135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

málefni lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum.

[15:23]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að varpa fram þessari fyrirspurn. Hér er auðvitað um mjög veigamikið og mikilvægt mál að ræða. Því er fyrst til að svara að þessari breytingu fylgir breyting á lögum og það mun að sjálfsögðu koma til kasta Alþingis og við munum þá fá tækifæri til að ræða þessi mál til hlítar á þeim vettvangi.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á Keflavíkurflugvelli á undanförnum missirum og það er eiginlega fátt þar sem ekki hefur verið snortið vegna þeirra breytinga og nú verða þær breytingar sem hér er um að ræða. Það er viðamikið og stórt embætti sem hefur farið með þessi þrjú hlutverk og það hefur að mörgu leyti gengið mjög vel þar, sérstaklega hvað varnarþáttinn varðar, þ.e. til að varna innflutningi á fíkniefnum til landsins. Hins vegar er það alltaf þannig að það eru til fleiri en ein leið til að gera góða hluti og ég á ekki von á öðru en að vandað verði vel til þess undirbúnings sem nú stendur fyrir dyrum og þannig að honum staðið að árangur í starfi verði síst minni en verið hefur fram að þessu. Í hverri nýrri stöðu koma upp nýir möguleikar um samstarf og til að gera hlutina betur. Og ef ég þekki tollverði og lögreglumenn á Suðurnesjum rétt að munu þeir ekki láta breytingar eins og þessar verða til þess að spilla því góða starfi sem (Forseti hringir.) þeir hafa unnið á undanförnum árum.