135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

429. mál
[17:38]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Málið sem við ræðum í þingsal í dag er mjög sérstakt og umræðan annars eðlis en venjulega fer fram í salnum. Hún er langt frá því að vera dægurþras og ég held að við skynjum það öll sem hér erum inni.

Skýrslan sem við fjöllum um, könnun á starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979, er að mínu mati afar vandað verk. Þar er farið mjög faglega í verkefnið sem nefndinni var falið. Ég tel að það sé gert á nærgætinn hátt. Ljóst er að ekki hefur farið fram sambærileg könnun hér á landi og reyndar ekki erlendis heldur, þ.e. ekki á nákvæmlega sama hátt og hér hefur verið gert. Þessi vinna á sér eiginlega ekki fordæmi.

Það er sérstakt við málið að það er langt síðan þeir atburðir áttu sér stað sem um er fjallað. Það eru 29–55 ár síðan sem gerir verkefnið afar vandasamt. Þar fyrir utan áttu þessir atburðir sér stað á tímabili sem er um margt frábrugðið samfélagi nútímans eins og kemur fram í skýrslunni.

Málið hófst á því að á fyrri hluta ársins 2007 birtust frásagnir í fjölmiðlum af atburðum og málið verður mjög heitt og það lendir m.a. á herðum þáverandi félagsmálaráðherra Magnúsar Stefánssonar. Hann tók á því og ég vænti þess að hann muni skýra frá því síðar í sinni ræðu. Ríkisstjórnin ákvað 13. febrúar 2007 að leggja fram frumvarp um að fara í heildstæða athugun á heimilinu og eftir atvikum hliðstæðum stofnunum og sérskólum þar sem börn dvöldu. Það átti að kanna málið, kanna tildrög vistunar og afla nýrra gagna. Ræða átti við einstaklinga og starfsmenn og kanna sannleiksgildi frásagnanna um hugsanlegt ofbeldi og illa meðferð. Það átti líka að kanna hvaða eftirlit hefði farið fram á þessu tímabili. Síðan átti nefndin að koma með tillögur til stjórnvalda um viðbrögð.

Ég vil nefna, virðulegur forseti, að þann 16. mars ákvað sú sem hér stendur, sem þá var í hlutverki heilbrigðisráðherra, að opna geðheilbrigðisþjónustu, sem hafði verið ákveðin fyrir þá sem höfðu dvalist á Breiðavíkurheimilinu, fyrir aðra sem hugsanlega áttu um sárt að binda vegna meðferðar og vistunar á öðrum stofnunum. Þá þegar var brugðið á það ráð að opna fyrir aðgengi fleiri að geðheilbrigðisþjónustunni. Sérstaklega var tilgreint að aðstoða ætti þá sem eru heyrnarskertir, í því sambandi, sem þyrftu túlkun.

23. mars í fyrra samþykkti Alþingi lög um skipan þessarar nefndar og 2. apríl þá skipar hæstv. forsætisráðherra nefndina og því er nánast ár síðan nefndin var skipuð. Í nefndinni voru prófessor Róbert R. Spanó, dr. Jón Friðrik Sigurðsson, dr. Ragnhildur Bjarnadóttir, dr. Sigrún Júlíusdóttir og tveir ritarar sem störfuðu með nefndinni, fyrst Aagot V. Óskarsdóttir og svo tók við Þuríður B. Sigurjónsdóttir.

Í skýrslunni er hlutverki og verklagi nefndarinnar ágætlega lýst á bls. 8. Nefndin fékk tvær meiri háttar álitsgerðir inn í skýrslu sína. Annars vegar frá dr. Gísla H. Guðjónssyni, prófessor í réttarsálfræði við King´s College í London og hins vegar frá Viðari Má Matthíassyni, prófessor í skaðabótarétti við Háskóla Íslands.

Varðandi verklagið ákvað nefndin að bjóða öllum í viðtal. Þar var ekkert úrtak heldur öllum boðið í viðtal. Ég tel að afar gott hafi verið að standa þannig að málum. Markmiðið með þessum viðtölum var að fara í gegnum samræmdar spurningar en markmiðið var að meta sannleiksgildi frásagna um hvort börn hefðu sætt illri meðferð og ofbeldi á Breiðavíkurheimilinu. Varpa átti almennu ljósi á heildina, á það hvort meiri eða minni líkur væru á að slíkt ofbeldi eða slík misnotkun hefði farið fram á heimilinu. Þetta var almenn rannsókn og ekki reynt að meta sannleiksgildi einstakra frásagna heldur að öllu samanteknu hvort meiri eða minni líkur væru á að eitthvað væri á ferðinni sem ekki teldist ásættanlegt.

