135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[14:39]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til umræðu frumvarp til breytinga á lyfjalögum. Frumvarpið tekur til mismunandi þátta í lyfjamálum og hefur ýmis markmið. Hæstv. heilbrigðisráðherra greindi í ræðu sinni frá ýmsum ráðstöfunum sem hafa verið gerðar á undanförnum mánuðum til að lækka lyfjaverð. Það má í raun segja að reynst hafi töluvert erfitt að hemja lyfjakostnað á Íslandi á síðustu árum. Samt sem áður hefur nokkur árangur náðst og á síðustu mánuðum hefur verið mögulegt að lækka lyfjaverðið um nokkur hundruð milljóna króna.

Lyfjakostnaður landsmanna á árinu 2005 var 14,5 milljarðar kr. þannig að það er til mikils að vinna. Af þeim 14,5 milljörðum kr. á árinu 2005 fóru um það bil 6 milljarðar kr. í gegnum Tryggingastofnun. En árangur á síðustu missirum eða síðustu árum hefur samt verið nokkur. Ég rakst m.a. á tölur um það að á árinu 2006 var lyfjakostnaður hins opinbera sem hlutfall af heildarútgjöldum til heilbrigðismála um 7,47%, sem hafði farið hratt lækkandi árin þar á undan, var til að mynda 8,37% á árinu 2004. En á því ári kom fram skýrsla Ríkisendurskoðunar um lyfjakostnað sem vakti töluverða athygli og viðbrögð. Á árinu 2004 gerðu lyfjaframleiðendur og stjórnvöld með sér samkomulag sem reyndist árangursríkt til lækkunar lyfjaverðs. Til samanburðar má nefna að hlutfallið var á árinu 1998 um 9,5% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála og hefur því lækkað um 2% af heildarkostnaði. Eitthvað hefur því gerst á síðustu árum, sem er vel, en það þarf að gera enn betur. Frumvarpið sem við höfum fyrir framan okkur hefur m.a. að markmiði að lækka lyfjaverð í landinu enn frekar, bæði til neytenda og ekki síður fyrir ríkiskassann.

Velflest atriðin í frumvarpi því sem hér er til umræðu komu til skoðunar í nefnd sem skipuð var af heilbrigðisráðherra á haustdögum 2004 til að móta lyfjastefnu til ársins 2010. Nefndin var skipuð í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég nefndi áður og kom út í mars 2004. Skýrslan leiddi í ljós að lyfjakostnaður hér á landi var mun hærri en hægt var að una við. Nefndin var skipuð hagsmunaaðilum í lyfjaiðnaðinum og lyfjamálum, bæði fulltrúum samtaka, heildsala og slíkra en jafnframt fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Það vildi þannig til að ég var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þeirri nefnd og þar fór fram mikil vinna og vönduð undir stjórn Einars Magnússonar, skrifstofustjóra í heilbrigðisráðuneytinu. Vinnan skilaði sér enda var mikil þekking í þessum hópi. Vinnan skilaði nákvæmri lýsingu á styrkleikum og veikleikum íslenskra lyfjamála og lagði grundvöllinn að aðgerðum til ársins 2010. Nefndin var einhuga og lagði fram sameiginlegar tillögur. Sumum þeirra hefur þegar verið komið í framkvæmd, öðrum er fylgt eftir með þessu frumvarpi. Ég á von á að mörg þeirra atriða sem enn standa eftir muni koma fram á næstu mánuðum og árum en þegar þau verða öll komin til framkvæmda munu þau verða til bóta í lyfjamálum þjóðarinnar. Markmið lyfjastefnunnar er að tryggja örugga og skynsamlega notkun lyfja á sem hagstæðustu verði fyrir notendur og hið opinbera.

Mig langar að fjalla í nokkrum orðum um hvert þeirra markmiða sem frumvarpið tekur til. Það fyrsta sem hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi var að stuðla að aukinni samkeppni í lyfjamálum, m.a. með því að aflétta banni á póstversluninni og leyfa hana að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Með þessum breytingum erum við eiginlega í fararbroddi meðal Evrópuþjóða, að heimila póstverslun með lyf sem er háð ströngum skilyrðum eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Sé farið eftir ströngustu kröfum um póstverslun eins og eru t.d. til staðar í Hollandi, Bretlandi og Þýskalandi, felur það í sér að lyfjaverslun sem rekur póstverslun verður jafnframt að reka hefðbundna verslun með lyf. Reyndar eru í Bretlandi ekki gerðar kröfur um að þar séu starfandi apótek bak við heldur er talið nægilegt að löggiltur lyfjafræðingur beri ábyrgð á starfseminni. Gerðar eru miklar kröfur um gæðastýringu við pökkun, dreifingu og afhendingu lyfjanna, um rekjanleika lyfjanna og að þau séu eingöngu afhent þeim sem hafa pantað lyfin. Jafnvel fylgir viðvörun, þegar fólk pantar lyf, um að leita þurfi til læknis komi upp heilsufarsleg vandamál í kjölfarið.

