135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er gagnlegt að fá hér tækifæri til að ræða stöðu efnahagsmála og virðist ekki af veita að gera það að minnsta kosti einu sinni í viku. Það er líka gagnlegt að fá hér formann Framsóknarflokksins ferskan, sólbrúnan og sællegan til leiks þó að ég fái ekki skilið hvernig sú hugmyndafræði Framsóknarflokksins gengur auðveldlega upp að hleypa af stað miklum þensluhvetjandi stóriðjuframkvæmdum, álversbyggingum í Helguvík og við Húsavík, en leggja jafnframt grunninn að hröðu vaxtalækkunarferli næstu mánuðina. Það vill svo til að Seðlabankinn hefur beinlínis sagt að það muni tefja fyrir möguleikum á að hefja vaxtalækkunarferli ef þensluhvetjandi stórframkvæmdir verða settar af stað við núverandi aðstæður.

Þegar ég stóð fyrir umræðum um þessa hluti rétt fyrir páska var hæstv. forsætisráðherra því miður enn á fullkomnu afneitunarstigi. Sömu daga eða rétt á eftir kom hæstv. forsætisráðherra út af ríkisstjórnarfundi staddur í ólgusjónum miðjum í þeirri viku sem gengi og hlutabréfavísitölur tóku meiri sveiflur en áður eru dæmi um á Íslandi en sagði engu að síður að ríkisstjórnin sæi ekki ástæðu til neinna aðgerða að sinni.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum, öfugt við aðra flokka, þegar lagt fram hér á þingi tillögur okkar til aðgerða í þessum efnum. Við kynntum þær þann 7. mars sl. og skömmu síðar og fyrir páska var frumvarpi okkar um ráðstafanir dreift, þar á meðal og ekki síst að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans verulega og auka eigið fé hans. Við lögðum þá til ráðstafanir sem við töldum, og ráðgjafar okkar, að ættu að vera nægar til þess að ná tökum á ástandinu, 80 milljarða kr. styrkingu á gjaldeyrisvaraforðanum og 40 milljarða kr. styrkingu á eigin fé Seðlabankans. Þar til viðbótar, og taki menn eftir, að öll gjaldeyrisvaraforðaaukningin yrði lögð inn í Seðlabankann sem eigið fé, eigið fjárframlag ríkissjóðs.

En því miður verður að segjast að svo hratt hefur ástandið versnað að óvíst er að ráðstafanir sem þá, fyrir sléttum þremur vikum, hefðu væntanlega dugað til að róa ástandið verulega og snúa þróuninni við dugi til þess í dag. Ástandið hefur líka þróast þannig að það er nær örugglega bæði erfiðara og dýrara að grípa til slíkra ráðstafana í dag en ef það hefði verið gert fyrir þremur vikum. Það er til marks um það hversu dýr sofandaháttur ríkisstjórnarinnar er að verða þjóðinni að óumflýjanlegar björgunaraðgerðir eru erfiðari og dýrari og það þarf meira til í dag en þurft hefði fyrir svo sem þremur vikum.

Ummæli hæstv. forsætisráðherra á aðalfundi Seðlabankans eru fyrsta merkið um að hæstv. forsætisráðherra sé að komast til einhverrar meðvitundar í þessum efnum. (Gripið fram í.) Þar tók hæstv. ráðherra það fram að nú væri orðið til skoðunar hjá ríkisstjórn að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og talaði reyndar um úttektina sem í fyllingu tímans — senn, bráðum, þegar þar að kæmi — yrði kannski gerð á því hvort peningastefnan væri að virka.

Formaður Samfylkingarinnar tók í sama streng á flokksstjórnarfundi um helgina og tengdar ákvörðun Seðlabankans um vexti á þriðjudaginn eftir páska voru hliðarráðstafanir sem rýmka aðgang fjármálastofnana að lausu fé og mæltust almennt jákvætt fyrir. Þar á meðal var kynnt um skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs sem við lögðum einmitt til í frumvarpi okkar og menn geta lesið sér til um á þskj. 774. Því má segja að einn liður tillagna okkar sé þegar kominn til framkvæmda að hluta til og annar á dagskrá hjá stjórnarflokkunum og við fögnum því. Við fögnum því að forustumenn stjórnarflokkanna eru nú farnir að skoða það í alvöru að auka gjaldeyrisvaraforðann og grípa til frekari ráðstafana.

Hæstv. forsætisráðherra biður um að menn standi saman og stilli saman strengi, og ekki skal standa á okkur í því. Við höfum lagt okkar grundvöll fram, okkar tillögur og hann liggur fyrir. Aðrir eru að bregðast við þeim og að hluta til taka undir þær og það er gott. En þá bið ég líka hæstv. ríkisstjórn að líta í eigin barm og hætta sundurleysistali við þessar erfiðu aðstæður.

Eða hvað á það að þýða að hæstv. viðskiptaráðherra skuli koma út af ríkisstjórnarfundi núna fyrir helgina og segja hvað? Ja, hann telur koma til greina að tengja krónuna við evru. Og fjölmiðlar náttúrlega ráku upp stór augu. Var þetta rætt á ríkisstjórnarfundinum? Nei, sagði hæstv. viðskiptaráðherra. (Gripið fram í.) Nei, sagði hæstv. viðskiptaráðherra og ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Getur það orðið liður í nauðsynlegum aðgerðum á sviði efnahagsmála að semja við Samfylkinguna um að þegja í eins og hálft ár? Að Samfylkingin tali ekki um efnahagsmál meðan hún hefur ekkert annað fram að færa en japlið um að taka einhliða upp evru eða eitthvað annað í þeim dúr sem er ekki í kortunum. Sem er afvegaleiðandi tal sem grefur undan og veikir tiltrú manna á því að einmitt þetta sé að gerast, að menn hafi stillt saman strengi, samræmt málflutning sinn og ætli í alvöruaðgerðir sem duga til. Ég held að það gæti verið mikilvægur hluti af nauðsynlegum efnahagsráðstöfunum að ná fram samkomulagi við Samfylkinguna um að hún tali ekki um þessi mál í um það bil hálft ár á meðan menn eru að reyna að ná tökum á ástandinu.

Það þarf samstilltar aðgerðir. Það þarf átak og það má ekki dragast að fara að sýna að menn taki hlutina alvarlega. Við megum ekki gleyma einum hlut þó það sé erfitt og leiðinlegt að þurfa að tala um það. Við megum ekki gleyma hættunni á því að hlutirnir geti enn átt eftir að versna umtalsvert. Það heyri ég víða úr fjármálakerfinu um þessar mundir að af því hafa menn mestar áhyggjur að ríkisstjórnin sé líka að skerast úr leik hvað það varðar að hún taki ekki hættuna á enn dýpri kreppu og meiri erfiðleikum alvarlega.

Með hverjum degi, hverri viku sem það dregst að sýna að hér séu komin einhver samstillt alvörutök á þessum hlutum verður staðan hættulegri. Að sjálfsögðu ætlum við okkur að vinna okkur í gegnum þessa erfiðleika og sigrast á þeim. En það mun taka í vegna þess að það er engin einföld og sársaukalaus leið til út úr þeim erfiðleikum sem við höfum að mestu leyti búið okkur til sjálf. Og það er flótti frá veruleikanum að kenna tiltölulega nýtilkomnum efnahagsóróleika á alþjóðavettvangi um kjarna íslenska efnahagsvandans. Hann er því miður heimatilbúinn, afleiðing af hagstjórnarmistökum undangenginna missira og ára og mátti vera öllum fyrirsjáanlegur enda var við honum varað.