135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:48]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hina merku sögupersónu Soffíu í Kardimommubænum bar hér á góma í umræðunni og víst er að hún var ansi skemmtileg kona. En ég vil vekja athygli manna á því að þannig var nú ástandið þegar henni var rænt að hún var sofandi og ekki var mikið gagn af henni fyrr en búið var að vekja þá gömlu. En þá tók hún líka til hendinni. Ég ætla að vona að það kannski megi sannast á ríkisstjórninni eins og Soffíu frænku, að loksins þegar tekst að vekja hana þá taki hún til hendinni svo um muni og fari að aðstoða okkur í stjórnarandstöðunni við að grípa til nauðsynlegra efnahagsaðgerða til þess að ná utan um þann mesta vanda sem við stöndum frammi fyrir sem er ójafnvægið í íslensku efnahagslífi og er fyrst og fremst innlendur vandi eins og fram kom í máli formanns Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjóns Arnar Kristjánssonar.

Það er okkar stóra viðfangsefni að ná tökum á efnahagsstjórninni þannig að hér verði jafnvægi, þannig að menn geti gripið til aðgerða til þess að ná niður verðbólgunni. Það er verðbólgan sem er komin á kreik, virðulegi forseti, og stefnir núna yfir tveggja stafa tölu í fyrsta skipti í mjög mörg ár. Það er verðbólgan sem er versti óvinur heimilanna á Íslandi vegna þess hversu mjög þau eru skuldsett. Skuldsetning íslensku heimilanna hefur aldrei verið meiri en hún er nú. Ég vil leyfa mér að segja, virðulegi forseti, að ef menn missa verðbólguna úr böndunum þá er voðinn vís í fjármálum íslenskra heimila. Ef verðbólga verður 10% þá munu skuldir heimilanna hækka um 100 milljarða kr. eða meira á einu ári. Það er meira en 20% af öllum launatekjum ársins. Meira en fimmta hver króna sem menn afla á þessu ári mun fara í hækkun skulda bara á einu ári. Þetta er viðfangsefni okkar virðulegi forseti og það er skylda íslenskra stjórnmálamanna að sameinast um aðgerðir til að ná verðbólgunni niður, halda aftur af skuldahækkun íslensku heimilanna. Það er fyrsta, annað og þriðja verkefnið sem við stöndum frammi fyrir.

En til þess að ná árangri í þeim efnum þá verður auðvitað að vekja Soffíu frænku, virðulegi forseti. Það verður að fá ríkisstjórnina til að átta sig á því að þetta er viðfangsefni sem hún á að hafa forustu um að leysa. Það þýðir ekki að ræða um Evrópusambandið eða evruna. Hvort tveggja er út af fyrir sig málefni sem vert er að ræða en tengist á engan hátt lausn á vanda í íslenskum efnahagsmálum um þessar mundir, virðulegi forseti.