135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[16:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegur forseti. Með lagafrumvarpi því sem hér hefur verið lagt fram er tekið nýtt skref í átt til breytinga á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli og umhverfi hans, breytingum sem hófust með brottför Bandaríkjamanna af varnarsvæðinu og skilum á svæðinu til íslenskra stjórnvalda.

Tilgangur frumvarpsins er að setja heildstæða löggjöf um rekstur Keflavíkurflugvallar sem einnar heildar sem rammar inn starfsemina og þjónustu við flugfélög og farþega. Af frumvarpinu leiða margháttaðar breytingar á yfirstjórn starfseminnar og þjónustu flugvallar og flugstöðvar sem ég er sannfærður um að verða til góðs. Gert er ráð fyrir að breytingarnar gangi í gegn á þessu ári og er ljóst að margir verða að leggjast á árarnar til að þær gangi hratt og örugglega fyrir sig.

Í upphafi er rétt að rifja stuttlega upp forsöguna. Þegar bandaríska varnarliðið hvarf á braut á haustmánuðum 2006 lýsti þáverandi ríkisstjórn því yfir að yfirstjórn málaflokka og stjórnsýsla á Keflavíkurflugvelli skyldi breytast til samræmis við það sem almennt tíðkast í landinu. Þetta þýddi að samgönguráðuneytið skyldi taka við ábyrgð á rekstri flugvallarins enda eðlilegt að öll flugstarfsemi landsmanna heyri undir eitt og sama stjórnvald. Eins og þingheimur þekkir hefur Keflavíkurflugvöllur heyrt undir utanríkisráðuneytið og þar hefur starfað sérstök flugmálastjórn til hliðar við Flugmálastjórn Íslands. Segja má að öll stjórnsýsla er varðar flugvöllinn hafi verið heldur þung í vöfum þar sem fleiri en eitt stjórnvald hafa komið þar að málum.

Ljóst er að brottför hersins og fyrirhugaðar breytingar opna fyrir ónýtt tækifæri til nýsköpunar í atvinnumálum. Hafa verður í huga að flugvöllurinn og nærsvæði hans eru með eitt stærsta ónýtta landsvæði í kringum alþjóðaflugvöll í Evrópu, þ.e. um 8.700 hektara lands. Flestir flugvellir í Evrópu eru þjakaðir af takmörkunum af því að vera í grennd við ört vaxandi þéttbýli sem hindrar frekari vöxt þeirra. Staðsetning Keflavíkurflugvallar á miðju Atlantshafi, mitt á milli Evrópu og Ameríku, með gnótt af landsvæði til uppbyggingar, harðduglegt og vinnufúst fólk í næstu byggðum og styrka innviði í flugbrautum, flugstöð og sérhæfðu starfsfólki, er einstök. Í þessu felast mörg tækifæri og flugvöllurinn hefur alla burði til að verða segull fyrir uppbyggingu og þróun nýrrar atvinnustarfsemi sem verði lyftistöng fyrir Suðurnesin og landið allt.

Ég sagði áðan að eðlilegt væri að flugmál landsmanna heyrðu undir eitt og sama stjórnvald. Við höfum eina flugmálastjórn og eitt opinbert fyrirtæki sem sér um flugvalla- og flugleiðsöguþjónustu. Engu að síður er valin sú leið, varðandi Keflavíkurflugvöll, að stofna sérstakt opinbert hlutafélag þar sem starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er sameinuð. Það er gert vegna sérstöðu þessa stærsta samgöngumannvirkis okkar í fluginu.

Á síðasta ári fóru rúmlega tvær milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll og um 60 þús. tonn af frakt og hefur starfsemin aukist jafnt og þétt síðustu ár. Íslensk sem erlend flugfélög hafa þar starfsstöðvar og nú er í sjónmáli að þróa á flugvallarsvæðinu fleiri tækifæri til þjónustu sem tengjast flugi og viðskiptum. Ég er sannfærður um að þegar við höfum gengið í gegnum þetta breytingaferli og nýtt skipulag tekið gildi munum við ná þeim markmiðum að gera stjórnsýsluna skilvirkari og þjónustuna hagkvæmari.

