135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[12:41]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra með síðari breytingum. Ég fagna því frumvarpi sem hér liggur fyrir og þeim áherslum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur lagt upp með til endurskoðunar á almannatryggingakerfinu með það fyrir augum að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

Hæstv. forseti. Ég vil láta það koma fram að mér hefur alla tíð þótt vont að spyrða saman aldraða og öryrkja. Ég hefði gjarnan viljað sjá eitt frumvarp sem tæki sérstaklega á málefnum aldraðra og annað frumvarp sem tæki sérstaklega á málefnum öryrkja. Mér hefur aldrei fundist við hæfi að spyrða þetta tvennt saman og vil að sú skoðun komi hér fram.

Ég fagna því að hv. félags- og trygginganefnd lagfærir orðalag, að hætt sé að tala um bætur en talað um greiðslur. Ég held að það skipti verulegu máli. Það er ekki verið að greiða bætur til eins eða neins, það er verið að greiða fólki úr ákveðnum velferðarsjóðum og það skiptir máli og við eigum að hætta að nota orðið bætur.

Í öðru lagi tek ég undir það sem fram kemur hjá nefndinni að í stað þess að nota orðið vistmaður á stofnun verði notað orðið íbúi og ég fagna því og hefði kosið að sjá það í þessu frumvarpi.

Hæstv. forseti. Ég fagna því einnig að afnám tekjutengingar maka verður að veruleika 1. apríl 2008. Ég álít að þar sé um að ræða grundvallarmannréttindi, hvort heldur um er að ræða aldraða eða öryrkja og það skipti afar miklu máli, ekki síður fyrir öryrkja en aldraða, svo það sé ítrekað hér.

Ég vil líka leggja áherslu á að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67 til 70 ára er hækkað í 100 þús. kr. á mánuði frá og með 1. júlí 2008 og það er verulega til bóta og mun án efa efla atvinnuþátttöku fólks á umræddum aldri umfram það sem þegar er.

Ég vil líka láta í ljósi ánægju mína vegna séreignarsparnaðar, að skerðingar skuli ekki lengur vera til staðar. Það sem fram kom í ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams finnst mér hins vegar vera umhugsunarefni, þ.e. af hverju skyldubundinn lífeyrissparnaður lýtur öðrum lögmálum en séreignarsparnaður sem aðilar hafa átt kost á að leggja í á undanförnum árum og fá mótframlag frá atvinnurekanda.

Hins vegar er eitt, hæstv. forseti, sem ég vil gera athugasemdir við og það eru vasapeningar vistmanna á stofnunum. Mér finnst sá þáttur sem snýr að þeim einstaklingum vera algjörlega út í hött. Mér finnst þetta einfaldlega brot á sjálfstæði þeirra sem eru svo óheppnir að verða sjúkir og vistaðir, eins og það er orðað, eða eiga heimili á hjúkrunarheimilum eða stofnunum. Þessum lögum þarf að breyta og með þeirri breytingu mundum við efla sjálfsvirðingu einstaklinga sem þurfa að vera á stofnunum og eiga þar heima. Þeir mundu þá greiða af sínum eigin lífeyri til stofnunarinnar og ættu síðan afgang ef því væri að skipta eða fengju greiðslur frá almannatryggingakerfinu ef þeir þyrftu þess.

Að mínu mati er þetta meginatriði sem þarf að breyta. Þetta er skerðing á sjálfsforræði þessara einstaklinga. Það er skerðing á frelsi einstaklingsins að þetta atriði skuli vera bundið í lög eins og hér kemur fram. Ég skora á hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að gera gangskör að því að breyta því.