135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ummæli forsætisráðherra á aðalfundi Seðlabankans.

[15:15]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Sú úttekt sem ég vék þarna að í ræðu minni er hugsuð sem alveg sjálfstætt fyrirbæri og á sér fyrirmyndir í öðrum löndum eins og ég gat um. Það hefur stundum verið talað um að það peningamálafyrirkomulag sem við komum okkur upp árið 2001 sé á vissan hátt eins og tilraun sem verið er að gera og ef það er rétt, eins og m.a. hefur komið fram hjá aðalhagfræðingi Seðlabankans, þá þarf eftir ákveðinn tíma að skoða hvernig sú tilraun hefur reynst. Og það er auðvitað hugmyndin með þessu að gera það með aðferðum nútímapeningamálahagfræði.

Hinn hluti ræðu þingmannsins var svo þetta hefðbundna karp um að ríkisstjórnin væri ekki að gera neitt og það litla sem hún gerði væri í andstöðu við markmið Seðlabankans. Ég fór nú aðeins yfir það í ræðu minni á fundinum. Ég er auðvitað ósammála þessu en við bætum okkur ekki með því að vera að kvarta eða kvabba um slík mál þegar við erum með virkilega stór og erfið viðfangsefni til meðferðar.