135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[16:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég spyr nú bara: Er boðlegt að leggja hér fram stjórnarfrumvarp þegar mörg veigamikil mál eru einfaldlega ófrágengin? Hæstv. ráðherra lauk máli sínu áðan með því að lýsa því yfir að öllu yrði og væri vel fyrir komið. Síðan kemur í ljós að það á eftir að ráða þessum málum til lykta en að leitað verði aðstoðar og hjálpar hjá starfsmönnum.

Hvers vegna var ekki leitað eftir sjónarmiðum þeirra á fyrri stigum þessa máls? Ég vísa aftur í ferlið þegar Flugstoðir ohf. voru settar á laggirnar. Ég ítreka að ég var ekki sáttur við þá niðurstöðu.

Það var langt ferli en stéttarfélögin fengu þó aðkomu að umræðunni. Settir voru fram fjórir valkostir og þeir voru ræddir. Valinn var kostur sem þau voru ekki sátt við. En málin voru rædd áður en frumvarpið var sett fram. Á þessu er að sjálfsögðu grundvallarmunur. Það gengur ekki að vinna mál af þessu tagi á handarbakinu á sér.

Núna í upphafi umræðunnar kemur í ljós að hér er allt upp í loft. Enginn veit hvert fyrirkomulagið verður. Það verður leitað aðstoðar hjá starfsfólkinu.

Væri nú ekki ráð að flýta sér aðeins hægar, að efna til þessa samráðs og að því loknu að leggja fram frumvarp í nafni ríkisstjórnar Íslands? Væru það ekki eðlilegri vinnubrögð? Ég bara spyr.

Síðan hefur komið fram að samgönguráðherra kemur til með að skipa einn í stjórn þessa mikla fyrirtækis. Hann einn á að gera það. Finnst mönnum þetta vera mjög skynsamlegt um stærstu flughöfn landsins sem snertir öryggi okkar, samgöngur okkar og ýmsa þætti? Er ekki eðlilegt að málið lúti almennri stjórnsýslu og þeim lögum og reglum sem hafa verið smíðuð í tengslum við það þannig að það sé gagnsætt, þannig að það sé lýðræðislegt?

Hins vegar hef ég tekið eftir því hvernig Samfylkingin hagar sér í þessum efnum. Það vakti athygli okkar margra í sumar, ég held bara landsmanna almennt, þegar hæstv. núverandi utanríkisráðherra skipti út mönnum í Leifsstöð. Þetta var gert í lok júnímánaðar. Það er athyglisvert að hugleiða röksemdirnar sem fram voru reiddar og skulum við aðeins hverfa aftur í tímann.

Þegar Leifsstöð var gerð að hlutafélagi voru rökin þau að færa ætti þessa starfsemi inn í viðskiptaumhverfið. Hinu opinbera, löggjafanum, bæri að setja hinar almennu reglur. Síðan ætti fyrirtækið að starfa sjálfstætt. Þetta var hugsunin, pólitíkin ætti ekki að hafa puttana þar. Þetta var okkur sagt en hvað gerist síðan? Þegar ný ríkisstjórn komst til valda var skipt út í stjórninni og skipaðir í staðinn tveir fyrrverandi þingmenn Samfylkingarinnar.

Hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kom fram í sjónvarpsþætti þar sem hún sagði að að sínu mati væri þetta fullkomlega eðlileg ráðstöfun og ég ætla að vitna í hæstv. utanríkisráðherra:

Þetta er pólitísk stjórn. Þetta er fyrirtæki, það er skipað pólitískt í stjórnina. Þar voru í stjórninni, vegna þess að það heyrði undir utanríkisráðuneytið, þrír framsóknarmenn og tveir sjálfstæðismenn. Ég hafði enga aðkomu að stjórn flugstöðvarinnar og vissi ekki um það sem þar væri verið að véla um og taldi ég fullkomlega eðlilegt að þar sætu einstaklingar sem ég væri í beinu sambandi við og ég treysti.

Treysti til hvers? Að segja satt og rétt frá eða að vera framlenging á pólitísku valdi? Gengur þetta ekki þvert á þá hugsun sem boðuð var, að löggjafinn ætti að setja hinar almennu reglur og síðan færi fyrirtækið sínu fram á faglega vísu? Ég hefði aldrei keypt þessa hugmyndafræði sjálfur en þannig var hún sett fram. Ef mönnum er einhver alvara að smíða slíkt fyrirkomulag þá á að sjálfsögðu að fylgja grunnprinsippunum. Það var ekki gert.

