135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[16:43]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Til umræðu er frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar. Það hefur legið fyrir í þó nokkurn tíma að þess væri að vænta að frumvarp kæmi fram þar sem þessar breytingar yrðu boðaðar, þ.e. að rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar yrði sameinaður í eitt félag.

Á stórum vinnustað eins og Flugstöð Leifs Eiríkssonar er aldrei gott að það dragist á langinn að breytingar sem þessar líti dagsins ljós. Hjá því verður ekki komist að starfsfólk fari fljótt að verða uggandi um sinn hag. Með frumvarpinu er óvissu eytt meðal starfsmanna og annarra þeirra sem málið varðar. Ég er ánægð að heyra það hér hjá hæstv. samgönguráðherra að hann hefur nú þegar haldið fund með starfsmönnum um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru.

Í frumvarpinu er skýrt kveðið á um að allir núverandi starfsmenn þeirra tveggja félaga sem um ræðir fá vinnu hjá nýju félagi eða Flugstoðum. Með því er tryggt að sá mannauður og sú reynsla sem safnast hefur upp á undanförnum árum haldist hjá nýju félagi. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að starfsmönnum Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar séu tryggð réttindi sín hjá hinu nýja félagi.

Sú leið sem hér er lagt til að verði farin, með stofnun sérstaks félags um rekstur Keflavíkurflugvallar, er sambærileg og farin hefur verið við flesta alþjóðaflugvelli í nágrannalöndum okkar. Í tillögu starfshóps um málefni Keflavíkurflugvallar, eins og kom reyndar fram hjá hæstv. samgönguráðherra áðan, er tekið fram að það er einkum tvennt sem hefur verið haft í huga varðandi löggjöf um Keflavíkurflugvöll. Í fyrsta lagi að flugvöllurinn geti til frambúðar þjónað sem best borgaralegu millilandaflugi og í öðru lagi séu forsendur skapaðar til að nýta tækifæri til atvinnuþróunar í nágrenni flugvallarins. Það er mjög mikilvægt til að flugstöðin sjálf eflist og stækki á næstu árum, að hið nýja félag taki þátt í að skapa tækifæri til atvinnuþróunar á nærsvæði flugvallarins með sama hætti eða í samvinnu við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar sem hefur það m.a. sem markaðssetningu á sínu svæði að vera í mikilli nálægð við alþjóðaflugvöll. Þá bendi ég á að í tillögum starfshópsins er lagt til að leitað verði leiða til að skapa til frambúðar samstarfsvettvang ríkis og sveitarfélaga um þróun á atvinnuuppbyggingu. Samstarf með þessum hætti er til þess fallið að efla svæðið enn frekar.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið rekin sem sjálfbært hlutafélag í eigu ríkisins og skilað hagnaði í ríkissjóð. Hér er lögð áhersla á að hið nýja félag geti orðið sjálfbært til framtíðar litið og að tekjur félagsins nýtist í uppbyggingu og rekstur flugvallarins. Viðhald flughlaða og flugbrauta hefur hins vegar ekki verið nægjanlegt og þarf á næstu árum að ráðast í dýrar framkvæmdir og tækjakaup sem verður nýju félagi eflaust erfitt að ráðast í nema til komi aðstoð úr ríkissjóði. Fjölgun farþega um flugstöðina hefur kallað á miklar fjárfestingar vegna stækkunar en nú fara rúmlega tvær milljónir farþega um flugstöðina á ári. Allar spár gera ráð fyrir að fjölgun haldi áfram og þess má geta að það sem af er þessu ári er fjölgun farþega meiri en gert var ráð fyrir.

Rekstur Keflavíkurflugvallar er frábrugðinn rekstri annarra flugvalla á landinu. Alþjóðaflugvöllur þarf að uppfylla kröfur sem gerðar eru til millilandaflugs og þarf Keflavíkurflugvöllur að uppfylla ströngustu öryggiskröfur, bæði frá Bandaríkjunum og frá Evrópu. Þá gerir Schengen-samstarfið miklar kröfur um strangt landamæraeftirlit umhverfis Schengen-löndin, um eftirlit með þeim sem koma inn á svæðið og þeim sem fara út af því aftur. Umsvif alþjóðaflugvallar eru mikil eins og af þessu má sjá. Allar þessar kröfur kalla á samræmt skipulag starfseminnar í flugstöðinni og sérhæfingu þar sem starfsemin í flugstöðinni er á forræði margra aðila.

Í 8. gr. er fjallað um skipulagsmál Keflavíkurflugvallar. Hér er mælt með áframhaldandi sérfyrirkomulagi í skipulagsmálum en þó er tekið tillit til sérstöðu Garðs, Sandgerðis og Reykjanesbæjar og munu þau sveitarfélög skipa einn fulltrúa hvert í skipulagsnefnd sem er mjög mikilvægt til að tryggja skipulagsheild á svæðinu.

Miklar breytingar urðu á þessu svæði við brotthvarf varnarliðsins sem kallaði á algjörlega nýja sýn á skipulag svæðisins og markaðssetningu. Dæmi frá alþjóðaflugvöllum í Evrópu og Ameríku sýna að flugvellir eru gríðarlegt aðdráttarafl fyrir alþjóðleg fyrirtæki. Talið er að sameiginlegt skipulag flugvallar, atvinnu- og íbúðarsvæðis umhverfis alþjóðaflugvöll sé afar mikilvægt atriði í markaðssetningunni. Það er því enn mikilvægara að sveitarfélögin þrjú eigi sæti í skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. Mér finnst jafnvel ástæða til að skoða hvort fulltrúar Voga og Grindavíkur ættu ekki að koma að skipulagsnefndinni þó síðar verði þar sem áhrifasvæði flugvallar er talið vera 30 mínútna akstursleið. Tækifærin í markaðssetningu og nýrri atvinnustarfsemi eru mikil ef rétt er að farið. Að hafa fyrirtæki nærri flugvelli þar sem flugtíminn til nærliggjandi stórborga er ekki lengri en nú er er síður en svo heftandi fyrir fyrirtæki og jafnvel að það sé orðinn kostur.

Virðulegi forseti. Hvað varðar markaðssetningu á Keflavíkurflugvelli er ljóst að það að eitt félag eða fyrirtæki haldi um rekstur allrar starfsemi hans auðveldar samræmda markaðsstefnu og gjaldtöku fyrir þjónustuna sem veitt er. Þá gefur aukið vægi það ákvæði laganna að félaginu sé heimilt að taka þátt í þróunarstarfi tengdu svæðinu og starfseminni þar, bæði fyrir sveitarfélögin á starfssvæði hans og samfélagið í heild. Ég tel frumvarpið mjög þýðingarmikið til að efla flugstöðina og starfsemi sem tengist henni. Á heildina litið lít ég á þetta sem mjög gott frumvarp. Að mínu mati er um gríðarlega stórt mál að ræða, ekki aðeins fyrir Suðurnesin heldur þjóðfélagið í heild.