135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:27]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Vandi okkar nú er vissulega mikill og er hann að stórum hluta vegna þróunar á alþjóðavísu, byltinga m.a. á erlendum fjármálamörkuðum og lánsfjárkreppu. Við Íslendingar ráðum engu um hvað gerist á erlendum mörkuðum. Útrás íslensku bankanna sem svo mikið lof var borið á undanfarin ár er nú í uppnámi. Hvar er nú styrkur þeirra og stöðugleiki?

Bankar og fjármálafyrirtæki erlendis hafa vissulega einnig lækkað á verðmætamörkuðum erlendis. Í þeirri þróun sem verið hefur undanfarna sex mánuði er uppsveiflan horfin og úrvalsvísitalan þar sem fjármálafyrirtækin ráða ferðinni hrunin úr 8.600 í byrjun október í 5.000 nú. Síðastliðinn mánuð hefur úrvalsvísitalan á verðbréfamörkuðum okkar verið að mestu undir 5.000. Það undarlega við þessa stöðu er að engin greiningardeild bankanna varaði við þeirri þróun fyrir fimm til sex mánuðum síðan. Það gerði fjármálaráðherra ekki heldur í október síðastliðnum þegar við ræddum efnahagsmál og fjárlög fyrir árið 2008.

Nú erum við komin í þá stöðu að ríkið þarf að taka stórlán erlendis til þess að efla gjaldeyrisstöðuna og verja stöðu íslensku bankanna og fjármálakerfisins. Þetta eru miklar sviptingar á ekki lengri tíma og furðulegt að upplifa að engin greiningardeild í bankakerfinu gæti varað við þessari þróun né heldur fjármálaráðuneytið sem sá enga ástæðu til viðbragða á síðastliðnu hausti. Mig langar að vitna í ræðu hæstv. fjármálaráðherra við 1. umr. fjárlaga, hæstv. forseti, um nýja leið. Þar sagði m.a. snemma í ræðu ráðherrans:

„Ríkisfjármálin standa á óvenju traustum grunni og er áætlað að ríkissjóður verði rekinn með ríflega 30 milljarða króna afgangi á næsta ári.“ — Þ.e. á þessu ári. — „Ríkisfjármálum verður því áfram beitt til aðhalds þrátt fyrir mikið átak í samgöngubótum og þrátt fyrir að til komi tímabundin útgjöld vegna mótvægisaðgerða til að mæta samdrætti í þorskafla. Fyrri spár gerðu ráð fyrir tæplega 5 milljarða tekjuhalla á næsta ári og að gengið yrði á innstæður ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands. Þess í stað er nú gert ráð fyrir áframhaldandi lækkun skulda og að staðan við Seðlabanka batni enn. Ríkisfjármálastefnan er því ábyrg þótt nauðsynlegt sé að auka útgjöld tímabundið vegna ytri aðstæðna og til að byggja upp innviði samfélagsins.“

Þessi kafli var úr ræðu hæstv. fjármálaráðherra á síðastliðnu hausti fyrir aðeins sex mánuðum síðan. Hæstv. ráðherra sagði einnig að staðan væri góð og að mörgu leyti væri bjart fram undan í efnahagsmálum. Þá var einnig bent á að framreikningar bentu til þess að staða ríkissjóðs yrði áfram góð, en að horfurnar gætu breyst.

Þetta var nú meginefnið í ræðu hæstv. fjármálaráðherra á síðastliðnu hausti.

En vissulega sagði hæstv. ráðherra, svo að sannmælis sé gætt, að ef til vill gæti þróunin orðið á einhvern annan veg. Við höfum nú tekið þátt í efnahagsumræðum fram og til baka á síðastliðnu hausti og það sem af er vetri og í raun og veru hefur verið talað niður til stjórnarandstöðunnar. Auðvitað er ágætt að vera bjartsýnn eins og ráðherrann var og gefa lítinn gaum að viðvörunum. Það er þó einfaldlega staðreynd að þegar stjórnarandstaðan hefur tekið málin upp hafa hæstv. ráðherrar, bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra, talað niður til hennar og sagt að við værum að mála skrattann á vegginn, tala niður stöðu Íslands o.s.frv.

Nú liggur sú staðreynd fyrir að okkur er vandi á höndum og ráðamenn ríkisstjórnarinnar ræða um að ríkissjóður muni þurfa í lántökur erlendis, að efla verði gjaldeyrisforðann og að ríkissjóður muni verja bankana og fjármálakerfið. Hver talaði um það þegar bankarnir voru einkavæddir eða á meðan útrásin var á fullu?

Nú er rætt um að ganga í ESB eins og það sé einhver töfralausn í þessari stöðu. Eigum við ekki að leggja þá umræðu til hliðar? Sú langa vegferð að ganga í ESB leysir ekki vandann. Við verðum í þessari stöðu að verja íslensku krónuna, við eigum ekki annan kost eins og staðan er. Við verðum einnig að leitast við að lækka verðbólgu, styrkja atvinnu og styrkja tekjugrunninn. En hvað getum við þá gert hér innan lands, hæstv. forseti?

Ríkissjóður getur lækkað álögur á olíu og bensín. Það lækkar kostnað heimilanna og hefur jákvæð áhrif til lækkunar verðbólgu. Lækkun skatta á vöruflutninga hefur sams konar áhrif og mundi það sérstaklega koma landsbyggðinni til góða. Niðurgreiðslur á matarverði landbúnaðarvara vinna gegn hækkun verðbólgu, þeirri leið má beita innan ársins. Lækkun á tollum og vörugjöldum væri fær leið til að vinna gegn hækkun verðs og lækkun verðbólgunnar og þar með verðtryggingar á lán á íslenskum krónum sem getur kollsteypt fjárhag margra fjölskyldna.

Aukinn þorskkvóti væri afar góð leið til þess að auka tekjurnar í þjóðfélaginu og þær mætti vafalaust auka um 20–25 milljarða með aðgerð þar án þess að mikil hætta væri á því að þorskstofninn lifði það ekki af.

Ljóst er að skuldir sjávarútvegsins munu vissulega aukast við gengisfellingu og breytingar á gengi íslensku krónunnar. Það er hins vegar staðreynd að tekjur af atvinnu í sjávarbyggðunum þarf að efla. Ég fæ ekki séð annað en að við verðum að marka stefnu sem finnst í orkuvirkjunum og iðnaðarmálum. Margt bendir nú til þess að verulega hægi á í íbúðabyggingum á næstunni. Upplýst er að mikið dragi úr aðsókn í lánveitingar, m.a. hjá Íbúðalánasjóði.

Ég held að segja megi að við séum hér að leggja til tímabundna niðurfærsluleið en jafnframt að bregðast við með því að auka tekjur. Ég held að önnur leið sé ekki fær og við verðum að takast á við vandann sem við blasir. Hann verður ekki leystur með því að tala um Evrópusambandið og að við séum á leiðinni þangað inn. Hann verður ekki leystur með því að halda því fram að við getum tekið hér upp evru. Hann verður fyrst og fremst leystur eins og nú er málum komið með því að taka á vandanum innan lands, hæstv. forseti.