135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[16:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst svona aðeins söguleg upprifjun. Þegar Flugstoðir ohf. voru settar á laggirnar var það umdeilt mál. Þótt ég væri ekki sáttur við niðurstöðuna var ferlið langt og aðkoma aðskiljanlegra aðila heimiluð.

Þetta var gagnrýnt á þingi og mér leikur forvitni á að vita hvort núverandi hæstv. samgönguráðherra rámi í ummæli og afstöðu þáverandi hv. þm. Kristjáns Möllers sem taldi of hratt farið í sakirnar — við getum flett þessu upp í minnihlutaáliti frá þessum tíma. Er þó miklu hraðar farið í þessu efni og stéttarfélögunum ekki veittur möguleiki til aðkomu að málinu. Á sínum tíma var nefnd sem setti fram fjóra valkosti til að velja á milli og þeir voru allir ræddir á milli aðila. Upp á slíkt er ekki boðið nú.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra. Er það rétt skilið hjá mér að samgönguráðherra einn skipi menn í stjórn fyrirtækisins?

Síðan vil ég spyrja hvernig háttað verður skipulagi öryggismála og þá horfi ég sérstaklega til slökkviliðsins og annarra slíkra þátta af stjórnsýslulegum toga. Eru þau mál frágengin? Með hvaða hætti eru þau þá frágengin?

Ég er með fleiri spurningar sem ég vil gjarnan beina til hæstv. ráðherra á eftir og mun að sjálfsögðu gera það nánar í máli mínu síðar en við skulum byrja með þessar spurningar.