135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[14:02]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp um breytingar á lyfjalögum skuli komið fram og tel að ákveðið skref sé stigið til framfara varðandi það að lækka lyfjaverð í landinu eða koma okkur undan því lyfjaokri sem íslenskir neytendur hafa mátt búa við hvað þessa vöru snertir. Spurningin er hvort nógu langt sé gengið. Ég tel að eingöngu sé um ákveðinn áfanga að ræða á því ferli að vinna að því að hér skapist og myndist markaður sem sé sambærilegur við það sem gerist í nágrannalöndum okkar þannig að íslenskir neytendur eigi kost á lyfjum á svipuðu verði og þar er. Það hlýtur að vera markmið okkar að þannig sé staðið að málum.

Síðasta sumar ákvað læknir einn að leita eftir því að veita ákveðna þjónustu og hafa milligöngu um að senda lyf með póstsendingum. Ljóst var að um verulegan mun á verði var að ræða, hægt var að bjóða upp á mun lægra lyfjaverð af hans hálfu í gegnum þessa þjónustu. En það var tekið fyrir það.

Það hlýtur að vera markmiðið að við sköpum þær aðstæður að fólk sem þarf að neyta lyfja geti gert það og geti fengið sem ódýrasta þjónustu. Lyf eru öðruvísi vara en venjuleg markaðsvara að mörgu leyti til, fólk hefur ekki val um það að taka lyf. Sá sem neytir ákveðinna lyfja er neyddur til þess út af heilsufarsástæðum að nota lyfið. Stjórnvöld verða, annað er útilokað, að blanda sér í markaðsstarfsemina með þeim hætti að tryggja borgurum sínum eðlilega aðkomu og eðlilegt verð á vörum sem eru nauðsynlegar, sem eru óhjákvæmilegar. Allt annað gildir þegar neytandinn á val um það hvort hann notar vöru eða lætur hana eiga sig. Hvað varðar sjúklinga er það útilokað í mörgum tilvikum. Viðkomandi verður að hafa vöruna og neyta hennar.

Við höfum einhverra hluta vegna — ég gæti í sjálfu sér flutt langt mál um það — á nánast öllum sviðum verið dýrasta þjóðfélagið hvað varðar sölu á vörum og þjónustu og líka hvað lyf varðar og jafnvel lyf sem framleidd eru í landinu. Það er óásættanlegt. Eins og ég sagði áðan tel ég frumvarpið sem hér er til umræðu vera skref í rétta átt. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja það frumvarp sem hér um ræðir.

Það eru þó ákveðin atriði sem mér finnst ástæða til að gera athugasemdir við eða kalla eftir nánari skýringum á. Í 3. gr. er fjallað um það í a-lið að 7. málsl. 1. mgr. falli brott, þ.e. ákvæðið um póstverslun með lyf. Verði það ákvæði samþykkt verður póstverslun með lyf heimil. Þá vaknar spurning: Ef póstverslun með lyf er heimil þarf að setja einhverjar skorður við slíkri póstverslun? Hvaða skorður eiga það að vera?

Í b-liðnum í 3. gr. er fjallað um það að 8. málsl. 1. mgr. orðist á þann veg að ráðherra sé heimilt að kveða nánar á um skilyrði og framkvæmd póstverslunar með lyf og póstsendingar lyfja í reglugerð um lyfsöluleyfi. Þá komum við enn einu sinni að spurningunni um það hvað sé eðlilegt að fela ráðherra að gera, hvort ekki sé eðlilegt að ef verið er að fella niður bannákvæði setji löggjafinn einhverjar viðmiðunarreglur um það með hvaða hætti og hvernig þetta eigi að vera. Eða teljum við að markaðurinn sé með þeim hætti að æskilegast sé að ráðherra hafi sem frjálsastar hendur hvað þetta varðar? Þó að ég sé almennt á móti því að lagasetningarvald sé framselt til framkvæmdarvaldsins þá kann í þessu tilviki að vera ákveðin afsökun fyrir því. Í mörgum tilvikum kann, vegna breytileika markaðarins, að vera nauðsynlegt að framkvæmdarvaldið geti brugðist við með skjótum hætti. Það eru e.t.v. röksemdir fyrir því að ákvæðið sé orðað með þeim hætti sem hér er að ráðherranum sé heimilt að gera þessar ráðstafanir þannig að sem fæstar fyrirfarandi tálmanir séu á því hvernig þær reglur eru.

Ég tel mjög mikilvægt að þetta ákvæði nái fram, þ.e. að póstverslun með lyf verði heimil. Að sama skapi velti ég því líka fyrir mér, sem fjallað er um í greinargerð um 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir að póstverslun með lyf verði bundin lyfsöluleyfum og sé í tengslum við starfandi apótek til þess að þessi verslun falli að þeirri umgjörð sem búin er lyfjaverslun í landinu og í löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég velti því þá fyrir mér hvort jafnvel sé hægt að auka frelsið miðað við það sem gert er ráð fyrir í orðalagi greinargerðarinnar hvað það varðar að hægt sé að heimila þeim sem hafa leyfi til að gefa út lyfseðla að vísa því til apóteka hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég velti því fyrir mér hvort skilja beri þetta ákvæði þannig að það sé ekki eingöngu bundið við apótek eða lyfsöluleyfi hér á landi. Erum við að tala um að þetta sé opið fyrir lyfsöluleyfi og apótek hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu?