Í árslok 2006 tóku gildi lög sem kváðu á um skipan mála á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli til bráðabirgða. Varnarsvæðinu var skipt í þrjú svæði sem eru í fyrsta lagi flugvallarsvæðið, sem er starfssvæði Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og nefnt er svæði A, í öðru lagi öryggissvæði, sem heyrir undir utanríkisráðuneytið og er ætlað til varnarstarfa og kallað er svæði B og í þriðja lagi svæði C, sem er starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

Meðal ákvæða áðurnefndra laga var að utanríkisráðherra skyldi, að höfðu samráði við samgönguráðherra, skipa fimm manna nefnd sérfræðinga til að undirbúa snurðulausa færslu á stjórn og rekstri Keflavíkurflugvallar til samgönguyfirvalda. Þetta gekk eftir og skilaði nefndin skýrslu í febrúar 2007 með tillögum um yfirfærsluna. Ríkisstjórnin skipaði í ágúst 2007 starfshóp sem falið var að undirbúa löggjöf um Keflavíkurflugvöll og skyldi hann hafa til hliðsjónar tillögur áðurgreindrar nefndar um flutning málefna flugvallarins til samgönguráðuneytis og tillögur Price Waterhouse Coopers um atvinnuþróun á svæðinu.

Segja má að starfshópurinn hafi einkum haft tvennt að leiðarljósi við umfjöllun sína um löggjöf um flugvöllinn. Annars vegar að hann geti sem best þjónað til frambúðar borgaralegu millilandaflugi og hins vegar að skapaðar séu forsendur til að nýta tækifæri til atvinnuþróunar í nágrenni flugvallarins. Var ekki síst talið mikilvægt að tengja saman ólíka hagsmuni og tryggja samræmi í skipulagsmálum á svæðinu öllu.

Í stuttu máli eru meginatriði frumvarpsins þau að sameina á rekstur Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. í opinbert hlutafélag í eigu ríkisins; að sett verði á fót skipulagsnefnd flugvallarsvæðisins og að í henni sitji fulltrúar sveitarfélaga og samgönguráðuneytis. Gert er ráð fyrir áframhaldandi yfirstjórn utanríkisráðherra í skipulags- og mannvirkjamálum á öryggissvæðinu. Auk þessara atriða sem lagasetningin sjálf skal ná til leggur starfshópurinn til að leitað verði leiða til að skapa til frambúðar samstarfsvettvang ríkis og sveitarfélaga um þróun og atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Hugað verði að þessu atriði í sambandi við umbreytingu á Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. með beinni eignaraðild sveitarfélaga og aðkomu hins nýja flugvallarfélags.

Ég mun nú gera nánari grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins.

Samgönguráðherra er með samþykkt laganna heimilað að stofna opinbert hlutafélag um rekstur flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að félagið verði allt í eigu ríkisins og að sala þess verði óheimil. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fari samgönguráðherra með hlut ríkisins í félaginu. Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara.

Félaginu verður skylt samkvæmt bráðabirgðaákvæði að bjóða starfsmönnum Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. störf. Heimilt verður að undanskilja starfsmenn flugleiðsöguþjónustu Flugmálastjórnar þar sem heimilað verður að flytja þann þátt starfseminnar til Flugstoða ohf. Verði sú heimild nýtt ber Flugstoðum ohf. að bjóða þeim störf.

Af þessu sést að lögð verður áhersla á það að tryggja réttindi starfsmanna við breytinguna og fer réttarstaða þeirra á tímamótum sem þessum eftir starfsmannalögum og aðilaskiptalögum, svo sem verið hefur í hliðstæðum tilvikum. Starfsmannalögin skipta máli hvað varðar hugsanleg réttindi núverandi starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar en taka ekki til starfsmanna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem þegar eru starfandi hjá hlutafélagi, þar sem þeir teljast ekki ríkisstarfsmenn.

Aðilaskiptalögin hafa þá þýðingu að aðilaskipti ein og sér geta ekki verið ástæða uppsagna. Þær geta aðeins orðið ef efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður hafi í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækisins. Réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi færast til hins nýja félags og virða skal áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi þar til hann rennur út eða nýr samningur tekur við.

Í ákvæði til bráðabirgða er fjallað um framkvæmdina við stofnun félagsins, m.a. að fyrir 1. júní skuli skipuð fimm manna stjórn sem starfi fram að fyrsta aðalfundi, að ríkissjóður leggi félaginu til eignir og skuldir Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. Einnig mun fjármálaráðherra gera lóðarleigusamning við félagið um það land flugvallarsvæðisins sem félagið fær til afnota vegna rekstursins.

