135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[12:05]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum um breytingar á almannatryggingalögum er mjög merkilegt á margan hátt. Það bætir stöðu fjölda fólks og er enn eitt skrefið af fjöldamörgum sem tekin hafa verið á síðustu tíu árum eða svo til að bæta stöðu aldraðra og öryrkja og er eiginlega árviss atburður.

Þegar menn hanna velferðarkerfi og bótakerfi þurfa þeir að gæta ákveðins samræmis á milli þeirra sem greiða bæturnar og hinna sem fá. Það er ekki góð lenska og þykir ekki gott að þeir sem greiða bæturnar séu miklu verr settir, búi við verri lífskjör en þeir sem þiggja þær. Þetta er nokkuð sem þarf alltaf að gæta að, sérstaklega þegar um er að ræða sameiginlegan pott en ekki eins og í lífeyrissjóðunum þar sem menn hafa borgað inn fyrir bótunum. Þessa þurfa menn alltaf að gæta og þess vegna skapaðist svo mikill vandi til dæmis þegar menn ákváðu að tekjur ellilífeyrisþega ættu ekki að skerða bætur.

Þá gerist það að kannski eru tveir menn að vinna hlið við hlið, annars vegar mjög sprækur eldri maður sem er orðinn 71 árs, afskaplega sprækur, ekkert að honum að sjá, á honum engan bilbug að finna og hins vegar annan yngri sem vinnur við hliðina á með sömu laun. Allt í einu fær samkvæmt þeim reglum sem eru í gildi sá gamli 130 þús. kr. aukalega úr Tryggingastofnun af því að tekjurnar eru hættar að hafa áhrif.

Til þess að útskýra fyrir yngri manninum sem á börn og er að koma sér upp húsnæði og annað slíkt af hverju sá gamli fær allt í einu 130 þús. kr. þarna aukalega þrátt fyrir að þeir vinni sömu vinnu fyrir sömu laun þá getur maður sagt að sá gamli sé búinn að skila sínu ævistarfi. Það má segja það þannig þó að það sé líka spurning því að sá yngri borgar nefnilega bæturnar fyrir þann eldri. Þetta olli líka vandræðum milli 67 ára og sjötugs. Nú er fólk ekki skyldað til að fara á lífeyri þó það verði 67 ára og mjög margir gera það bara ekki, fara ekkert á lífeyri, taka ekki lífeyri, halda bara áfram að vinna, enda sprækir. Það er mjög mikið af spræku eldra fólki í dag sem betur fer, afskaplega spræku, alveg yfir nírætt. Þarna er misræmi og nú er verið að laga þetta og menn hafa spurt sig af hverju ekki sé miðað bara við 67 ára. Þá er þessi mismunun enn meira áberandi, þ.e. að fólk er að vinna hlið við hlið og annar fær allt í einu 130 þúsund. Núna fengi hann þó ekki nema 70 þúsund til viðbótar af því að fyrstu 100 þúsund krónurnar skerða ekki. Þessi er vandinn sem er við að glíma og þetta er ekkert einfalt eða auðleyst.

Í þessu frumvarpi er gengin til enda sú vegferð sem hófst með öryrkjadómnum um einstaklingshyggjuna og ég sem einstaklingshyggjumaður er náttúrlega afskaplega ánægður með það. En ef ég væri félagshyggjumaður mundi ég hafa ansi miklar efasemdir um að öryrki sem býr í sambúð með hátekjumanni eigi að fá nákvæmlega sömu bætur og öryrki sem býr með lágtekjumanni, að hann eigi bara að fá nákvæmlega það sama. Mér finnst það ekki félagslega rétt en það virðist vera að félagshyggjuflokkarnir sem eru kannski ekki margir í þingsal akkúrat núna séu mjög fylgjandi þessu, þ.e. að dýrka einstaklingshyggjuna og leggja áherslu á að horfa bara á einstaklinginn en ekki þá félagslegu stöðu sem hann býr við, búandi kannski með bankastjóra með mörg hundruð þúsund eða milljón á mánuði og eiga að fá nákvæmlega sömu bætur og annar sem býr með fátækum verkamanni. Þetta er líka sjónarmið sem þarf að skoða og ég í sjálfu sér gleðst yfir þessu.

