135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

429. mál
[16:59]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu nefndar, sem dreift hefur verið, samkvæmt lögum nr. 26/2007, sem fjallar um starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

Í kjölfar opinberrar umræðu um ofbeldi og illa meðferð sem börn hefðu verið beitt á vistheimilinu Breiðavík ákvað Alþingi með lögum, að tillögu ríkisstjórnarinnar, að heimila forsætisráðherra að setja á fót nefnd sem tæki slíkar ásakanir til athugunar. Þótt fyrir lægi að þetta tiltekna vistheimili yrði skoðað fyrst var ákveðið að einskorða slíka heimild ekki við tiltekna stofnun heldur gæti slík athugun tekið til annarra vist- og meðferðarheimila fyrir börn sem starfrækt voru á árum áður.

Nefndin var sett á fót fyrir réttu ári, með erindisbréfi dagsettu 2. apríl 2007. Skyldi nefndin kanna tildrög þess að börn voru vistuð á Breiðavíkurheimilinu, staðreyna hvort börn hafi sætt illri meðferð og/eða ofbeldi á meðan dvöl þeirra stóð, leggja mat á hvernig opinberu eftirliti með starfsemi heimilisins hafi verið háttað og leggja grundvöll að tillögugerð til stjórnvalda um frekari viðbrögð. Í nefndina voru skipuð þau Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, formaður, dr. Friðrik Jón Sigurðsson, dósent við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðusálfræðingur á Landspítalanum, dr. Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Kennaraháskóla Íslands, og dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Þuríður B. Sigurjónsdóttir lögfræðingur hefur gegnt starfi ritara nefndarinnar.

Nefndin hefur tekið viðtöl við drjúgan hluta þeirra einstaklinga sem voru vistaðir sem börn á Breiðavík og enn eru á lífi, tekið skýrslur af fyrrverandi starfsmönnum Breiðavíkurheimilisins og aflað skjala frá opinberum stofnunum. Þá var aflað sérfræðilegra greinargerða og má þar nefna sérstaklega skýrslu Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, um sögu uppeldisstofnana á Íslandi og helstu meginþætti barnaverndarmála á þeim árum sem könnun nefndarinnar tekur til, álitsgerðir dr. Gísla H. Guðjónssonar, prófessors í réttarsálfræði við King's College í London, um trúverðugleika framburðar fyrrverandi vistmanna og starfsmanna á Breiðavík, og álitsgerð Viðars Más Matthíassonar prófessors um atriði er varða skaðabótarétt.

Eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar hefur hún horft til þess að hið afar vandasama verkefni hennar beinist að mati á atvikum og aðstæðum á tímabili sem er um margt frábrugðið samfélagi nútímans. Þá hefur sambærileg könnun ekki farið fram áður hér á landi. Nefndin hefur leitast við að varpa almennu ljósi á sannleiksgildi frásagna en hún hefur ekki talið fært að fjalla sérstaklega um sannleiksgildi einstakra frásagna. Þá tekur nefndin fram að þótt ýmsar niðurstöður hennar bendi eindregið til þess að margt hafi farið mjög miður í starfsemi Breiðavíkurheimilisins sé ljóst að sumir vistmenn lýsa dvölinni með jákvæðum hætti. Einnig sé ljóst að meiri hluti þeirra sem störfuðu beint eða óbeint að málefnum heimilisins leitaðist við að vinna sín störf eftir bestu getu. Þá lætur nefndin þess einnig getið, þótt það hafi ekki verði í verkahring hennar beinlínis að athuga slíkt, að húsakostur og ýmiss aðbúnaður var vart fullnægjandi á köflum. Þá hafi komið fram vísbendingar um að lögboðinni fræðslu hafi eftir atvikum verið mjög ábótavant.