Þetta rifjaði ég upp í ljósi þess að hér hefur verið staðfest að einn ráðherra kemur til með að ráða alla í stjórnina. Það er væntanlega gert samkvæmt þessari formúleringu Samfylkingarinnar um að ráðherrann eigi að vera í kallfæri við stjórnina. Þar eigi að sitja einhverjir sem hann getur treyst. Hvers konar afturhvarf til fortíðar er þetta? Og ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er tilgangurinn með þessari breytingu, að taka þetta út úr almennri stjórnsýslu og færa í fornfálegt far þar sem ráðherrann einn á að geta vélað og ráðskast með þessa starfsemi? Hvers konar rugl er þetta?

Síðan þegar rætt er hvernig háttað verður öryggisþáttum þá spyr ég og ráðherrann upplýsir hér áðan að slökkviliðið verði að sjálfsögðu inni í þessari starfsemi. Ég heyrði ekki betur. Samræmist það lögum um brunavarnir, 16. gr. þeirra laga þar sem kveðið er á um þau völd sem slökkviliðið hefur og slökkviliðsstjórar? Þar er kveðið á um að þeir hafi umtalsverð völd ef til alvarlegra tíðinda dregur. Þar eru umtalsverð völd og þeim völdum er iðulega beitt ef í nauðir rekur. Þeir hafa vald til þess að ryðja svæði í bæjum og borgum svo dæmi sé tekið. Ég ætla að lesa þessa grein, með leyfi forseta:

„Slökkviliðsstjóri hefur eftirlit með því í sínu umdæmi að farið sé eftir lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Hann hefur umsjón með öllum tækjum slökkviliðs og eftirlit með virkni brunahana í umdæminu í samráði við rekstraraðila viðkomandi vatnsveitu. Slökkviliðsstjóri stjórnar slökkvistarfi við eldsvoða og hefur stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi. Við þessi störf er löggæslulið og opinberir eftirlitsaðilar undir yfirstjórn slökkviliðsstjóra. Lögregla sér slökkviliði fyrir greiðum aðgangi að vettvangsstað, stöðvar umferð um nærliggjandi götur, girðir af svæði sem slökkvilið þarf til að gegna störfum sínum, verndar brunarústir“ o.s.frv.

Síðan er fjallað áfram um boðleiðir inn í kerfið til heilbrigðiseftirlits og annarra aðila í stjórnsýslunni. Svo kemur fram að hæstv. ráðherra er ekki búinn að ráða til lykta hvernig farið verði með þessi mál. Hvernig væri nú að byrja á því og koma síðan með frumvarp og bjóða okkur ekki upp á vinnubrögð af þessu tagi?

Af þessu tilefni vísa ég líka til 9. gr. laga. Þar er fjallað um ýmsar heimildir og skyldur sveitarfélags á svæðinu. Er búið að ráða þeim málum til lykta? Ég bara spyr. Fyrst hitt er enn í upplausn og ólestri, liggur það þá ljóst fyrir hvernig þeim málum verður hagað?

Hvað er að segja um tekjuhliðina? Er alveg frágengið hvernig henni verður háttað? Renna allar tekjur, fluggjöld og annað slíkt til þessarar starfsemi? Hvernig verður með eignirnar og þann hluta sem hefur heyrt undir varnastarfsemina?

Af því að nú líður að því að tími minn sé uppurinn þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu? Hvað er það sem hann ætlar að ná fram með þessum lagabreytingum? Þarf hann ekki að geta fært rök fyrir því? Það er margt sem gengur gegn því að ráðast í þessar breytingar, t.d. út frá hagsmunum almennings sem vill að þessi starfsemi sé gagnsæ, að um hana gildi skýrar reglur, stjórnsýslureglur, reglugerðarverk sem við höfum verið að koma okkur upp í tímans rás til þess að tryggja hagsmuni almennings. Þarf ekki hæstv. ráðherra að færa rök fyrir þessari ráðstöfun sinni? (Gripið fram í.)

Við sameinuðumst um það á síðasta þingi að krefjast þess að farið yrði hægt í sakirnar. Við vorum andvíg því, held ég, bæði Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin, að gera Flugstoðir að hlutafélagi og þar var núv. hæstv. ráðherra og þáverandi hv. þingmaður á sama máli og ég, eftir því sem man best.

Eitt vil ég segja að lokum, hæstv. forseti: Um þetta mál eiga eftir að fara miklar viðræður og umræður. Ég krefst þess að málinu verði frestað, að leitað verði eftir samkomulagi við stéttarfélögin um málefni sem þau snertir og að ekki verði komið með þetta mál aftur inn í þingið fyrr en allir óhnýttir endar í þessu máli hafa verið hnýttir.

Ég hygg að hér sé talsverð samstaða um þetta mál. Ég minnist þess að Framsóknarflokkurinn var andvígur því á sínum tíma að þessi starfsemi yrði öll gerð að hlutafélagi. Ég hygg því að það sé breið pólitísk samstaða um að fara hægt í sakirnar ef hæstv. ráðherra reynir að dusta svolítið rykið af eigin ummælum og eigin afstöðu í fyrri málum þessu tengdu.