135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ummæli forsætisráðherra á aðalfundi Seðlabankans.

[15:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir ummælum sem hann viðhafði á aðalfundi Seðlabankans nú á dögunum um að til skoðunar ætti að taka að gera óháða úttekt á virkni peningamálastefnunnar og tækja Seðlabankans í þeim efnum. Um þetta atriði hafði hæstv. forsætisráðherra m.a. eftirfarandi orð og ég styðst við prentaða útgáfu ræðunnar eins og hún kemur fyrir á heimasíðu forsætisráðuneytisins þó að þar sé vissulega tekið fram að talað orð gildi. Ég var erlendis og átti ekki kost á að sækja fundinn þannig að ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra vék orðum sínum eitthvað öðruvísi að þessu en þarna er í hinum prentaða texta en hann stendur alla vega óhaggaður á heimasíðu ráðuneytisins en, með leyfi forseta, sagði forsætisráðherra:

„Senn verður tímabært að gera fræðilega úttekt á þessu viðfangsefni í góðu samstarfi við Seðlabankann því það er nauðsynlegt að svara þeim spurningum sem upp hafa komið, meta reynsluna af framkvæmd seðlabankalaganna frá 2001 og hvort allar þær viðmiðanir sem stuðst er við séu þær heppilegustu til framtíðar litið. Til slíks verks þarf, þegar þar að kemur, að fá hæfustu sérfræðinga, erlenda og innlenda“ o.s.frv.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað felst í orðunum „senn verður tímabært“ og í orðunum „til slíks verks þarf, þegar þar að kemur“ í aðeins afmarkaðri tíma talað? Er hæstv. forsætisráðherra að tala um að þetta verði undirbúið í nokkra mánuði eða missiri og svo fari þessi könnun af stað eða hefur hann hugsanlega orðið fyrir einhverjum áhrifum m.a. af hvatningarorðum leiðarahöfundar Morgunblaðsins að það sé ekki eftir neinu að bíða?

Ég vil einnig spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna að takmarka þessa úttekt þröngt við peningamálastefnu Seðlabankans og tæki Seðlabankans? Af hverju ekki að hafa þetta úttekt á hagstjórninni og efnahagsmálunum og efnahagsstefnunni í heild sinni þannig að verk ríkisstjórnar, aðgerðir og aðgerðaleysi, verði einnig tekið til skoðunar?