Félaginu er ætlað að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallar og reksturs flugstöðvarinnar og starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar. Félaginu verður einnig heimilað að gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum, þar með talið er þátttaka í félagi sem ætlað er að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæði flugvallarins, og gera samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.

Ég vil staldra sérstaklega við þau atriði í 4. gr. frumvarpsins þar sem talað er um aðkomu félagsins að annarri starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar og aðra atvinnuuppbyggingu á nærsvæði flugvallarins.

Hér kemur fram sú áherslubreyting að tilgangur félagsins skuli aðallega vera sá að sinna starfsemi sem tengist beint flugrekstri, flugvallarekstri og rekstri flugstöðvar og annarri starfsemi sem tengist haftasvæði flugverndar en þar er fyrst og fremst átt við svæðið innan girðingar. Jafnframt er félaginu heimilt að semja við aðra aðila sem vilja hugsanlega ráðast í atvinnuuppbyggingu í næsta nágrenni flugvallarins eða gerast eignaraðili í félögum sem sinna mundu slíkum verkefnum.

Virðulegi forseti. Samgönguráðherra er heimilað að fela félaginu að fara með réttindi og alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins enda samræmist slíkt tilgangi félagsins. Er félaginu skylt að fara að fyrirmælum stjórnvalda varðandi framkvæmd og efndir slíkra þjóðréttarlegra skuldbindinga.

Þá er félaginu er skylt að virða og standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands á sviði varnar- og öryggismála varðandi flugvallarsvæðið og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tekið er fram að utanríkisráðherra geti beint fyrirmælum til félagsins varðandi framkvæmd og efndir slíkra þjóðréttarlegra skuldbindinga.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að félagið setji sér þjónustugjaldskrá og samþykkt um innheimtu gatnagerðargjalda. Ber félaginu að auglýsa gjaldskrár á heimasíðu sinni og birta þar einnig uppfærðar útgáfur.

Skipulagsmál innan flugvallarsvæðisins munu áfram njóta nokkurrar sérstöðu. Gert er ráð fyrir að sex manna skipulagsnefnd annist skipulagsmál. Sveitarfélögin þrjú, sem land eiga að flugvallarsvæðinu, Garður, Reykjanesbær og Sandgerði, tilnefna hvert um sig einn fulltrúa í nefndina, umhverfisráðherra einn og Skipulagsstofnun einn. Einn skipar samgönguráðherra án tilnefningar.

Félagið mun annast gerð deili- og aðalskipulagstillagna fyrir flugvallarsvæðið og leggja fyrir nefndina til afgreiðslu. Gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á öryggissvæðinu. Þá er gert ráð fyrir að skipulagsnefndin geti tekið þátt í gerð svæðisskipulags með nærliggjandi sveitarfélögum, Grindavík og Vogum, auk hinna þriggja sem aðild eiga að nefndinni, í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Sama gildir um utanríkisráðherra varðandi öryggissvæðið. Ætlast er til að félagið annist lóðaúthlutun og innheimtu lóðarleigugjalda á flugvallarsvæðinu í samræmi við það sem verið hefur.

Gert er ráð fyrir að félagið hefji starfsemi 1. júní á þessu ári og yfirtaki þá rekstur flugvallarsvæðisins og flugstöðvarinnar. Frá þeim tíma falli jafnframt úr gildi lög um starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. og miðað er við að lög um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, nr. 34/2006, og um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nr. 76/2000, með síðari breytingum, falli úr gildi frá og með sama tíma.

Lögunum er ætlað að taka þegar gildi þannig að ráðrúm gefist til að búa félagið undir að taka við flugvallar- og flugstöðvarrekstrinum. Jafnframt er kveðið á um breytingar á öðrum lögum sem einnig er ætlað að öðlast þegar gildi. Þar á meðal er breyting á skipulags- og byggingarlögum varðandi skipulagsvald á Keflavíkurflugvelli.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir helstu þætti í lagafrumvarpinu og tel að með samþykkt þess muni öllum málum Keflavíkurflugvallar verða vel borgið. Hið nýja lagaumhverfi setur ramma um endurnýjaðan þrótt í flugstarfsemi og flugtengdri starfsemi á Keflavíkurflugvelli og nágrenni. Með því er rennt styrkari stoðum undir atvinnulífið á þessu landsvæði og opnað fyrir margs konar þróun og nýsköpun til hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umræðu og meðferðar virðulegrar samgöngunefndar.