Líklega voru 158 börn vistuð á heimilinu á þessum tíma, 33 einstaklingar eru látnir eða 21%. Nefndin tók viðtöl við 80 einstaklinga og einn vildi að skila skriflegu áliti. Af þeim 125 sem hefðu getað farið í viðtöl þá fóru 80 í viðtöl. Nokkrir vildu ekki fara í viðtöl, aðrir fundust ekki o.s.frv. þannig að að mínu mati er það frekar hátt hlutfall sem ákvað að tjá sig. Reynt var að ná í fólkið með ýmsum hætti, m.a. í gegnum heimasíðu samtakanna Breiðavíkursamtökin.is.

Allir sem fóru í viðtölin samþykktu hljóðritun nema tveir. Mér fannst líka athyglisvert að af þeim sem fóru í gegnum erfitt ferli, að lýsa svo erfiðri reynslu, skyldu allir nema tveir samþykkja hljóðritun á viðtölunum. Þau voru flest um klukkustundar löng.

Einnig var rætt við 20 fyrrverandi starfsmenn og sé allt lagt saman, 80 vistmenn, 20 starfsmenn og að einn vistmaður skilaði skriflegu, þá eru þetta um og yfir 100 manns sem tjá sig um starfsemina á þessum tíma og leggja sitt af mörkum til að upplýsa málið.

Það kemur í ljós að reksturinn var mjög kaflaskiptur á þessum tíma. Hann skiptist eftir því hverjir voru forstöðumenn á hverjum tíma. Á umræddu tímabili voru þarna níu forstöðumenn og þess vegna skiptist reynsla fólks af heimilinu í níu tímabil. Það er athyglisvert að á tímabili hvers forstöðumanns voru starfandi starfsmenn sem í flestum tilvikum létu af störfum við ráðningu nýs forstöðumanns. Einhverra hluta vegna kom nýtt gengi inn og meira og minna allir starfsmennirnir hættu með viðkomandi forstöðumanni. Þetta er svolítið sérstakt. Erfitt er að dæma um af hverju þetta var en það er eins og ekki hafi verið mikil festa í starfsmannahaldi. Starfsfólk sópaðist inn og út með forstöðumanninum á hverjum tíma.

Nefndin skoðaði sérstaklega og afmarkaði hugtökin ill meðferð og ofbeldi. Það er upplýsandi að lesa um það í skýrslunni. Ég ætla ekki að fara nánar út í það en nefndin ákvað að vinna með hugtök sem hún skilgreindi og reyndi að átta sig á og er því ekki að slá neinu fram. Þetta var allt mjög yfirvegað, eins og ég skynja það í skýrslunni.

Varðandi það sem þarna átti sér stað er ljóst að margt fór úrskeiðis. Mikil einangrun fylgdi því fyrir drengina að vera fjarri fjölskyldum sínum. Húsakosturinn var ófullnægjandi. Kennslan var ófullnægjandi. Það var mikill aldursmunur á drengjunum sem voru þarna vistaðir sem hafði mikla annmarka í för með sér. Mjög mikla annmarka. Drengirnir voru sumir kynþroska og aðrir yngri. Hinir eldri kúguðu þá yngri. Þetta var afar óheppileg samsetning. Ofan á þetta voru sumir starfsmenn frekar lítið menntaðir og forstöðumenn líka. Sumir drengjanna bjuggu við þessar aðstæður í langan tíma, sumir lengur en fjögur ár. Á árunum 1952–1972 var meðalvistunartími tæp tvö ár eða 21,1 mánuður.

Brotalamir voru á því hvernig valið var inn á heimilið eins og hér hefur komið fram. Það átti að velja inn þá sem höfðu afbrotasögu eða voru á glapstigum, eins og það heitir. En þarna voru líka sendir inn drengir sem aðeins höfðu erfiðar heimilisaðstæður á bakinu, skrópuðu í skóla o.s.frv. Þannig var ekki í öllum tilvikum rétt staðið að vali á börnum inn á heimilið.

Ljóst er að eftirlit var ófullnægjandi á heimilinu. Símon Jóhannes Ágústsson sálfræðingur fór árlega í heimsóknir til Breiðavíkur á vegum barnaverndaryfirvalda 1959–1972, í 13 ár. Hann kemst að því að þar skorti verulega á eftirlit. Það kemur fram í skýrslunni að skort hefði á eftirlit menntamálaráðuneytisins. Það brást ekki við ábendingum Símonar um aðbúnað og fjölda og um að menntun starfsmanna á Breiðavík væri ábótavant. Það skorti líka á skipulagt og kerfisbundið eftirlit barnaverndarráðs og stjórnarnefndar Breiðavíkurheimilisins, sérstaklega í ljósi þess hvers eðlis starfsemin var og þeim hópi ungra barna sem þarna var vistaður.

