að vera með aðgerðir til að hvetja fólk til að fara út af vinnumarkaðnum. Ég hefði viljað sjá að það sama gilti um alla eldri borgara, að þeir megi stunda vinnu án þessara skerðinga en ekki að þessum hópi sé skipt í tvennt eins og raun ber vitni, því að ég sé ekki fyrir mér að 67 ára gamall einstaklingur sem fer út af vinnumarkaði komi endilega inn á hann aftur þegar hann verður sjötugur. Fólk er komið í ákveðna fjarlægð í þeim málum. Ég efa það stórlega, ef við horfum heildstætt á þetta, að það sé einhver sérstök búbót fyrir ríkissjóð að hafa málin með þessum hætti. Ég hefði jafnvel viljað fá einhverja hagfræðinga eða stærðfræðinga til að fara yfir það reikningsdæmi hvað væri í raun og veru þjóðhagslega hagkvæmt í þessum efnum.

Ég fagna því líka sérstaklega að sett verði sérstakt 300 þús. kr. frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur örorkulífeyrisþega frá og með 1. júlí 2008. Ég vona svo sannarlega að þessi réttarbót komi til öryrkja á þessum tíma. Hins vegar kom það fram á fundi í félagsmálanefnd á dögunum, sem veldur mér miklum áhyggjum, að örorkumatsnefndin sem skipuð var til að móta tillögur til að bæta kjör öryrkja hefur því miður ekki hist frá áramótum. Ef verið er að tala um að innleiða eigi einhverjar breytingar á kjörum öryrkja 1. júlí nk. þá er eins gott að sú nefnd fari af stað því að nú er kominn mars og það á að innleiða þetta 1. júlí á þessu ári. Það er mjög mikið áhyggjuefni að nefndin skuli ekki hafa komið saman frá áramótum — hún hefur þá bara komið mjög nýlega saman á einhverjum allra síðustu dögum en mér er ekki kunnugt um það — það er mikið áhyggjuefni. Ég hvet alla ráðamenn til að stuðla að því að nefndin komi saman og haldi áfram sínu ágæta starfi því að hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir öryrkja.

Þá kem ég að því sem hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Pétur H. Blöndal ræddu áðan, um 25 þús. kr. greiðslu til þeirra einstaklinga sem hafa í raun og veru í engan lífeyrissjóð að venda. Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi að á árinu 2005 hafi um 5.000 einstaklingar ekki haft í neinn lífeyrissjóð að venda, höfðu engar tekjur úr lífeyrissjóðum. Hv. þingmaður og þingmenn stjórnarflokkanna tala mikið um að tryggja eigi til þessum hópi sérstaklega 25 þús. kr. Búið er að skapa mjög miklar væntingar hjá þessu fólki sem á von á að fá 25 þús. kr. í sinn vasa, enda veitir ekki af í ljósi þess að hér er um þann hóp að ræða sem hvað verst stendur í hópi aldraðra.

Hver er svo staðreynd málsins? Af þessum 25 þús. kr. sem koma í vasann fara 12 eða 17 þús. kr. upp úr honum aftur þannig að eftir standa kannski 8–10 þús. kr. Ég velti því fyrir mér hér í orðræðunni á Alþingi hvort ekki væri réttara eins og málum er háttað í dag að við töluðum um að þarna væri um að ræða 8, 10 eða 12 þús. kr. eftir því á hvaða hópa við lítum, þannig að fólk standi ekki í þeirri trú að 25 þús. kr. komi í vasann 1. júlí á þessu ári. Það er miklu betra að allir viti hver raunveruleg staða þessara mála er. En ég tek undir þann málflutning sem er viðhafður hér og er dálítið í takt við raunveruleikann að að sjálfsögðu erum við alltaf að skipta takmörkuðum fjármunum en það veldur mér ákveðnum vonbrigðum að enda þótt kveðið sé á um það í þessu frumvarpi að koma eigi sérstaklega til móts við þennan hóp í því starfi sem fram undan er og að fjármálaráðherra muni leggja fram frumvarp, að af þessum 3,4 milljörðum skuli svo lítill hluti skila sér til þeirra sem eru hvað allra verst settir í þessum hópum. En ég fagna því að það eru vissulega fyrirheit um að það eigi að koma til móts við þessa einstaklinga innan hóps aldraðra og vonandi öryrkja líka þar sem meiri peningar koma til að bæta kjör þeirra því að það veitir svo sannarlega ekki af því.

Hæstv. forseti. Ég vil líka benda á það þegar við tölum um að hér sé um takmarkaða fjármuni að ræða að síðasta ríkisstjórn skildi við ríkissjóð í mjög ágætu ásigkomulagi. Ríkissjóður er skuldlaus í dag og þar af leiðir að svigrúmið er náttúrlega miklu meira en annars til að bæta kjör þessara hópa sérstaklega sem núverandi ríkisstjórn er að gera með stuðningi allra þingflokka. Ég vil setja þetta í það samhengi að menn hafi haldið mjög vel utan um fjármál hins opinbera sem eru sameiginlegir fjármunir okkar allra þannig að nú er hægt að bæta kjör aldraðra og öryrkja sem raun ber vitni.

