135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[15:19]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvægur punktur sem hv. þm. Ásta Möller kemur inn á. Það er mjög mikilvægt að þeir sem um þetta mál fjalla séu meðvitaðir um það sem í frumvarpinu felst vegna þess að þarna er verið að heimila hluti sem stundaðir eru annars staðar í álfunni. Til þess að gæta fyllsta öryggis þarf að uppfylla þær faglegu kröfur sem við gerum almennt til lyfjaverslunar. Það er mjög mikilvægt að menn hafi það algjörlega á hreinu. Þannig er þetta lagt upp.

Segja má að ef þessi leið verður opnuð sé margt bendir til að þetta sé öruggari leið en sú hefðbundna verslun sem er í dag vegna þess að þeir sem eru innan Evrópska efnahagssvæðisins nú þegar þurfa að uppfylla þessi sömu skilyrði. Við gerum því að auki þær kröfur að sá sem ætlar að stunda póstverslun eða hafa milligöngu um póstverslun hér á landi þarf að uppfylla sams konar kröfur og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og hann er jafnframt ábyrgur.

Það er því gott að hv. þm. Ásta Möller skyldi vekja athygli á þessu af því að það er mjög mikilvægt að það sé algjörlega á hreinu. Hér er ekki með neinum hætti verið að veita afslátt af þeim faglegu kröfum sem við gerum almennt til lyfjaverslunar í landinu og höfum gert fram til þessa. Það er áríðandi að þau skilaboð komi skýrt fram.