135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[16:21]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú verð ég bara að spyrja hv. þingmann og hann verður að koma að því betur í ræðu sinni hvað hann á við þegar hann spyr um slökkviliðið. Ég get ekki ímyndað mér annað en að það verði bara allt í lagi með slökkviliðið eins og verið hefur hingað til. (Gripið fram í.) Hlutafélag. Það verður í starfseminni að sjálfsögðu.

Við höfum átt tvo fundi eftir að Keflavíkurflugvöllur var kominn til samgönguráðuneytisins, þar á meðal þennan fjölmenna fund í gær. Ég tók það skýrt fram þar og skal endurtaka það vegna þess að ég held að hv. þingmaður hafi ekki tekið eftir því: Við í samgönguráðuneytinu munum vinna þetta eins vel og við getum í fullri samvinnu og sátt við það fólk sem þarna vinnur og ég hef óskað eftir liðsinni þess og hjálp við það verkefni sem fram undan er vegna þess að við eigum eftir að útfæra ýmis atriði. Það er sannarlega rétt. Ég hef ekki heyrt annað en að það hafi bara fallið í ágætan jarðveg hjá starfsfólkinu og að það bíði eftir því að fá að taka þátt í þessu með okkur.

Ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um að best sé að gera þetta í sem mestri sátt og samvinnu og fá þá þekkingu sem starfsfólkið hefur í þessu umbreytingarferli sem fram undan er. Ég er þess fullviss að fólkið sem við ræddum við tekur þátt í því og er mjög spennt fyrir þessari breytingu.