Alls voru 158 einstaklingar vistaðir á Breiðavík á árunum 1952–1979 eftir því sem nefndin kemst næst. Fram til 1973 voru þetta allt drengir á aldrinum sjö til sextán ára, en frá þeim tíma voru stúlkur einnig vistaðar á Breiðavík. Meðalvistunartími var 21,1 mánuður en sumir dvöldu þar í nokkur ár. Í skýrslunni kemur fram að aðbúnaður barna var mismunandi á því tímabili sem heimilið var starfrækt sem meðal annars skýrist af því að alls gegndu 9 manns forstöðu fyrir heimilinu á tímabilinu. Er það meginniðurstaða nefndarinnar að á árunum 1955 til 1972 verði talið, þegar á heildina er litið, að meiri líkur en minni séu á því að sumir vistmenn hafi sætt illri meðferð og/eða ofbeldi, ýmist af hálfu annarra vistmanna og/eða tiltekinna starfsmanna á Breiðavíkurheimilinu. Fyrir og eftir þetta 17 ára tímabil sé hins vegar ekki hægt að komast að sömu niðurstöðu. Niðurstaðan er nákvæmari en hér er lýst, á sumum tímabilum telur nefndin meiri líkur en minni á að ofbeldi hafi verið beitt af hálfu starfsmanna, á öðrum af hálfu vistmanna og enn öðrum af hálfu hvorra tveggju. Vísast nánar tiltekið um einstök tímabil til skýrslunnar sjálfrar. Nefndin byggir á ákveðinni aðferðafræði við mat á sannleiksgildi frásagna sem styðst meðal annars við sérfræðilegt mat prófessors Gísla H. Guðjónssonar réttarsálfræðings.

Hvað varðar tildrög vistunar á tímabilinu 1952 til 1972 telur nefndin að í einhverjum tilvikum leiki vafi á lagagrundvellinum, komið hafi fyrir að börn væru vistuð þar fyrst og fremst vegna háttsemi foreldra, örbirgðar eða annarra heimilisaðstæðna en ekki beinlínis eða í meginatriðum vegna háttsemi eða hegðunar barnsins sjálfs. Þá hafi einnig verið tilteknir ágallar á málsmeðferð af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Ætla megi að ákvarðanir barnarverndarnefnda utan Reykjavíkur hafi verið haldnar sambærilegum annmörkum þótt gögn skorti til að fullyrða um það. Á árinu 1973 hafi stjórnskipulagi Breiðavíkurheimilisins verið breytt með reglugerð og telji nefndin ekki tilefni til sömu gagnrýni varðandi árin þar á eftir. Þá telur nefndin að opinberu eftirliti með starfseminni hafi verið ábótavant alla tíð. Og jafnvel í þeim tilvikum að athugasemdir voru gerðar af hálfu starfsmanna eða eftirlitsmanna við aðbúnað þá leiddu þær ekki til úrbóta.

Eins og fram kemur í skýrslunni eru hugsanlegar bótakröfur vegna tjóns sem vistmenn hafa orðið fyrir fyrndar. Hyggist stjórnvöld eigi að síður greiða þeim sem í hlut eiga bætur umfram skyldu er bent á tvær meginleiðir sem til greina komi. Annars vegar að leysa úr hverju máli fyrir sig á grundvelli kröfu frá viðkomandi einstaklingi. Hins vegar að sett yrðu lög sem heimiluðu að greiddar yrðu skaðabætur á almennum grundvelli.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið stiklað á stóru í skýrslu nefndarinnar. Ég vil nota tækifærið til að þakka nefndinni sem vann skýrsluna fyrir þá ítarlegu, krefjandi og held ég megi segja tæmandi rannsókn sem hún hefur innt af hendi. Það að slík úttekt hafi verið gerð á Breiðavíkurheimilinu er út af fyrir sig stórt skref í þá átt að draga fram og viðurkenna ábyrgð samfélagsins gagnvart þeim einstaklingum sem átt hafa um sárt að binda í kjölfar dvalar sinnar á Breiðavík. Ljóst er að opinberir aðilar brugðust þeim sem síst skyldi. Í skýrslunni er brugðið upp átakanlegri mynd af aðstæðum sem þessi hópur drengja mátti búa við á ákveðnu tímabili í íslenskri sögu. Vissulega var tilgangurinn með rekstri heimilisins góður en ljóst er að hvergi nærri var vandað nógu vel til umgjarðarinnar. Er til dæmis ljóst að það eitt að vista saman barnunga drengi og pilta sem komnir eru á unglingsár getur boðið heim hættu á misnotkun. Þá voru börn í sumum tilfellum vistuð á hæpnum grundvelli á Breiðavíkurheimilinu, aðstæður þar voru engan veginn fullnægjandi né þroskavænlegar og fyrir liggur að drengir sættu í einhverjum mæli illri meðferð og ofbeldi, í sumum tilfellum kynferðislegu ofbeldi, annaðhvort af hálfu annarra vistmanna eða starfsmanna. Ekki leikur vafi á því að einhverjir þeirra sem voru vistaðir á Breiðuvík urðu þar fyrir varanlegu tjóni á sálinni sem rekja má til vanrækslu opinberra aðila. Mátti þó öllum sem kynntu sér starfsemi heimilisins vera ljóst að þar væri ekki nógu vel staðið að málum, ekki síst vegna einangrunar, skorts á menntuðu starfsfólki og þeirrar hættu sem felst í að vista saman drengi á ólíkum aldri.

