135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[16:51]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að blanda mér stuttlega í umræður um frumvarp hæstv. samgönguráðherra um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar. Gríðarlegar breytingar hafa orðið á umhverfi Keflavíkurflugvallar með brotthvarfi varnarliðsins, þar er ekki síst mikilvægt að Keflavíkurflugvöllur hefur verið færður frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis. Þar með eru öll flugmál í landinu á forræði samgönguráðuneytis sem ég tel mjög ánægjulega þróun.

Með þessu frumvarpi er lögð til setning heildstæðrar löggjafar um rekstur Keflavíkurflugvallar. Lagt er til að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. verði sameinuð í eitt opinbert rekstrarfélag. Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er ekki heimilt að selja hlutafé íslenska ríkisins. Félagið á að sjá um rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Vegna stöðu flugvallarins sem varnar- og öryggissvæðis er félaginu skylt að virða og standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands á sviði varnar- og öryggismála og er því sérstaklega tekið fram í frumvarpinu að utanríkisráðherra geti beint fyrirmælum til félagsins vegna slíkra efnda. Ég held að hér sé um mjög eðlilegan farveg að ræða hvað þetta mál snertir.

Miklar breytingar eru í gangi á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Ég held að fáa hafi órað fyrir þeim möguleikum sem eru fyrir hendi þar, ekki síst þegar mótmælin gegn veru hersins stóðu sem hæst. Skemmst er líka að minnast þess hvað áhyggjur margra voru miklar um hvernig fara skyldi með varnarsvæðið við brotthvarf hersins. Nú blasa tækifærin við og vonandi spilast vel úr þeim okkur öllum til hagsbóta. Það er í sjálfu sér mjög ánægjuleg þróun. Ég held að það komi okkur flestum hverjum mjög á óvart hve mikil verðmæti hafa skapast þar á ýmsum sviðum.

Í mínum huga er þetta frumvarp mikilvægt skref í þá átt að þróa starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Mér dettur þó ekki í hug að þar með sé öllum verkefnum lokið, eins og sumir hafa viljað gefa í skyn, heldur eru þar stigin skref sem nauðsynleg eru til þróunar

Ég get hins vegar ekki dregið dul á að ég hefði gjarnan viljað sjá möguleika til að hleypa einkaaðilum að rekstri verslunar með tollfrjálsan varning á flugvellinum. Ég get svo sem líka skilið hvers vegna svo er ekki en ég vil engu síður taka fram að það hefði verið áhugavert að skoða þann möguleika. En vegna þess að svo varð ekki hefði mér þótt gaman að sjá í greinargerðinni frekar rætt um þann þátt málsins í athugasemdum við 1. gr. Hins vegar er ég er viss um að það verður rætt í samgöngunefnd þegar málið kemur til umfjöllunar þar á vordögum.

Almennt vil ég segja að mér finnst þetta frumvarp gott og ákvæði þess skýr. Eitt atriði hefði ég viljað nefna og fá að heyra sjónarmið hæstv. samgönguráðherra til, þ.e. til 4. gr., þ.e. sér í lagi ákvæðis 2. mgr. 4. gr. sem kveður á um að félaginu sé heimilt að standa að stofnun annarra félaga og þátttöku í félögum sem er ætluð til að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæði flugvallarins.

Ég vil taka fram að í ágætri greinargerð með þessu frumvarpi er mjög gagnlegt hvernig farið er yfir aðdraganda málsins frá nefnd sem hafði málið til meðferðar og þessar tillögur eru reistar á. Það kemur fram í athugasemdum við 4. gr. að heimild um atvinnuþátttöku sé sambærileg við ákvæði 1. gr. laga nr. 102/2006 sem fjallar um Flugstoðir og tekur mið af niðurstöðum og tillögum þessa starfshóps sem ég vitnaði áður til og eru reifaðar í III. kafla almennra athugasemda. Auðvitað geta verið ýmis rök fyrir því að félag af þessu tagi stuðli að atvinnuuppbyggingu á svæðinu en engu að síður væri fróðlegt að heyra nánar um það hver þau eru. Það er dálítið óvenjulegt að félagi sé ætlað að ganga beint að atvinnuþátttöku þótt um sé að ræða alþjóðlegan flugvöll. Ég átta mig á því að alþjóðaflugvöllur hefur sérstaka stöðu í landinu. En eins og við hæstv. samgönguráðherra vitum eru fleiri góðir flugvellir í landinu og þetta vekur spurningar um stöðuna. Það væri fróðlegt að fá fram sjónarmið ráðherrans hvað þetta varðar. Að öðru leyti býst ég við því að samgöngunefnd muni fjalla um þennan þátt málsins.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég veit að umræður eiga eftir að verða töluverðar um þetta mál á þinginu. Við heyrðum á ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar að hann hefur miklar athugasemdir við þetta mál. Ég held að ótti hans sé fullmikill við málið en við skulum sjá. Ég held að menn séu ekki að sporðreisa öllu með þessu frumvarpi nema síður sé heldur er verið að koma ákveðnu skipulagi á ferlið á flugvellinum.

Þetta mál mun núna fara til umræðu í samgöngunefnd og áfram í þinginu. Ég veit að málið mun fá mjög vandaða umfjöllun á vettvangi nefndarinnar og eins í þinginu. Ég vil bara ítreka að þetta frumvarp er að mínu áliti mikilvægur hlekkur í þeim breytingum sem eru að verða á Keflavíkurflugvelli. Ég vænti þess að það muni verða okkur til góðs þegar niðurstaðan liggur fyrir.