135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

4. fsp.

[15:33]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er ákaflega ánægður með að geta glatt fulltrúa vinstri grænna hér á Alþingi. (Gripið fram í.) Til að bæta aðeins við umræðuna um almenningssamgöngur þá vil ég geta þess að í gögnum sem lögð voru fram um svæðisskipulag, sem ég las nýlega, kom fram að aðeins 4% þeirra sem ferðast á höfuðborgarsvæðinu nýta sér almenningssamgöngur, 96% fara í eigin bílum. Ég held að í rauninni vanti ekki almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu það vantar hins vegar að það sem fyrir er sé nýtt betur þótt alltaf megi bæta og gera meira. En fyrst og fremst þarf að nýta betur það kerfi sem er í gangi, þótt vafalaust megi alltaf betrumbæta. En, virðulegi forseti, ég segi bara: Það er ánægjulegt að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er ánægð með svör mín. Þannig viljum við í samgönguráðuneytinu vinna, og auðvitað í ríkisstjórninni líka, við viljum helst gleðja vinstri græna sem allra oftast.