Sé það rétt, af því að líka er vísað til þess að þetta falli að þeirri umgjörð sem við búum lyfjaverslun í landinu og í löndum á Evrópska efnahagssvæðinu, get ég þá sem læknir eða leyfishafi vísað til og haft milligöngu um, í Svíþjóð eða á Svalbarða eða hvar sem er á svæðinu, að heimilt sé að nálgast lyfin eða þarf ég að vera bundinn við það markaðssvæði sem við búum við hér? Ef um það er að ræða erum við enn þá í fyrirfarandi takmörkun sem að mínu viti er allt of mikil, skorður eru allt of þröngar, og gefur ekki neytendum þá eðlilegu valkosti sem ég vil að þeir fái að þeir geti átt þess kost að fá lyf á lágmarksverði. Þá erum við hugsanlega ekki að ná takmarkinu með frumvarpinu — ég skil markmiðið á þann veg að koma eigi í veg fyrir eða alla vega að takmarka lyfjaokrið sem íslenskir neytendur lyfja þurfa að búa við í dag. Ég freistast því til þess að líta þannig á og skýra þetta ákvæði þannig, og vil að það komi skýrt fram — ég vænti þess að hæstv. heilbrigðisráðherra geri grein fyrir því hér á eftir hvort það sé réttur skilningur, að miðað sé við að heimilt sé að sækja lyf til þeirra sem hafa þær heimildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Sé svo, þá er um mjög eðlilegt og gott ákvæði að ræða.

Ég ætla ekki að blanda mér í umræður um hættulega eiginleika fíkniefna — mér skildist á hv. 8. þm. Þuríði Backman að spurningin væri um að leyfa heróín og banna nikótín — ég ætla ekki að velta því fyrir mér. Það er aukaatriði, finnst mér, í sambandi við frumvarpið sem hér er um að ræða. Við höfum ákveðna löggjöf hvað það varðar. Mér þótti það eðlileg skýring, sem hæstv. heilbrigðisráðherra kom með áðan, varðandi það að eðlilegt sé að hafa auðvelt aðgengi að nikótínlyfjum og það er það sem frumvarpið fjallar um. Í sjálfu sér þarf ekki að orðlengja það að öðru leyti.

Í 10. gr. frumvarpsins er talað um að verð lyfseðilsskyldra lyfja skuli vera það sama um allt land. Ef lyf eiga að vera á lægra verði en hámarksverð segir til um skuli tilkynna lækkað verð til lyfjagreiðslunefndar sem birtist í næstu útgáfu lyfjaverðskrár. Ég velti því fyrir mér hvort við séum að setja þarna eðlilegar reglur eða hvort um óeðlilegt og óheppilegt inngrip á markaðinn sé að ræða. Við höfum möguleika í samkeppnislögum til að bregðast við hvað varðar undirverðlagningu. Það gildir líka hvað varðar þessa grein ef um samkeppnishindranir er að ræða, sem m.a. koma fram í óeðlilegri undirverðlagningu til að koma samkeppnisaðila út af markaðinum.

Ég spyr: Af hverju má lyfsalinn á Seyðisfirði ekki lækka verð á megrunarpillum eða geðdeyfðarlyfjum sem eru hugsanlega að nálgast síðasta söludag? Af hverju þarf hann að fara í það flókna ferli að tilkynna lækkað verð til lyfjagreiðslunefndar og útgáfu o.s.frv. og þá þarf það hugsanlega að stinga í stúf við að það skuli vera lyf á sama verði um allt land? Af hverju á það að vera svoleiðis? Þetta kann að vera misskilningur hjá mér en ég óska eftir skýringu á því. Eins og þetta er orðað í 10. gr. virðist mér að um óeðlilegt inngrip í markaðinn sé að ræða. Við eigum að miða við það hvað þessa verslun varðar eins og aðra að heimild fyrir viðskiptaaðilana sé sem rúmust til að lækka verðið til hagsbóta fyrir neytendur. Við eigum ekki að hafa neinar tálmanir hvað það varðar að það megi lækka verðið til hagsbóta fyrir neytendur. Við verðum hins vegar að hafa reglur sem koma í veg fyrir að lyf séu seld á verði sem er ósæmilegt og algerlega út úr þeim verðramma sem gerist í okkar heimshluta eins og verið hefur á undanförnum árum.

Ég vildi koma þessum athugasemdum að auk þess sem ég velti því fyrir mér hvort einhver vandamál séu við það að færa gildistökutíma laganna fram, að lögin öðlist gildi þegar þau hafa verið samþykkt frá Alþingi. Í heildina litið, eins og ég hef áður getið um, fagna ég frumvarpinu. Ég tel að stigið sé mjög mikilvægt skref í þá átt að draga úr óeðlilegum aðstæðum, sem hafa verið á íslenskum lyfjamarkaði, og það verði íslenskum neytendum sem þurfa að neyta lyfja til góða.