135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfslok forstjóra Landspítala.

[15:17]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þingmanninum er auðvitað kunnugt um það að málefni þessarar miklu og merku stofnunar heyra undir heilbrigðisráðherra. Ég tek undir það að fráfarandi forstjóri Landspítala er mjög mætur embættismaður. Ég þekki hann mjög vel og hef unnið með honum lengi. Hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu þegar ég var þar ráðherra til að byrja með, áður en hann tók við núverandi starfi, og við höfðum unnið saman áður um allnokkurt skeið, þannig að það er ekki málið. Það sem gerst hefur þarna hins vegar er að ráðherra og viðkomandi embættismaður hafa náð samkomulagi um að viðkomandi láti af störfum og ég veit ekki annað en það sé allt í góðu samkomulagi gert.