Þegar ríkisstjórnin fjallaði um skýrsluna í síðasta mánuði voru ákveðin þrenns konar viðbrögð af hennar hálfu. Í fyrsta lagi yrðu sem fyrst samin drög að frumvarpi til laga þar sem mælt yrði fyrir um greiðslu bóta til þeirra sem vistaðir hafa verið á stofnunum eða heimilum sem heyra undir gildissvið laga nr. 26/2007 að vissum skilyrðum uppfylltum. Eftir atvikum yrði tekið sérstakt tillit til þarfar á stuðningi vegna geðheilbrigðisþjónustu. Var forsætisráðuneytinu og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu falinn undirbúningur málsins. Hefur Viðar Már Matthíasson prófessor tekið að sér að semja slíkt frumvarp og er þess vænst að hægt verði að leggja frumvarpið fram fyrri hluta maímánaðar næstkomandi. Að mati þessara tveggja ráðuneyta er rétt að við samningu frumvarps sé leitast við að setja fram reglur sem tryggi að þeir sem orðið hafa fyrir varanlegu tjóni vegna vistunar á stofnunum eða heimilum er falla undir lög nr. 26/2007 og vanrækslu af hálfu ríkisins eða starfsmanna þess hljóti sanngjarnar bætur. Jafnframt verði þó gert kleift að inna bætur af hendi án tímafrekrar og kostnaðarsamrar athugunar á því hvort bótaskilyrði séu uppfyllt enda liggi fyrir skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 um viðkomandi stofnun þar sem fram komi að óforsvaranlega hafi verið staðið að málum. Jafnframt verði gætt samræmis við bótafjárhæðir á öðrum skyldum sviðum íslensks réttar og réttarframkvæmdar.

Í öðru lagi var rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar að nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 yrði falið með erindisbréfi forsætisráðherra að hefja almenna könnun á öðrum heimilum og stofnunum er falla undir gildissvið laga nr. 26/2007. Stefnt skyldi að því að ljúka þeirri könnun á þremur árum en áfangaskýrslu yrði skilað árlega á því tímabili. Ekki yrði sem sagt um það að ræða að gefa út erindisbréf til könnunar á einstaka heimilum eða stofnunum. Er ástæðan meðal annars sú að ætla má að Breiðavíkurheimilið hafi haft nokkra sérstöðu, meðal annars vegna einangrunar sinnar. Einnig hefur nefndin nú mótað verklag við rannsókn af þessu tagi sem ætti að auðvelda henni að taka fleiri en eina stofnun eða heimili fyrir í einu. Er áformað að nýtt erindisbréf verði gefið út til nefndarinnar á næstu dögum en þess má geta að núverandi nefndarmenn hafa lýst sig reiðubúna til að halda starfi sínu áfram.

Í þriðja lagi var félags- og tryggingamálaráðherra falið að beita sér fyrir nauðsynlegum úrbótum á núgildandi fyrirkomulagi barnarverndarmála í samræmi við tillögur nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007. Með því er undirstrikað að ekkert því líkt sem átti sér stað á Breiðavíkurheimilinu má gerast aftur.