Einnig eru gerðar kröfur um að til séu nægar birgðir af skráðum lyfjum, að lyfjafræðiráðgjöf sé veitt af viðurkenndum aðilum á tungumáli viðkomandi og kerfi sem rekur feril lyfjaafhendinga. Full ástæða er til að gera strangar kröfur til þeirra aðila sem taka að sér póstverslun því að í gegnum tíðina hafa komið upp umræður um fölsuð lyf á lyfjamarkaðnum. Það hefur verið metið að u.þ.b. 10% þeirra lyfja sem eru á markaði séu fölsuð en með því að setja svona strangar reglur um póstverslunina getum við minnkað þessa hættu verulega. Fölsuð lyf eru þau lyf sem virka ekki eins og þau eiga að gera eða eru lyfleysa.

Í athugun sem þýska heilbrigðisráðuneytið tók saman um póstverslun með lyf kom fram að nokkur lönd í Evrópu leyfa póstverslun með lyfseðilsskyld lyf samkvæmt lögum. Það eru Bretland, Tékkland, Danmörk, Holland og Slóvenía og reyndar einnig Svíþjóð en þó aðeins í litlum mæli. Svíþjóð er eina landið í Evrópu þar sem lyfjaverslun er ríkisrekin en því verður þó breytt um næstu áramót. Nokkur Evrópulönd til viðbótar leyfa póstverslun með lyf sem ekki eru lyfseðilsskyld.

Annað markmið með frumvarpinu er að auka þjónustu við neytendur með því að leyfa sölu nikótínlyfja og flúortaflna utan lyfjabúða. Ég verð að taka undir með því sem segir í greinargerð í frumvarpinu og því sem hæstv. ráðherra sagði áðan að það er eðlileg krafa að aðgengi að nikótínlyfjum og flúortöflum sé jafngreitt og að sígarettum og sælgæti. En nikótínlyf vinnur eins og við vitum gegn reykingum og þeim heilsuskaða sem af þeim verður og flúortöflur eru til að vinna gegn skaðsemi sykurneyslu.

Í þriðja lagi er markmiðið að ná niður lyfjaverði með því að halda verði á lyfjum hinu sama um allt land. Í stað afsláttar frá verði lyfseðilsskyldra lyfja sem lyfjagreiðslunefnd ákveður geta lyfjaheildsalar, lyfjaframleiðendur og umboðsmenn þeirra eða smásöluaðilar tilkynnt lægra verð sem birt verður í lyfjaverðskrá.

Fjórða markmiðið er að halda lyfjakostnaði á heilbrigðisstofnunum í lágmarki með því að búa til lyfjalista.

Mig langar með nokkrum orðum að vitna í greinargerð með lyfjastefnunni sem fjallar um nákvæmlega þessi atriði, að halda niðri lyfjakostnaði og ná niður lyfjaverði, en, með leyfi forseta, segir þar:

„Fátt hefur jafnmikil áhrif á lyfjakostnað og val lyfja. Því er mikilvægt að ódýrari úrræðum sé beitt við val lyfja, bæði innan heilbrigðisstofnana og fyrir einstaklinga. Gagnrýnt hefur verið að afsláttarkerfi apótekanna sé ógagnsætt og að í því, ásamt greiðsluþátttökukerfinu, felist hvatning til kaupa á meira magni lyfja í einu, auk þess sem afslættir hafa ekki skilað sér til hins opinbera heldur einungis til sjúklinga. Nauðsynlegt er að gera afslætti sýnilega og tryggja að þeir skili sér í lægra lyfjaverði til greiðenda lyfsins, þ.e. bæði ríkis og sjúklinga. Jafnframt er mikilvægt að finna leið sem dregur úr sóun lyfja sem magnhvetjandi afsláttarkerfi ásamt greiðsluþátttökukerfinu hefur í för með sér.“

Markmiðið með að ná niður lyfjaverði með því að halda verði á lyfjum hinu sama um allt land ásamt markmiðunum um að halda lyfjakostnaði heilbrigðisstofnana í lágmarki með því að skylda heilbrigðisstofnanir til að setja upp lyfjalista sem ávísað er innan stofnunarinnar, eru til þess fallin að taka á þeim vanda sem ég lýsti hér með tilvitnun í lyfjastefnuna. Það er mjög mikilvægt að taka á afsláttarkerfi apótekanna þannig að afsláttur sé gagnsær og gildi um allt land og nái jafnt til hluta sjúklings og ríkisins. Við vitum að það kerfi sem nú er til staðar hvetur til þess að dýrari lyf eru valin og hvetur jafnframt til sóunar í kerfinu vegna þess að afgreiðsla á meira magni lyfja er jafnvel hagkvæmari fyrir sjúklinginn en aftur á móti leiðir það til þess að lyfjabúðin heldur eftir stærri hluta af verðinu jafnvel þótt hún gefi sjúklingnum fullan afslátt og sjúklingurinn þurfi ekki að borga neitt. Ríkið borgar því þessa sóun.

