135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[14:18]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði annars vegar um gildistökutímann og hins vegar um heimildir ráðherra, hverju væri rétt að framvísa til framkvæmdarvaldsins. Hv. þingmaður talaði um að það gæti verið réttlætanlegt vegna þess að máli skipti að framkvæmdarvaldið gæti gripið skjótt inn í ef ákveðnar aðstæður krefðust þess.

Ég held að þarna hafi hv. þingmaður alveg rétt fyrir sér vegna eðlis málsins og það tengist gildistökuákvæðinu. Ástæðan fyrir því að talað er um 1. október er vegna þess að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Við verðum að senda tilkynningar ásamt reglugerð varðandi fylgiseðlana og þurfum að bíða eftir viðbrögðum þar frá. Þetta tengist mjög flóknu ferli á Evrópska efnahagssvæðinu, því umhverfi sem við erum í.

Þegar við gengum inn í Evrópska efnahagssvæðið opnuðust ýmsir markaðir fyrir okkur og varan sem kom inn í aðildarlöndin var á öllu svæðinu en það átti ekki við um lyf. Ég veit ekki um aðra vöruflokka. Það er sama fyrirkomulag í hverju landi fyrir sig. Við erum í rauninni með jafnmarga markaði og löndin eru inni á Evrópska efnahagssvæðinu. Við erum nú að opna glufur, ef þannig má að orði komast, og reynum að stækka markaðssvæðið með þessu frumvarpi.

Hins vegar verðum við að fara eftir lögum og reglum. Þess vegna hef ég kynnt þetta fyrir forsvarsmönnum Evrópusambandsins, tekið þetta sömuleiðis upp á fundum með norrænum kollegum mínum vegna þess að það skiptir máli að menn átti sig á því hvað hér er á ferðinni. Þetta er ekki bara vandi okkar Íslendinga. Þetta er vandi lítilla markaðssvæða og í rauninni vandi stórra markaðssvæða líka. Þannig að við höfum mætt miklum skilningi hvað þetta varðar. Þetta er ástæðan fyrir gildistökunni og ein ástæðan fyrir því að það er skynsamlegt (Forseti hringir.) að framkvæmdarvaldið hafi tök á að grípa hér inn í.