135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[14:17]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir það sem kom fram í andsvari hans þar sem hann svarar því hvort frelsi sé aukið til þess að kaupa lyf hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég skil það þannig að það sé ótvíræður möguleiki, að eingöngu þurfi að vera einhver ábyrgur aðili hér innan lands sem hægt sé að vísa til varðandi það.

Ég velti sem sagt fyrir mér hvort þessi opnun fælist í ákvæðinu sem væri tvímælalaust til hagsbóta fyrir neytendur. Ég fagna því sem fram kom í andsvari hæstv. heilbrigðisráðherra.