135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[13:56]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir andsvar hennar og hvatningu. Það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að við höfum nú þegar náð ákveðnum árangri í að lækka lyfjakostnað sem nemur um 100 millj. kr.

Betur má ef duga skal. Hv. þingmaður spyr út í póstsendingarnar og sérstaklega þá póstsendingar innan lands, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Þá er rétt að taka fram að þær hafa viðgengist um langan tíma. Nær allar — ef ekki allar — lyfjabúðir eða apótek sem nú eru starfandi notfæra sér póstsendingar. Ef maður skoðar landakortið sér maður að ekki búa allir í nágrenni við lyfsölubúð þannig að fólk verður að bjarga sér með öðrum hætti.

Varðandi lyfjaverslanir út um land þá hefur það verið reynsla okkar í ráðuneytinu að mikill áhugi er hjá lyfsölum — sem við getum e.t.v. kallað einyrkja — að opna lyfjabúðir úti á landi þvert á það sem maður mundi halda. Þó að Akranes sé nú kannski ekki langt úti á landi þá hefur einyrki farið og sett á fót lyfjabúð þar. Á Siglufirði er líka einyrki með öfluga lyfjabúð. Ég hef því ekki áhyggjur af því að ekkert kæmi í staðinn ef þessar stóru keðjur mundu ákveða að hætta með verslun á einhverjum stað. Það er ekki sú niðurstaða sem við höfum fengið eftir að hafa skoðað þetta.

Hins vegar er það skylda okkar að sjá til þess að það sé þjónusta um allt land og menn þurfa auðvitað að huga að því. Af augljósum ástæðum er það mjög mikilvægt fyrir okkur að lækka lyfjaverðið og það er það sem (Forseti hringir.) við erum að reyna að vinna að með þessu frumvarpi.