Ég get ekki staðist það, hæstv. forseti, að fara aðeins aftur í tímann, líkt og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði áðan, aftur til ársins 2003 þegar rætt var um aldurstengingu örorku. Ég man að á framboðsfundum sem ég var á þá ræddi ég alltaf um að milljarður ætti að fara í það að bæta kjör öryrkja með aldurstengingunni og ég nefndi aldrei aðra tölu. Síðan kom reyndar í ljós að hægt var að finna einhverja aðra útreikninga í ráðuneytinu sem hljóðuðu upp á 1,5 milljarða og það var mikið stapp á þinginu um hvort veita ætti milljarð í þetta, rétt eins og við mörg sögðum í aðdraganda kosninganna 2003, eða hvort fara ætti eftir þeim útreikningum sem komu í framhaldinu og m.a. inn í þingsali, sem voru upp á 1,5 milljarða. Ég man mjög vel að við hv. stjórnarliðar þá komum hér upp og maður greindi hreinskilnislega frá því hvað maður hefði talið að við ætluðum að setja mikla peninga í þetta. Þáverandi stjórnarandstaða leit á málið með allt öðrum hætti og saumaði ansi þétt að stjórnarliðum þá og taldi að 1.500 millj. ættu að fara í hina aldurstengdu viðmiðun varðandi greiðslu örorkubóta þar sem þeir sem urðu öryrkjar mjög ungir og gátu þar af leiðandi ekki áunnið sér réttindi í lífeyrissjóð fengu mest og síðan fóru tengingarnar stiglækkandi eftir því sem leið á vinnualdurinn. Það er því eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra, sem hafði sig mjög í frammi í því máli og ræddi mjög mikið um það ásamt fleiri samfylkingarmönnum, og reyndar allri stjórnarandstöðunni þá, og hélt því fram að þessi aldurstengda upphæð ætti að vera 1,5 milljarðar en ekki milljarður, hvernig standi á því að þessar 500 milljónir, sem sumir töldu að upp á vantaði, skuli ekki vera komnar inn í það frumvarp sem við ræðum hér þar sem þetta var mikið baráttumál hjá þáverandi stjórnarandstöðu, að upphæðin yrði 1,5 milljarðar en ekki milljarður.

Nú þekki ég það hafandi verið í ríkisstjórn með þeim ágæta flokki, Sjálfstæðisflokknum, að hann heldur vel um budduna, heldur vel utan um ríkissjóð á meðan Framsóknarflokkurinn þá hélt utan um mjög erfið og útgjaldafrek ráðuneyti rétt eins og hæstv. ráðherra heldur núna utan um, félags- og tryggingamálaráðuneytið. Ég spyr því hvort hæstv. ráðherra hafi í raun og veru ekki náð lengra í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn um að fá meiri fjármuni í þennan málaflokk, en að sjálfsögðu þekkjum við það, framsóknarmenn, að skammirnar munu fyrst og fremst bitna á hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að menn lemji nú í borð og spyrji: Hvar eru 300 milljónirnar sem vantar ofan á þær 200 sem hér eru? Fjármálaráðherra mun ekki svara fyrir það. Það væri mjög gott að við fengjum það á hreint í umræðunni hvort ekki sé enn vilji hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, líkt og hún lagði til á sínum tíma, að aldurstengda örorkan fari upp í 1,5 milljarða en ekki 1.200 millj. sem lagt er til í þessu frumvarpi.

Í heildina vil ég lýsa yfir mikilli ánægju með það frumvarp sem við ræðum hér. Að sjálfsögðu má gera betur, eins og ég hef nefnt hér, í mörgum öðrum málaflokkum. Ég hef trú á því að við getum sammælst um að halda áfram að bæta kjör eldri borgara og örorkulífeyrisþega en vek enn og aftur athygli á að því miður stendur á því að þeir sem verst eru settir í þessum hópum fái leiðréttingu á kjörum sínum strax. Það verður í fyrsta lagi 1. júlí nk., þ.e. ef menn starta þessari örorkumatsnefnd af stað á ný og það þarf að gera af miklum krafti því að hér er um heilmikil og flókin úrlausnarefni að ræða sem við þurfum öll að standa saman að. Eins og ég sagði áðan stend ég að þessu frumvarpi sem hæstv. ráðherra lagði fram og við gerum ekki miklar tillögur til breytinga á frumvarpinu í ágætri meðhöndlun félags- og tryggingamálanefndar. Ég hef því trú á að það náist þverpólitísk sátt á þinginu um að bæta kjör aldraðra og öryrkja á þann veg sem hér er lagt til.