Svo eru það 25 þúsund krónurnar sem voru hugsaðar fyrir þá sem hvorki eiga réttindi í lífeyrissjóði né fá vinnu eða geta unnið. Það er fólk sem hefur núna í dag eftir nýjustu hækkun 131 þús. kr. á mánuði fyrir skatt frá Tryggingastofnun. Það er algert lágmark sem menn geta haft. Það er maður sem ekkert hefur í tekjur, getur ekki fengið vinnu eða getur ekki unnið og á engin réttindi í lífeyrissjóðum af ýmsum ástæðum. Ég nefndi áðan í andsvari að það gæti átt við um húsmæður sem áður fyrr unnu heima, voru ekkert á vinnumarkaði, sem nú eru orðnar kannski níræðar, 80–90 ára gamlar. Þetta er ákveðin þjóðfélagsbreyting sem hefur orðið. Í dag vinna nánast allar konur sem eru vinnufærar meira og minna nema kannski rétt aðeins meðan þær koma upp börnunum ef ekki er skipting á milli hjóna, þ.e. ef hjónin skipta ekki með sér fjölskylduábyrgðinni sem ætti náttúrlega vera. Það eru þarna eldri konur og svo eru það nokkrir í lífeyrissjóði sem hafa afskaplega lélegan lífeyri. Þar vil ég nefna Lífeyrissjóð bænda fyrstan. Hann hefur ekki fengið Hótel Sögu enn þá þó hann ætti kannski að fá það og fleiri auðæfi sem bændastéttinni var gert að safna hingað og þangað og er núna fé án hirðis, mjólkursamlög, Hótel Saga og svo framvegis og ætti náttúrlega að renna annaðhvort til eigendanna, bændanna sjálfra eða þá bara inn í lífeyrissjóðinn til að bæta kjör þeirra. En sá lífeyrissjóður borgar afskaplega lélegan lífeyri og mjög margir þar fá minna en 25 þús. kr. Lífeyrissjóður leigubílstjóra er eins. Hann var með afskaplega lág iðgjöld og veitir mjög lélegan rétt og þetta á við um fleiri lífeyrissjóði. Jafnvel fyrir heila starfsævi eru menn með mjög lélegan rétt. Ég vonast til að þessar 25 þús. kr. komi og það var aldrei talað um annað en að sjálfsögðu mundi hann skerða bætur Tryggingastofnunar og eftir skatt mundi hann gefa 8–12 þúsund kr. Það var aldrei talað um neitt annað. Það lá alltaf uppi á borðinu. En það er samt verið að bæta kjör þeirra sem verst eru settir umtalsvert því að sá sem er með 130 þús. kr. fyrir skatt munar heldur betur um það að fá 143 þús. kr. fyrir skatt sem yrði þá algert lágmark til þess sem býr einn á Íslandi, ellilífeyrisþega. Ég held að þá séum við komin nokkuð framarlega í heiminum verandi með það sem lágmarksframfærslu fyrir aldraða.

Ég hef athugasemd við frumvarpið og það er af þremur ástæðum. Það er í fyrsta lagi séreignarsparnaðurinn. Ég flutti frumvarp fyrir rúmu ári síðan um að séreignarsparnaðurinn teldist ekki sem lífeyrir af því að hann er frjáls. Fólk getur valið hvort það sparar í séreignarsparnað og það getur auk þess tekið hann út og margir gera það að ráðleggingum banka að taka hann út árið áður en þeir fara á lífeyri og þá skerðir hann ekki lífeyri frá Tryggingastofnun. Ég kalla þetta nánast að þetta sé skattlagning á vanþekkingu. Mér finnst það bara ekki sanngjarnt eða réttlátt. Nú er búið að taka hann út alveg og það sem meira er, menn fóru úr ökkla í eyra. Vextir á séreignarsparnaðinum teljast ekki til fjármagnstekna lengur eins og vextir á annan sparnað. Ég hefði talið eðlilegt að vextirnir kæmu sem fjármagnstekjur en það er tekið út líka. Menn fara sem sagt úr ökkla í eyra. Ég hef dálitlar athugasemdir við þetta. Ég hefði viljað líta á þetta sem sparnað eins og á bankabók og þá koma vextirnir sem fjármagnstekjur en sparnaðurinn sjálfur sem er frjáls kæmi ekki til skerðingar bóta. Þetta er fyrsta athugasemdin.

