135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[14:54]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að með frumvarpi því sem hér er verið að leggja fram sé stigið mikilvægt skref fram á við í neytendamálum auk þess sem það er mikilvægt forvarnamál að heimilt sé að selja nikótínlyf sem ekki eru lyfseðilsskyld á sem flestum stöðum. Umræður um reykingar og bann við reykingum á opinberum stöðum hefur aukist til mikilla muna á undanförnum árum. Samhliða þeirri umræðu hefur mikill áróður verið um tóbaksvarnir og að auðvelda fólki sem reykir að hætta því. Slík umræða verður heldur hjáróma með þeim takmörkunum sem hér eru við lýði á aðgengi að lyfjum sem hjálpa fólki til að hætta að reykja.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir mælti fyrir þingsályktunartillögu á haustmánuðum um að veita heimild til að fjölga sölustöðum nikótínlyfja og var ég þar ásamt fleirum flutningsmaður með hv. þingmanni. Fagna ég því mjög að tekið skuli á þessu atriði í ágætu frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég tel að það sé mikilvægt og skipti miklu máli að fjölga sölustöðum nikótínlyfja þannig að þau verði raunverulegur valkostur í stað tóbaks. Við eigum að auðvelda reykingafólki að nálgast þau hjálparmeðul sem þarf til að hætta reykingum. Aðgengi að nikótínlyfjum er mjög misjafnt eins og sölumálum er nú háttað. Aðeins örfáar lyfjaverslanir eru opnar allan sólarhringinn og þá einna helst lyfjaverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Reykingafólk á landsbyggðinni býr oft við þær aðstæður að vegalengdir í næstu lyfjaverslun geta verið þó nokkrar en aftur á móti er mjög líklegt að styttra sé í næstu verslun sem verslar með tóbak. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu sem hér er til umræðu er verið að gera öllum landsmönnum auðveldara að nálgast þessi hjálparmeðul og vonandi verður það til þess að æ fleiri reykingamenn láti af reykingum. Öll gerum við okkur grein fyrir að reykingar hafa skaðleg áhrif á heilsu manna og sjúkdómar af völdum reykinga kosta þjóðarbúið mikla fjármuni. Þær breytingar sem hér um ræðir eru nauðsynleg forvörn í heilbrigðismálum.

Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að sala á flúorlyfjum sem ekki eru lyfseðilsskyld verði einnig leyfð í verslunum á sama hátt og á nikótínlyfjum. Í ljósi umræðu á síðustu missirum um tannheilsu Íslendinga og þá sérstaklega tannheilsu barna er ekki vanþörf á að auka einnig aðgengi almennings að flúorlyfjum og vonandi verður það til þess að auka notkun þeirra í forvarnaskyni gegn tannskemmdum.

Sú breyting sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins að leyfa póstverslun með lyf mun á margan hátt auka samkeppni og koma neytendum til góða. Eins og segir í frumvarpinu er það gert til að efla samkeppni og auka þjónustu við neytendur og allar breytingar sem lúta að því að auka þjónustu við neytendur og auka samkeppni eru af hinu góða. Ég held hins vegar að það sem kveðið er á um í 10. gr. frumvarpsins, að verð lyfseðilsskyldra lyfja skuli vera það sama um land allt, komi neytendum einna best. Eflaust er það besti kosturinn fyrir neytendur að geta farið í lyfjaverslun og keypt sín lyf á sama verði og aðrir hvar sem er á landinu. Það fyrirkomulag minnkar eflaust vægi póstverslunar á landsbyggðinni en er þó engu að síður mikilvæg leið fyrir landsbyggðarfólk ef á þarf að halda.

Afslættir lyfjaverslana eru oft og tíðum mikið torf sem erfitt er að greina og í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að afslættir leiða oft til ávísunar og afgreiðslu stærri skammta eða dýrari lyfja en þörf er á og virka sem inngönguhindrun fyrir nýja aðila sem vilja komast á lyfjamarkaðinn. Til að koma í veg fyrir mismunun er lagt til að sama verð gildi um land allt. Það atriði auðveldar nýjum lyfjafræðingum að koma inn á þennan markað sem hefur verið nær ómögulegt á undanförnum árum sökum þeirrar sterku stöðu sem lyfjakeðjurnar hafa. Með þessu móti er ákveðnum hindrunum rutt úr vegi fyrir nýja aðila og þeim gert kleift að keppa á þessum markaði á þeim forsendum að veita viðskiptavinum góða þjónustu og að afgreiða lyf á hagstæðum kjörum.

Virðulegi forseti. Það væri vissulega hægt að hafa mun fleiri orð um þetta ágæta frumvarp sem vonandi leiðir til þess að lyfjaverð lækkar og framboð ódýrari lyfja aukist og það náist með þessu sem að er stefnt að auka þjónustu við neytendur og einfalda stjórnsýslu lyfjamála.