135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ummæli forsætisráðherra á aðalfundi Seðlabankans.

[15:12]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta var alveg rétt upp lesið hjá hv. þingmanni, nákvæmlega orðrétt eftir haft. Hugsunin á bak við þessi ummæli er sú að hér á landi hafa á undanförnum missirum verið háværar umræður um það hvort peningamálastefnan hjá Seðlabankanum hafi verið í réttum farvegi eða hvort hún væri hugsanlega komin í öngstræti og hvort öll þau tæki sem hugsanlega kynnu að vera tiltæk séu í vopnabúri bankans við núverandi aðstæður. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, vænti ég, að um þetta hefur verið deilt.

Ég er ekki sammála allri þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á Seðlabankann en ég tel rétt, og þess vegna sagði ég það sem ég sagði á fundinum, að fram fari fræðileg úttekt á þessu viðfangsefni með þátttöku sérfræðings eða sérfræðinga erlendis frá auk innlendra aðila. Þetta hefur verið gert víða þar sem sambærilegt fyrirkomulag í peningamálum hefur verið tekið upp. Meðal annars hafa slíkar athuganir átt sér stað í Svíþjóð og í Nýja-Sjálandi. Það getur enginn gefið sér fyrir fram hver niðurstaðan úr slíkum athugunum yrði en það er hins vegar fáránlegt að ætla að leggjast gegn því, ef það var ætlun þingmannsins, að slík athugun fari fram.

Það sem ég átti síðan við með því að þetta væri senn tímabært og þegar þar að kæmi bæri að standa svona að verki, kemur líka fram í ummælum mínum. Það er vegna þess að um þessar mundir eigum við öll að taka höndum saman um að koma okkur út úr því ölduróti sem fjármálakerfi okkar er í núna. Þegar um hægist í þeim efnum er tímabært að ráðast í þessa úttekt.