Það er athyglisvert að lesa um hvernig til heimilisins var stofnað. Frá því er greint á bls. 42 í skýrslunni. Í nefnd sem skyldi sinna þeirri vinnu voru skipaðir af menntamálaráðherra Gísli Jónsson alþingismaður, sem var formaður, Magnús Jónsson kennari og Þorkell Kristjánsson, starfsmaður barnaverndar Reykjavíkur. Á fyrsta fundi nefndarinnar var tekin ákvörðun um að leggja til að opnað yrði vistheimili í Breiðavík. Strax í kjölfarið kemur fram mikil gagnrýni á það. Sjö einstaklingar, allir sérfræðingar á sviði uppeldis- og sálarfræði, senda bréf, gagnrýna staðarvalið og koma með rök á bak við það. Þeir benda á að þetta sé of langt í burtu, sé einangrað og erfitt að fá hæft starfsfólk á staðinn, að þetta yrði slæmt gagnvart fjölskyldutengslum drengjanna, kostnaðarsamt o.s.frv. Þeir draga þá þegar fram mikla annmarka.

Formaður nefndarinnar gerði lítið úr athugasemdum sérfræðinganna og það má svolítið lesa að svörin hafi byggst á því að sérfræðingar ættu ekki að hafa svo miklar skoðanir á þessu. Í svarbréfi formanns segir m.a. að drengirnir eigi ekki að vera tilraunadýr hálærðra prófessora eða sálfræðinga heldur alast upp undir skilyrðum á borð við þau sem þeir síðar lifi við þegar þeir þurfi að fara að vinna sjálfstætt í lífinu. Þannig skín svolítið í gegn hugsunarhátturinn hjá mörgum á þessum tíma og er alltaf erfitt að dæma um það eftir á.

En það sem sérfræðingarnir bentu á kom síðan meira og minna í ljós að var rétt. Því miður. Það kemur meira og minna í ljós. Það er hægt að lesa það á blaðsíðu 129–131 í skýrslunni, í úttektum hans Símonar Jóhannesar Ágústssonar sálfræðings, að reglulegar heimsóknir hans í 13 ár sýndu að þetta var allt mjög óheppilegt. Staðsetningin var óheppileg og við það bætist að blandan af börnunum, þ.e. aldursbilið var óheppilegt. Hann gerir miklar athugasemdir við þetta. Því miður virðist ekki hafa verið tekið mark á því. Allar viðvörunarbjöllur glumdu en það var ekki tekið mark á þeim.

Ég vil líka draga það fram að Gísli H. Guðjónsson gerði rannsókn árið 1974 þar sem tímabilið 1953–1970 var skoðað. Hann skoðar 64% drengjanna sem þá höfðu verið á heimilinu, 71 dreng og kemst að þeirri niðurstöðu að árangur vistunar á Breiðavíkurheimilinu hafi ekki verið ásættanlegur. Hann leggur til að taka upp eftirfylgniþjónustu, sem er reyndar sambærilegt við það sem Símon Jóhannes Ágústsson lagði til. Gísli bendir á að mjög hátt hlutfall af drengjunum hafi farið út í afbrot eftir að vistun lauk og enginn þeirra í störf sem kröfðust menntunar o.s.frv. Rannsókn hans, sem var svo ekkert gert með eins og ég skil það, var enn eitt viðvörunarljósið. Ég tek undir með þeim sem segja að viss áfellisdómur felist í niðurstöðum skýrslunnar.

Ég vil að lokum taka undir það sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra með skaðabæturnar. Ég tel að við þurfum að skoða það í allsherjarnefnd, sem ég sit í og við fáum þessa skýrslu til meðferðar, hvernig megi koma skaðabótum til viðkomandi aðila með almennum hætti, eins og ég skil hæstv. forsætisráðherra, að geðheilbrigðisþjónustu verði viðhaldið og reynt að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fyrirbyggja að svona nokkuð geti átt sér stað í barnaverndarmálum nú til dags, að áfram verði haldið að skoða fleiri heimili sem hafa lagt niður störf og hugsanlega ekki verið í rekstri sem við getum talið ásættanlegan. Virðulegur forseti. Ég ítreka að mér líst ágætlega á þær hugmyndir sem hafa komið fram um úrbætur.