Það leiðir jafnframt hugann að því að fyrr í vikunni var frétt í dagblaði sem sagði að 5 tonnum af lyfjum væri skilað til apóteka til förgunar. Við þurfum ekki að velkjast í neinum vafa um að aðeins hluta af þeim lyfjum sem ekki eru nýtt er skilað til apótekanna. Það er mikið af lyfjum í skápum hjá fólki sem ekki er skilað heldur fargað með öðrum hætti og þetta er mikil sóun á fé.

Mig langar líka að rifja upp að í greinargerð með lyfjastefnunni er dregið fram að ef tekið er mið af athugunum sem gerðar hafa verið í Noregi á notkun lyfja og þær yfirfærðar á íslenskar aðstæður má telja að aukakostnaður íslenska heilbrigðiskerfisins vegna þess að sjúklingar fylgja ekki leiðbeiningum um notkun lyfja sé um 2,5 milljarðar kr. á ári en tölurnar frá Noregi eru 5 milljarðar norskra króna. Þetta er gríðarlega mikið magn og miklir peningar sem er sóað vegna þess að lyfin eru ekki notuð rétt og þá er ég ekki að tala um þau lyf sem skilað er til apótekanna. Það er mjög margt sem þarf að taka á og frumvarpið sem við erum með fyrir framan okkur er þess eðlis að hægt verður að taka enn fastar á en hingað til.

Í fimmta lagi er markmiðið að styrkja eftirlit og eftirfylgni með lyfjaávísunum og aukaverkunum lyfja með því að framlengja varðveislutíma gagna í lyfjagagnagrunni landlæknis úr þremur árum í 30 ár. Eru þessi tímamörk valin með hliðsjón af viðeigandi tilskipunum frá Evrópubandalaginu. Við höfum geysilega mikilvægan gagnagrunn sem við eigum að geta nýtt okkur enn betur til að stunda rannsóknir í lyfjamálum, til að setja okkur betri markmið um notkun lyfja og jafnframt að fylgja því eftir ef aukaverkanir koma fram síðars og að rekja þær o.s.frv.

Í sjötta lagi er markmiðið að einfalda stjórnsýsluna og til að ná því markmiði eru leyfisveitingar á sviði lyfjamála fluttar frá heilbrigðisráðuneyti til Lyfjastofnunar og er það í samræmi við stefnu heilbrigðisráðuneytisins um að einfalda stjórnsýsluna. Ég minni jafnframt á að nýverið afgreiddi hið háa Alþingi frumvarp um flutning á starfsleyfum heilbrigðisstétta, að útgáfa á starfsleyfum heilbrigðisstétta færist frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknis sem er vel.

Að öllu samanlögðu felur frumvarpið í sér að tekin eru mörg mikilvæg skref til bóta í lyfjamálum þjóðarinnar. Það gefur möguleika á að bæta nýtingu lyfja og minnka sóun. Það gefur möguleika á að lækka lyfjaverð í landinu enn frekar til hagsbóta fyrir alla aðila, ríkissjóð sem sjúklinga. Í því sambandi vil ég líka nefna að við höfum náð, eins og ég sagði áðan, töluverðum árangri í þeim efnum, m.a. höfum við náð því að verð frumlyfja er nálægt því sem það er á Norðurlöndunum eða í Danmörku og Svíþjóð. Það gefur möguleika á að bæta aðgengi að lyfjum til að minnka reykingar og auka tannvernd en hvort tveggja getur bætt heilsu. Það gefur möguleika á að bæta upplýsingar um íslensk lyfjamál og að einfalda stjórnsýslu lyfjamála á Íslandi.

Þegar upp er staðið er þetta frumvarp mjög til bóta hvað varðar lyfjamál á Íslandi og ég heyri ekki betur en að það hljóti góðar móttökur á hinu háa Alþingi. Þær athugasemdir sem hafa komið fram eru í þá veru að auðvelt er að skoða þær og komast að niðurstöðu. Ég vænti þess að heilbrigðisnefnd leggi góða vinnu í frumvarpið og afgreiði það þegar þar að kemur.