Önnur athugasemdin er við langtímasparnað. Það er leyst þannig í þessu frumvarpi að þeir sem fá miklar fjármagnstekjur vegna sölu eigna — það geta verið hlutabréf, það geta verið spariskírteini, það getur verið sumarbústaður eða eitthvað, bíll — þeir vextir eða fjármagnstekjur sem koma þar fram, sem koma nú yfirleitt ekki á bíl en öllu hinu, þ.e. ávöxtunin, fjármagnstekjurnar, þær hafa komið núna á einu ári og komið fram sem mikið högg. Í þessu frumvarp sem ég nefndi áðan og ég flutti fyrir ári síðan þá gerði ég ráð fyrir því að eingöngu þeir vextir sem áunnir væru eftir að maðurinn fór á lífeyri kæmu til frádráttar, þ.e. til dæmis spariskírteini sem menn hafa átt kannski í 20 ár og innleysa núna, eru til innlausnar og viðkomandi er búinn að vera tvö ár á lífeyri til dæmis, þ.e. að þá kæmu einungis vextir síðustu tveggja ára til frádráttar sem fjármagnstekjur en ekki 20 ára sparnaðurinn. Hér er það ekki gert. Hér er þessu dreift á tíu ár. Mér finnst það ekki góð lausn því það skiptir oft ekki stóru máli hvort þessu er dreift á tíu ár eða allt borgað í einu, skerðingin er nokkurn veginn sú sama nema náttúrlega ef maðurinn skyldi falla frá á tímanum, á þessum tíu árum. Þá náttúrlega græðir hann á því en það veit hann ekki fyrir fram, yfirleitt ekki.

Þetta eru þær athugasemdir sem ég geri og svo geri ég auk þess athugasemd við þá brotalöm, það stílbrot sem ég kalla svo á því að greiðslur til öryrkja frá lífeyrissjóðum hafi frítekjumark. Þessi afstaða er örugglega ekki vinsæl af því að allir vilja bæta kjör aldraðra og öryrkja. En þetta er ákveðið stílbrot vegna þess að lífeyrissjóðirnir voru á sínum tíma stofnaðir með skylduaðild frá Alþingi 1974 þar sem allir launþegar voru skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóð og skylduaðild frá Alþingi 1980 þar sem atvinnurekendum var líka gert að greiða í lífeyrissjóð. Það er sem sagt lagaskylda að greiða í lífeyrissjóð og þar af leiðandi eru lífeyrissjóðirnir hluti af velferðarkerfi okkar. Þeir eiga að veita tekjutengdan lífeyri og bætur úr Tryggingastofnun eiga að skerðast þegar lífeyrisgreiðslurnar vaxa. Lífeyrissjóðirnir eiga taka við vegna þeirra sem eru á vinnumarkaði. Aðrir sem ekki eru á vinnumarkaði eins og fatlaðir, sem eru alla ævi fatlaðir, ættu þá að njóta Tryggingastofnunarinnar nánast einir. Það stefnir náttúrlega í það með tímanum. En þetta er ákveðið stílbrot því þarna er allt í einu farið að veita lífeyri úr báðum kerfum samtímis með því að frysta 25 þús. kr. — það eru reyndar bara 25 þús. kr. — en það verður væntanlega vaxandi þrýstingur á að auka það gagnvart öldruðum og svo hækka mörkin og svo framvegis. Þá eru menn komnir með lífeyri úr báðum kerfum án þess að það virki hvort á annað og það finnst mér stílbrot og ég geri athugasemd við það. Þessi er minn fyrirvari.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aldurstengdar bætur öryrkja verði bættar. Nú er það þannig að öryrki sem verður öryrki tvítugur er með 156 þús. kr. á mánuði að lágmarki. Þá hefur hann engar tekjur og ekkert úr lífeyrissjóði. Þetta er lágmark sem hann fær. Það eru 156 þús. kr., tæpar 160 þús. kr. Hann er miklu betur settur en öryrki sem verður seinna öryrki á ævinni með sömu aðstæður, ekkert úr lífeyrissjóði, engar tekjur vegna atvinnu. Þetta var á sínum tíma sett á vegna þess að talið var að öryrkjar sem yrðu öryrkjar ungir fengju ekki framreikning í lífeyrissjóðunum. Það er einn lífeyrissjóður sem ekki framreiknar. Það er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, B-deild. En flestallir lífeyrissjóðir framreikna. Með svona meðaltalsreglu gerist það að sumir fá bæði framreikning og aldurstengda uppbót. Þeir eru sem sagt tvítryggðir. Aðrir verða öryrkjar seinna, fá ekki framreikning af ýmsum ástæðum, geta hafa verið veikir lengi eða hafa verið í námi eða eitthvað slíkt og eru ekki á vinnumarkaði. Þeir fá ekki eins háa aldurstengda uppbót og fá ekki framreikning þannig að þetta missir marks. Ég hef spurt menn: Af hverju í ósköpunum tóku menn ekki sama kerfið og 25 þús. kr. voru hugsaðar, að það yrði tryggt ákveðið lágmark úr lífeyrissjóðum þannig að þeir sem fengju ekki framreikning nytu þá þessa lágmarks. Það hefði mátt reikna út hvað það lágmark hefði getað verið hátt til að kosta jafnmikið. Það hefði verið miklu réttlátara. Það hefði tekið tillit til þarfa hvers og eins en ekki verið eitthvert meðaltal þar sem þeir sem eru með jafnvel mjög háan lífeyri fá aldurstengda uppbót vegna framreiknings. Sjómenn sem byrja að vinna 19 ára og verða öryrkjar 25 ára geta fengið mjög myndarlegan framreikning í Lífeyrissjóði sjómanna og fá svo aldurstengda uppbót nánast að fullu í dag og það er verið að bæta enn um betur í þessu frumvarpi þannig að fólk sem er jafnvel með hundruð þúsunda í lífeyri á mánuði getur fengið aldurstengda uppbót. Þetta finnst mér dálítið vanhugsað. Ég spurði að því á fundinum í hv. félagsmálanefnd hvort fulltrúar öryrkja eða Öryrkjabandalagið hefði hugleitt að taka frekar upp lágmarksgreiðslur úr lífeyrissjóði í staðinn fyrir þessa aldurstengdu uppbót en það höfðu þeir nú ekki gert. En ég ætla að vona að menn fari að gera það.

Ég tel að þetta frumvarp sé ákveðið skref, eitt af fjölmörgum sem stigið hefur verið á undanförnum árum til að bæta kjör aldraðra og öryrkja en það er orðið mjög brýnt vegna þess að kerfið er orðið óskaplega flókið og sérstaklega þetta fyrirbæri þegar mikið af bótum er tengt grunnlífeyrinum sem fellur niður við ákveðnar tekjur. Þá geta allar tekjurnar fallið niður við það að menn fá einni krónu meira í lífeyri eða tekjur. Ég held því að mjög brýnt sé að menn fari að skoða allt málið í heild sinni og það er reyndar nefnd að störfum sem gerir það. Ég ætla að vona að hún komist að skynsamlegri lausn til að finna út réttlátt og skilvirkt réttindakerfi fyrir aldraða og öryrkja.

Örorkunefndin sem ég er í er að störfum núna og ég ætla að vona að hún finni lausn sem horfir meira á getu öryrkja og reyni að virkja þá til þátttöku í atvinnulífinu því að hlutskipti þeirra sem verða öryrkjar og detta út af vinnumarkaði er afskaplega slæmt. Það er afskaplega slæmt. Það fólk hefur ekki hlutverk og það er mjög slæmt fyrir einstakling í þjóðfélaginu að hafa ekki hlutverk. Stór hluti af sjálfsmynd hvers einstaklings er að gegna hlutverki á vinnumarkaði, í skólakerfinu eða í fjölskyldunni og svo framvegis þannig að ég ætla að vona að sú nefnd vinni hratt og vel og skili góðum árangri.